Thursday, September 27, 2007

RIFF – tíu áhugaverðar myndir (seinni hluti)

Þetta er seinni hlutinn af listanum yfir þær myndir sem mig langar mest að sjá á RIFF í ár. Fyrri hlutann má sjá hér að neðan og inniheldur hann flokkana “Heimildarmyndir”, “Mannréttindi: Írak”, “Ísland í brennidepli” og “Miðnæturmyndir”.

Heimildamyndir
My kid could paint that / Krakkinn minn gæti málað þetta
Bandaríkin (2007)

Þessi hljómar mjög hress, hún fjallar um fjögurra ára stelpu sem varð heimsfrægur málari og seldi málverk á yfir 300.000 dollara! Stelpunni var líkt við Picasso og 60 minutes fjölluðu um málið. Þetta er mjög áhugavert efni, veltir upp spurningum um hvað sé list í raun og veru og hvað sé alvöru málverk og hvað sé einfaldlega rusl.


Mannréttindi: Írak
Iraq in fragments / Írak í brotum
Bandaríkin, Írak (2007)

Mig langar að sjá þessa mynd af því að hún er tekin upp í Írak og fjallar um þrjár ólíkar hliðar á Íraksstríðinu. Auk þess var hún tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta heimildarmynd ársins 2007, þannig að það hlýtur eitthvað að vera varið í hana.


Ísland í brennidepli
Sigur Rós – Heima
Ísland (2007)

Þessi mynd á varla heima hérna, mig langar ekkert sérstaklega að sjá hana, en Árna Þór Árnason langar svo gríðarlega að sjá hana að hann er búinn að smita örlítið frá sér. Ef ég sé hana þá ætla ég að fara á hana á opnunarsýningunni, það er örugglega stemning að fara á opnunarmyndina.


Miðnæturmyndir
Black Sheep / Svartir sauðir
Nýja-Sjáland (2006)

Hryllingsmynd um erfðabreytt sauðfé á Nýja-Sjálandi og tæknibrellumennirnir unnu við Lord of the Rings. Hljómar eins og góð blanda.


Miðnæturmyndir
Trippið / The Tripper
Bandaríkin (2006)

David Arquette leikstýrir þessari mynd, en mér hefur alltaf fundist hann skemmtilegur. Auk þess að vera hryllingsmynd gerir hún mikið grín að sjálfri sér, sem hljómar frumlega og vantar oft í bíómyndir. Auk þessa á myndin að vera rammpólitísk. Mér finnst mjög spennandi að sjá hvernig Arquette fer að því að sameina hryllingsmynd og pólitíska ádeilumynd.


Það tók mig næstum klukkustund að skoða dagskránna og myndirnar sem eru í boði, en alls eru 80 myndir á RIFF í ár. Það er mjög erfitt að ákveða hvaða myndir eru þess virði að fara á út frá dagskránni einni saman. Feedback á listann og uppástungur um myndir sem ættu einnig að vera á listanum væri því vel þegið!

RIFF – tíu áhugaverðar myndir (fyrri hluti)

Eftir að hafa rennt í gegnum dagskrá kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík skrifaði ég niður þær myndir sem mig langar mest að sjá á hátíðinni. Ég fjárfesti í passa á móti Marinó Páli Valdimarssyni og er markmiðið að sjá að minnsta kosti þrjár myndir á hátðinni. Þessi listi byggist næstum bara á bæklingnum og þar af leiðandi textanum um myndirnar í honum, en minna á reynslu af leikstjórunum eða einhverju þess háttar, því hún er einfaldlega ekki til staðar.


Vitranir
Klopka / Gildran
Serbía, Þýskaland, Ungverjaland (2007)


Serbnesk hjón komast að því að sonur þeirra er með banvænan hjartasjúkdóm og þarf að fara til Berlínar í 26.000 evra skurðaðgerð. Þau eiga að sjálfsögðu ekki þann pening en þurfa að eignast hann á skömmum tíma. Þessi söguþráður finnst mér vera mjög áhugaverður.


Vitranir
Bangbang wo aishen / Hjálpaðu mér Eros
Taívan (2007)

Lost in Translation er með betri myndum sem ég hef séð. Þessi mynd virðist slá á svipaða strengi að einhverju leyti. Einmana maður sem tapaði öllu á verðbréfamarkaðnum dettur í þunglyndi og kynnist síðan stúlku sem selur hnetur fyrir utan húsið hans. Saga um “firringu neyslumenningarinnar”, eins og bæklingurinn orðar það, hljómar mjög líkt umfjöllunarefninu í Lost in Translation.


Fyrir opnu hafi
4 luni, 3 saptamani si 2 zile / 4 mánuðir, 3 vikur og 2 dagar
Rúmenía (2007)

Mér finnst umfjöllunarefnið ekkert rosalega spennandi (ólögleg fóstureyðing í Austur-Evrópu), en þetta er lokamynd hátíðarinnar, fékk gullpálmann í Cannes og margir mæla með henni.


Fyrir opnu hafi
Ledsaget udgang / Tímabundið frelsi
Danmörk (2007)


Dönsk mynd, sem lofar oft góðu, sem fjallar um atvinnukrimma og fangavörðin hans sem fara í brúðkaup sem krimminn fær tímabundið leyfi til að fara í. Þegar nær er komið kemur í ljós að persónurnar eru mun flóknari en virtist í fyrstu.


Heimildamyndir
Helvetica
Bandaríkin (2007)


Heimildarmynd um mjög óvenjulegt umfjöllunarefni, leturgerðina Helvetica! Samkvæmt dagskránni sló myndin í gegn og hefur verið á stanslausum sýningum á kvikmyndahátíðum og er full af viðtölum við hönnuði og listamenn um hvernig leturgerðin hefur orðið sú vinsælasta í heimi og er orðin 50 ára í ár.

---

Þetta var fyrri hlutinn. Hann inniheldur þær myndir sem mig langar að sjá í flokkunum “Vitranir” og “Fyrir opnu hafi”. Seinni hlutinn kemur innan skamms.

Monday, September 17, 2007

Mobile (2007)

Mobile er glæný þrískipt saga sem sýnd var á bresku ITV sjónvarpsstöðinni fyrr á árinu. Hver þáttur er klukkustund að lengd og segja þeir sömu sögu út frá sjónarhorni mismunandi persóna.

Fyrsti þátturinn fjallar um mann sem fær hausverki af símnotkun sem kemur í ljós að stafa af heilaæxli. Hann kennir farsímum um og á sama tíma fara farsímamöstur að eyðileggjast og fólk sem talar í farsíma á götum úti er skotið úr launsátri. Grunurinn beinist fljótt að manninum…

Annar þátturinn fjallar um hermann sem er í Írak þegar hann fær þær fréttir að konan hans og barn séu dáin eftir umferðaslys. Maður sem var að tala í farsíma keyrði á þau á gangbraut og stakk af í kjölfarið. Hermaðurinn er kallaður heim og er algerlega rótlaus þar sem stríðið hafði hug hans allan fram að áfallinu. Hann leiðist síðan út á vafasamar brautir í leit að morðingjanum.

Þriðji þátturinn fjallar um manninn sem keyrði yfir konuna og barnið. Þessi þriðja og síðasta saga samtvinnar allar þrjár sögurnar á snilldarlegan hátt og hef ég sjaldan séð eins vel skrifað handrit.

Eftir að hafa horft á þessa þætti hef ég mikinn áhuga á að sjá meira af bresku sjónvarpsefni, sérstaklega ef viðmiðið í handritaskrifum er svona hátt. Eftir þessa þrjá þætti stendur eftir áhrifamikil, margþætt og flókin saga þar sem enginn er málaður “slæmur” eða “góður”. Persóna sem er “vond” í fyrsta þætti er skyndilega “góð” í þeim næsta, og áhorfandinn þarf í rauninni sjálfur að taka afstöðu um hvað sé rétt og hvað sé rangt. Þetta er kærkomið mótvægi við bróðurpartinn af bandarísku efni, þar sem heimurinn er ofureinfaldaður og allir eru í vonda liðinu eða góða liðinu.

Myndatakan og útlitið á þáttunum er annað sem mér fannst áhugavert. Þættirnir eru teknir upp stafrænt og nýta þáttagerðarmenn sér möguleika þeirrar tækni vel með því að nota nútímalega og töff litasamsetningu. Tónlistin hentar líka þáttunum vel; hún er notuð sparlega og byggir þar af leiðandi upp mikla spennu þegar hún er notuð.

Endilega kíkið á þessa þætti, þetta “þrisvar sinnum ein klukkustund” form er mjög skemmtilegt mótvægi við hefðbundna sjónvarpsþætti og bíómyndir. Mobile nýtir sér þetta afbragðsvel.

The Thing (1982)

Síðastliðið laugardagskvöld sá ég myndina The Thing heima hjá Jóni Gunnari Jónssyni, stórvini mínum og bróður Halldórs Hauks Jónssonar.

Hjá Jóni Gunnari voru nokkrir aðrir meistarar úr kvikmyndagerðinni, þeir Ingólfur Halldórsson, Árni Þór Árnason og Marinó Páll Valdimarsson. Áhugavert verður að fylgjast með bloggsíðum þeirra á næstu dögum og bera þeirra upplifun af þessari mynd saman við mína.

The Thing gerist á Suðurskautinu í einangraðri bandarískri rannsóknarstöð. Rannsóknarmennirnir grafa geimveru í dvala upp úr ísnum og hún veldur usla (blóðsúthellingum) í rannsóknarstöðinni með tilheyrandi spennu.

Þessi mynd var skemmtileg og augljóslega mjög mikið lagt í hana. Tæknibrellurnar voru einstaklega góðar miðað við að hafa komið út árið 1982 og myndin hefur líklega kostað skildinginn á sínum tíma. Ég hélt alltaf að The Empire Strikes Back, sem kom út á svipuðum tíma, hefði verið langt á undan sínum samtíma í tæknibrellum en þessi mynd kemst nokkuð nálægt henni á því sviði.

Annað sem ég kunni að meta við þessa mynd er hversu miklir töffarar allar persónurnar voru. Engar konur eru í myndinni og rannsóknarmennirnir voru alltaf svalir, jafnvel þótt þeir vissu að dauðinn væri óumflýjanlegur. Það var eitthvað töff við þennan kulda í persónunum, sem samblandað ískuldanum og einangruninni á Suðurskautinu gefur myndinni áhrifaríkan blæ.

Maður tekur eftir því að myndin sé komin til ára sinna, en það þarf ekki endilega að vera galli. Tónlistin er allt öðruvísi en tíðkast í dag og söguþráðurinn og uppbyggingin í myndinni eru einföld en myndir hafa oft samtvinnaðri atburðarás nú á dögum.

Mesti munurinn liggur þó í kvikmyndatökunni. Þessi mynd er að mörgu leyti sambærileg við Sphere, sem ég skrifaði um hér að neðan, og gaman er að bera saman kvikmyndatökuna. Í The Thing er mikið um “pan”-skot, stöðug skot og víð skot – á meðan Sphere er mikið með hreyfð skot og hraðar klippingar til að byggja upp spennu. Afleiðingin verður sú að spennan er minni en hún hefði getað verið, að minnsta kosti miðað við óhuggulegt útlit geimveranna.

Eftir stendur að þessi mynd er töff, hún hefur góðan nostalgíu-fýling og er virkilega vel gerð. Ég mæli með henni.

Allur snjórinn í The Thing lét mig vilja sjá Fargo aftur. Ég verð að gera það sem fyrst...

Friday, September 14, 2007

Óslípaður demantur

Ég, Marinó, Emil og Svavar gerðum stuttmynd í fyrradag. Hér fylgja hugleiðingar um gerð myndarinnar.

Fyrst ber að nefna að hópurinn á undan okkur sýndi okkur þá svívirðilegu vanvirðingu að afhenda okkur myndavélina með báðum batteríum galtómum. Þetta olli því að á tímabili neyddumst við til að skjóta með myndavélina í sambandi. Okkur tókst þó að vinna okkur framhjá þessum erfiðleikum þannig að þeir ættu ekki að bitna á gæðum stuttmyndarinnar.

Upplegg myndarinnar var hasarmyndar-trailer. Hugsunin á bakvið það var að stuttmyndir af þessari gerð eru oft leiðinlegar ef mikið er um samtöl og rólegar senur. Hasarmyndar-trailer gefur einnig mikið freslu til að prófa mjög marga mismunandi hluti: Ýmsar gerðir sjónarhorna, úti- og innisenur, hægar og hraðar klippingar, þröng og víð skot o.fl.

Hugmyndir að mörgum skotum og stílbrigðum fengum við úr öðrum kvikmyndum og hasarmyndatrailerum. Sem dæmi um myndir sem veittu myndinni innblástur eru Snatch, Bourne Ultimatum og Requiem for a Dream.

Stuttmyndin bar vinnuheitið “óslípaður demantur” og er um 5 mínútur að lengd. Okkur reiknast til að hver mínúta í myndinni hafi tekið um 1,5 klst af vinnu. Þetta opnaði augu okkar fyrir því hversu gríðarlegan tíma kvikmyndagerð tekur.

Astrópía var tekin upp á 30 dögum, sem þýðir að miðað við 90 mínútna mynd og 12 klst tökudag eru um 4klst af tökum á bakvið hverja mínútu í myndinni. Það verða að teljast afar snögg vinnubrögð. Áhugavert væri að vita hversu margar klst af tökum eru á bakvið hverja mínútu í stórum mainstream kvikmyndum. Veit það einhver?

Topp tíu

Þá er topp tíu listinn tilbúinn. Myndir sem komu til greina en enduðu ekki á listanum:

Heat
Mystic River
Full Metal Jacket
Se7en
American Beauty
Goodfellas
The Shawshank Redemption
The Godfather: Part II
Abre los ojos
The Truman Show
Donnie Darko

Hér eiga að vera mun fleiri myndir og mun ég fjölga þeim í vetur.

Sphere (1998)


Síðastliðna helgi skelltum við okkur nokkrir á Laugarásvídeó og leigðum Sphere. Þetta er vísindaskáldsaga sem fjallar um hóp sem sendur er ofan í Atlantshafið til að rannsaka risastórt geimskip, en vísbendingar eru um að líf sé í geimskipinu.

Þrátt fyrir að Sphere sé augljóslega ekki háklassamynd – t.d. er atburðarásin ótrúverðug og karakterarnir klisjukenndir – þá kunni ég vel að meta hana. Framandi tækni og pælingar um hvernig heimurinn er í framtíðinni er eitthvað sem hefur alltaf heillað mig mjög mikið.

Samuel L. Jackson er eftirminnilegastur af leikurunum. Þótt trúverðugleika karaktersins hans sé fórnað oftar en einu sinni til að gera myndina spennandi þá stendur maðurinn alltaf fyrir sínu. Ein versta mynd sem sést hefur lengi í bíó, Snakes on a Plane, varð til dæmis ótrúlega skemmtileg bara út af honum. Samuel L Jackson er ótrúlegur leikari - hann getur haldið uppi heilu myndunum.

Eitt sem var í góðu lagi í myndinni var spennan. Hópurinn er einangraður á botni Atlantshafsins bróðurpart myndarinnar og þegar fólk fer að deyja og ekkert er hægt að fara finnur maður virkilega vel fyrir óttanum og spennunni.

Eftir myndina er þó margt óútskýrt og handritshöfundurinn gerir ekki einu sinni tilraun til að útskýra aðalatriðin. Fyrst að handritið getur ekki svarað spurningunum sem vakna verður því að segja að þetta er ekki mjög vönduð vísindaskáldsaga. Það var í raun það sem ég var ósáttastur við - undir lok myndarinnar er í rauninni augljóst að þetta sé allt bull. Það er alveg öfugt við The Matrix t.d., þar sem söguþráðurinn er svo góður að maður veltir því næstum fyrir s1ér hvort hann geti verið sannur.

Sphere er fín spennumynd yfir poppi og rauðum kristal plús, en ekki mikið meira en það.

Saturday, September 8, 2007

Veðramót

Í gær fór ég á frumsýningu Veðramóta með foreldrum mínum. Það var margt virkilega áhugavert við þessa mynd. Þar sem ég er nýbúinn að sjá Astrópíu ætla ég að bera þessar tvær myndir dálítið saman.

Veðramót fjallar um Breiðuvík, vistheimili fyrir unglinga þar sem Lalli Johns var meðal annars vistaður á sínum tíma. Myndin á sér hins vegar stað á hippatímabilinu á Íslandi, eftir "Breiðavíkurhneykslið" margfræga. Sagan fjallar um fólk sem kemur eftir það mál og ætlar að rífa staðinn upp og koma honum í gagnið á nýjum forsendum - með jákvæðu og uppbyggjandi andrúmslofti og með því að vera vinir krakkanna.

Eftir að hafa frétt að Astópía væri tekin upp digital tók ég strax eftir því að Veðramót var tekin upp á filmu (35mm) og er munurinn töluverður. Fyrir mitt leyti finnst mér mun meiri bíófílingur að horfa á myndir teknar á filmu. Digital upptökur hafa á einhvern hátt ódýrari brag yfir sér, þótt tæknin sé í raun í yfirburðastöðu. Ég velti fyrir mér hvort ekki sé einfaldlega hægt að eftirvinna digital myndir til að gefa þeim sama útlit og filmumyndir hafa?

En að myndinni sjálfri, þá kom mér á óvart hversu heilsteypta og góða sögu hún sagði. Ólíkt Astrópíu var hún algerlega laus við klisjur og staðalímyndir og mikill tími fór í persónusköpun. Þegar persónurnar lentu í hremmingum var því niðurstaðan að maður fann virkilega til með þeim.

Hluti af því gæti reyndar skrifast á betri leik. Astrópía innihélt nær enga reynda leikara á meðan stærsta hlutverkið í Veðramótum er leikið af Hilmi Snæ. Munurinn þar á er mjög mikill. Að sjá þessar tvær myndir með skömmu millibili sýnir svart á hvítu hversu mikilvægur góður leikur er fyrir kvikmyndir. Í Veðramótum finnur maður aldrei fyrir stífum samtölum eða lélegum leik, en það truflaði mig mjög mikið í Astrópíu.

Loks vil ég minnast á tónlistina í Veðramótum, en hún er með því betra sem ég hef heyrt í íslenskri bíómynd. Ragga Gísla sér um tónlistina og er stórum hluta myndarinnar bókstaflega haldið uppi af tónlistinni. Góð tónlist í kvikmynd skiptir ótrúlega miklu máli og í þessu tilfelli hefði það ekki getað farið betur.

Eins og heyra má var ég mjög ánægður með myndina. Sagan var mjög áhugaverð, myndin var vel leikin, tónlistin var afbragðsgóð og handritið vel skrifað. Það var virkilega gaman að fara í bíó og sjá góða íslenska bíómynd.

Friday, September 7, 2007

Topp tíu listinn minn, part 2


Hérna held ég áfram að reyna að koma skipulagi á topp tíu listann minn:

Full Metal Jacket (1987)


Þetta er mynd sem hafði mikil áhrif á mig þegar ég sá hana. Líkt og með Heat er langt síðan ég sá hana, en fyrri hluti myndarinnar þar sem fjallað er um þjálfun hermanna fyrir Víetnam-stríðið var mjög áhrifamikil. Þar er fjallað um mann sem höndlar ekki ómannúðlega og niðurbrjótandi þjálfun bandaríska hersins og skýtur sig þegar þjálfuninni lýkur. Mér fannst seinni hluti myndarinnar hins vegar mun síðri, minnir meira að segja að ég hafi ekki nennt að klára myndina. En fyrri hlutinn er nóg til að myndin komi til greina á topp tíu listann.

Það væri gaman að sjá þessa mynd aftur þar sem ég er nýbúinn að sjá Apocalypse Now í fyrsta skiptið. Sú mynd fannst mér ekki hafa elst nógu vel – þrátt fyrir að vera augljóslega meistaraverk á sínum tíma, sbr. senurnar þar sem “The End” Með Doors er spilað og Valkyrjueiðurinn eftir Wagner. Myndin hefur hins vegar gríðarlega hæga og ómarkvissa framvindu og undir lokin er hún orðin svo “psychedelic” að ekkert virðist meika sens lengur. Endirinn var líka mjög svo snubbóttur og ég var ósáttur með að hafa í raun beðið í tvo og hálfan tíma eftir svo litlu. Nokkuð nýlega kom út lengri útgáfa af myndinni sem heitir Apocalypse Now: Redux. Þar sem styttri útgáfan var allt of löng ætla ég aldrei að sjá þá mynd.

Topp tíu listinn minn


Eins og sjá má hérna hægra megin er topp tíu listinn minn ennþá í vinnslu. Ég á mjög erfitt með að raða myndunum í röð og fækka þeim niður í tíu. Þessvegna ætla ég að skrifa stuttlega um nokkrar af þessum myndum á næstu dögum til að reyna að fá betri mynd af því hvaða mynd á heima í hvaða sæti.

Heat (1995)

Ef eitt orð þyrfti að lýsa þessari mynd þá er það “töff”. Útlit myndarinnar, kvikmyndatakan, leikararnir, sögupersónurnar og sögusviðið – töff er orðið sem lýsir þessu öllu best. Leikstjóri myndarinnar er Michael Mann, en það besta við hana er leikaravalið. Tvö stærstu hlutverkin í myndinni eru leikin af Al Pacino og Robert De Niro – mönnum sem eru á hátindinum á þessum tíma. Sagan gerist í Los Angeles og er annar maðurinn lögga og hinn glæpamaður.

Ég man ekki nógu vel eftir myndinni eins og er, enda langt síðan ég sá hana, en ég man eftir rosalegri senu sem er skotbardagi á götum Los Angeles. Ég þarf að drífa mig að sjá myndina sem allra fyrst og rifja hana betur upp. Þá skrifa ég almennilega um hana og kemst að því hvort hún á heima á topp tíu listanum.

Astrópía


Síðastliðinn laugardag fór ég á Astrópíu. Myndin var áhugaverð að mörgu leyti og ætla ég að fara í gegnum það sem mér fannst markverðast.

Í fyrsta lagi tók ég strax eftir því að nær engir lærðir leikarar leika hlutverk í myndinni. Lágt budget hefur eflaust ráðið einhverju um það, en myndin mátti einungis kosta um 100 milljónir á meðan t.d. Mýrin kostaði um 160 milljónir. Þetta leikaraval kemur ekki að sök þegar t.d. Sveppi og Pétur eiga í hlut, enda hafa þeir löngu sannað sig sem gamanleikarar og stóðu þeir fyrir sínu í myndinni. Ragnhildur Steinunn stóð sig aftur á móti ekki nógu vel á köflum. Ástarsagan milli hennar og Playmolas var til dæmis afar ósannfærandi. Senurnar milli þeirra tveggja stífar og skringilegar og meintur neisti á milli þeirra var víðsfjarri.

Annar staður þar sem lágt budget fór í taugarnar á mér voru Role-playing senurnar. Til dæmis er stór bardagi milli aðalpersónanna og skrímsla ekki sýndur, heldur er tjaldið svart á meðan á honum stendur. Sú skringilega ákvörðun að láta lokasenuna fara fram í sýndarheiminum hefur eflaust einnig verið tekin með hliðsjón af budgeti myndarinnar, enda hefði verið miklu flottara og áhrifaríkara ef aðalpersónurnar hefðu leikið hetjur, líkt og þau voru búin að æfa sig í, gegn raunverulegri ógn. Það hefði verið raunverulegur sigur nördanna.

Loks hefði ég viljað að myndin, sem er markaðssett sem gamanmynd, væri fyndnari. Fyndnustu persónur myndarinnar, starfsmenn Astrópíu, fá of lítið af bröndurum til að vinna með og eru til dæmis nær aldrei með í hlutverkaleiknum, þrátt fyrir að vera langfyndnastir.

Ég fýla samt mjög mikið að fara á íslenskar myndir, þær vekja mann svo mikið til umhugsunar um kvikmyndagerð og stöðuna á íslandi, auk þess sem standardinn á íslenskum kvikmyndum virðist fara hækkandi – þolinmæðin fyrir lélegum myndum er orðin minni.