Tuesday, December 4, 2007

American Gangster (2007)

Þessi nýjasta mynd Ridley Scott er í bíó og ég skellti mér á hana í gær. Með aðalhlutverk myndarinnar fara Denzel Washington og Russel Crowe, og leikur Washington gangster í New York á sjöunda áratugnum, þegar Víetnamstríðið stóð sem hæst og eiturlyf flæddu um allar stórborgir Bandaríkjanna. Crowe leikur að því er virðist einu óspilltu lögguna í New York, sem að sjálfsögðu beinir fljótt spjótum sínum að Washington.

Ridley Scott hefur komist að grunntilgangi kvikmyndanna í American Gangster. Það hlutverk er einfaldlega að segja sögu. Sagan sem Scott segir í þessari mynd er byggð á sönnum atburðum og það er á einhvern hátt miklu magnaðra en ef myndin væri skálduð. Allar aðalpersónurnar voru til í alvörunni og urðu mjög mannlegar fyrir vikið. Að segja þessa sögu tók yfir tvo og hálfan tíma og ég naut hennar frá fyrstu mínútu.

Myndin er líka mikill vitnisburður um þennan tíma í bandarísku þjóðlífi. Allt er undirlagt af eiturlyfjavandanum og Víetnamstríðinu og Nixon forseti er oft sýndur ávarpa þjóðina í svarthvítum sjónvarpstækjum. Fatatískan er mjög einkennandi; löggurnar eru í leðurjökkum og ljósum gallabuxum og gangsterarnir eru í jakkafötum og margir þeirra mjög dólgslegum. Einnig er gaman að sjá bandarísku hermennina í Víetnam. Washington fer til Víetnam til að sækja sér eiturlyf og þar fáum við að sjá dekkri hliðar bandarískra hermanna í Víetnam á þessum tíma, heróínfíkla og drykkjusjúklinga á hóruhúsum um alla borg.

Stór kostur við þessa mynd er einnig að hún fellur ekki í þá algengu gryfju að flokka alla sem vonda kallinn eða góða kallinn. Þótt Washington sé eiturlyfjabarón er hann ekki málaður sem ótíndur glæpamaður af leikstjóranum. Myndin er heldur ekki að reyna að troða einhverjum gildum upp á áhorfandann, heldur, eins og ég sagði í byrjun, einfaldlega að segja virkilega góða sögu. Og það er allt sem þarf.

Fracture (2007)

Fracture er bandarískt réttardrama sem skartar Anthony Hopkins og Ryan Gosling í aðalhlutverkum. Plottið er á þann veg að herra Hopkins drepur konuna sína fyrir að halda framhjá sér og leikur á lögregluna og réttarhöldin í þeim tilgangi að vera sýknaður. Gosling vill hins vegar ekki láta hann komast upp með það og beitir öllum tiltækum ráðum til að sakfella Hopkins.

Fyrri hluti myndarinnar lofaði hörkuræmu. Allur frágangur á myndinni, útlit, umhverfi, klippingar og myndataka er mjög kalt og töff og karakterarnir virðast vera nokkuð skemmtilegir þegar myndin er að hefjast. Þegar myndin er um það bil hálfnuð veldur hún hins vegar miklum vonbrigðum. Á bakvið öll jakkafötin, villurnar og sportbílana er meingallað handrit, ofureinfaldaði karakterar og virkilega asnaleg framvinda.

Ég hef aldrei séð svona blekkjandi mynd áður. Yfirleitt veit maður nokkurn vegin hvort mynd sé góð eða léleg á fyrstu 10-15 mínútunum, en í þetta skiptið tók það yfir 45 mínútur. Það var leiðinlegt að sjá svona vel útlítandi mynd fara í vaskinn, en svo fór sem fór. Myndin féll í sömu gryfju og flestar aðrar miðlungsmyndir með budget. Hún lítur vel út en tekst ekki að fela það hversu mikið drasl hún er í raun.

Saturday, December 1, 2007

Haustönnin gerð upp

Þetta er búið að vera frábært, með betri fögum sem ég hef farið í. Sérstaklega hafði ég gaman að verklega þættinum og ég hlakka til að gera stuttmynd eftir áramót ásamt aukaverkefni.

Áfanginn hefur valdið því að ég hef séð mun fjölbreyttari myndir heldur en ég hefði þorað að gera á eigin vegum. Allar RIFF myndirnar, La régle du jeu, Some like it hot, Det sjunde inseglet, The General, 8½, American Movie, auk Veðramóta og Astrópíu. Uppúr finnst mér standa RIFF og íslensku myndirnar.

RIFF finnst mér standa uppúr vegna stemningarinnar sem myndaðist í kringum hátíðina. Þá náði áhuginn hjá mér vissu hámarki og nördið fékk smá útrás í að stúdera dagskránna og pæla í myndunum. RIFF færslurnar eru líklega þær sem ég lagði mesta vinnu í á blogginu mínu, einfaldlega vegna mikillar rannsóknarvinnu sem lá að baki.

Íslensku myndirnar tvær, Veðramót og Astrópía, stóðu líka uppúr vegna allra umræðanna í kringum þær. Áfanginn var nýbyrjaður og var á allra vörum í mínum vinahópi. Myndirnar voru mikið skeggræddar og það var gaman að vera á heimavelli þegar myndirnar bárust í tal annars staðar, t.d. hjá fjölskyldunni og öðrum vinum. Íslenskar myndir eru stór hluti af menningunni okkar og það er gríðarlega sterkur kostur að hafa séð þær. Ég sakna þess mest að hafa ekki séð Foreldra á haustönninni. Börn og Foreldrar eru þær íslensku myndir sem mér finnst ég verða að sjá fljótlega, sérstaklega eftir sigur Foreldra á Eddunni.

Varðandi vikulegu sýningurnar á erlendu myndunum, þá var skemmtanagildið og stemningin þar í kring nokkuð minni. Ég met þann hluta áfangans þó einnig, einfaldlega vegna þess að þetta eru myndir sem er gaman að hafa séð, þótt það sé kannski ekki mjög skemmtilegt á meðan áhorfinu stendur. Sem dæmi nefni ég Nosferatu. Þessi mynd er söguleg, og þótt leiðinlegt hafi verið að horfa á hana hef ég oft lent í að spjalla um hana eftir áhorfið. Herranótt er til dæmis að setja upp sýningu í vor sem byggir á Nosferatu.

Ég held að það sé engin tilviljun að kvikmyndafræðin hitti í mark á svona mörgum sviðum. Kvikmyndir eru neflilega ótrúlega sterkt menningarform og tengjast mörgu. Að vera vel að sér á þessu sviði er gagnlegt og skemmtilegt í fjölmörgum aðstæðum.

Ég hef ekki enn náð að horfa á síðustu skyldumyndina, þá japönsku. Planið er að skella inn færslu um hana, þrítugustu færslunni, beint eftir prófin.

Annars þakka ég fyrir mig á haustönn!