Friday, September 7, 2007

Astrópía


Síðastliðinn laugardag fór ég á Astrópíu. Myndin var áhugaverð að mörgu leyti og ætla ég að fara í gegnum það sem mér fannst markverðast.

Í fyrsta lagi tók ég strax eftir því að nær engir lærðir leikarar leika hlutverk í myndinni. Lágt budget hefur eflaust ráðið einhverju um það, en myndin mátti einungis kosta um 100 milljónir á meðan t.d. Mýrin kostaði um 160 milljónir. Þetta leikaraval kemur ekki að sök þegar t.d. Sveppi og Pétur eiga í hlut, enda hafa þeir löngu sannað sig sem gamanleikarar og stóðu þeir fyrir sínu í myndinni. Ragnhildur Steinunn stóð sig aftur á móti ekki nógu vel á köflum. Ástarsagan milli hennar og Playmolas var til dæmis afar ósannfærandi. Senurnar milli þeirra tveggja stífar og skringilegar og meintur neisti á milli þeirra var víðsfjarri.

Annar staður þar sem lágt budget fór í taugarnar á mér voru Role-playing senurnar. Til dæmis er stór bardagi milli aðalpersónanna og skrímsla ekki sýndur, heldur er tjaldið svart á meðan á honum stendur. Sú skringilega ákvörðun að láta lokasenuna fara fram í sýndarheiminum hefur eflaust einnig verið tekin með hliðsjón af budgeti myndarinnar, enda hefði verið miklu flottara og áhrifaríkara ef aðalpersónurnar hefðu leikið hetjur, líkt og þau voru búin að æfa sig í, gegn raunverulegri ógn. Það hefði verið raunverulegur sigur nördanna.

Loks hefði ég viljað að myndin, sem er markaðssett sem gamanmynd, væri fyndnari. Fyndnustu persónur myndarinnar, starfsmenn Astrópíu, fá of lítið af bröndurum til að vinna með og eru til dæmis nær aldrei með í hlutverkaleiknum, þrátt fyrir að vera langfyndnastir.

Ég fýla samt mjög mikið að fara á íslenskar myndir, þær vekja mann svo mikið til umhugsunar um kvikmyndagerð og stöðuna á íslandi, auk þess sem standardinn á íslenskum kvikmyndum virðist fara hækkandi – þolinmæðin fyrir lélegum myndum er orðin minni.

No comments: