Saturday, December 1, 2007

Haustönnin gerð upp

Þetta er búið að vera frábært, með betri fögum sem ég hef farið í. Sérstaklega hafði ég gaman að verklega þættinum og ég hlakka til að gera stuttmynd eftir áramót ásamt aukaverkefni.

Áfanginn hefur valdið því að ég hef séð mun fjölbreyttari myndir heldur en ég hefði þorað að gera á eigin vegum. Allar RIFF myndirnar, La régle du jeu, Some like it hot, Det sjunde inseglet, The General, 8½, American Movie, auk Veðramóta og Astrópíu. Uppúr finnst mér standa RIFF og íslensku myndirnar.

RIFF finnst mér standa uppúr vegna stemningarinnar sem myndaðist í kringum hátíðina. Þá náði áhuginn hjá mér vissu hámarki og nördið fékk smá útrás í að stúdera dagskránna og pæla í myndunum. RIFF færslurnar eru líklega þær sem ég lagði mesta vinnu í á blogginu mínu, einfaldlega vegna mikillar rannsóknarvinnu sem lá að baki.

Íslensku myndirnar tvær, Veðramót og Astrópía, stóðu líka uppúr vegna allra umræðanna í kringum þær. Áfanginn var nýbyrjaður og var á allra vörum í mínum vinahópi. Myndirnar voru mikið skeggræddar og það var gaman að vera á heimavelli þegar myndirnar bárust í tal annars staðar, t.d. hjá fjölskyldunni og öðrum vinum. Íslenskar myndir eru stór hluti af menningunni okkar og það er gríðarlega sterkur kostur að hafa séð þær. Ég sakna þess mest að hafa ekki séð Foreldra á haustönninni. Börn og Foreldrar eru þær íslensku myndir sem mér finnst ég verða að sjá fljótlega, sérstaklega eftir sigur Foreldra á Eddunni.

Varðandi vikulegu sýningurnar á erlendu myndunum, þá var skemmtanagildið og stemningin þar í kring nokkuð minni. Ég met þann hluta áfangans þó einnig, einfaldlega vegna þess að þetta eru myndir sem er gaman að hafa séð, þótt það sé kannski ekki mjög skemmtilegt á meðan áhorfinu stendur. Sem dæmi nefni ég Nosferatu. Þessi mynd er söguleg, og þótt leiðinlegt hafi verið að horfa á hana hef ég oft lent í að spjalla um hana eftir áhorfið. Herranótt er til dæmis að setja upp sýningu í vor sem byggir á Nosferatu.

Ég held að það sé engin tilviljun að kvikmyndafræðin hitti í mark á svona mörgum sviðum. Kvikmyndir eru neflilega ótrúlega sterkt menningarform og tengjast mörgu. Að vera vel að sér á þessu sviði er gagnlegt og skemmtilegt í fjölmörgum aðstæðum.

Ég hef ekki enn náð að horfa á síðustu skyldumyndina, þá japönsku. Planið er að skella inn færslu um hana, þrítugustu færslunni, beint eftir prófin.

Annars þakka ég fyrir mig á haustönn!

No comments: