Friday, September 14, 2007

Óslípaður demantur

Ég, Marinó, Emil og Svavar gerðum stuttmynd í fyrradag. Hér fylgja hugleiðingar um gerð myndarinnar.

Fyrst ber að nefna að hópurinn á undan okkur sýndi okkur þá svívirðilegu vanvirðingu að afhenda okkur myndavélina með báðum batteríum galtómum. Þetta olli því að á tímabili neyddumst við til að skjóta með myndavélina í sambandi. Okkur tókst þó að vinna okkur framhjá þessum erfiðleikum þannig að þeir ættu ekki að bitna á gæðum stuttmyndarinnar.

Upplegg myndarinnar var hasarmyndar-trailer. Hugsunin á bakvið það var að stuttmyndir af þessari gerð eru oft leiðinlegar ef mikið er um samtöl og rólegar senur. Hasarmyndar-trailer gefur einnig mikið freslu til að prófa mjög marga mismunandi hluti: Ýmsar gerðir sjónarhorna, úti- og innisenur, hægar og hraðar klippingar, þröng og víð skot o.fl.

Hugmyndir að mörgum skotum og stílbrigðum fengum við úr öðrum kvikmyndum og hasarmyndatrailerum. Sem dæmi um myndir sem veittu myndinni innblástur eru Snatch, Bourne Ultimatum og Requiem for a Dream.

Stuttmyndin bar vinnuheitið “óslípaður demantur” og er um 5 mínútur að lengd. Okkur reiknast til að hver mínúta í myndinni hafi tekið um 1,5 klst af vinnu. Þetta opnaði augu okkar fyrir því hversu gríðarlegan tíma kvikmyndagerð tekur.

Astrópía var tekin upp á 30 dögum, sem þýðir að miðað við 90 mínútna mynd og 12 klst tökudag eru um 4klst af tökum á bakvið hverja mínútu í myndinni. Það verða að teljast afar snögg vinnubrögð. Áhugavert væri að vita hversu margar klst af tökum eru á bakvið hverja mínútu í stórum mainstream kvikmyndum. Veit það einhver?

No comments: