Tuesday, October 23, 2007

Notorious (1946)

Þessa kvikmynd sáum við í kvikmyndafræði í síðustu viku. Myndinni er leikstýrt af Alfred Hitchcock og leika Ingrid Bergman og Cary Grant aðalhlutverkin, Aliciu og Devlin.

Þegar ég sá þessa mynd áttaði ég mig betur á þróuninni í kvikmyndagerð frá þessum tíma og fram að okkar dögum. Að öllu jöfnu veita kvikmyndir frá tíma Notorious minni innlifun heldur en kvikmyndir í dag. Kvikmyndatakan var stöðugri, atburðarrás einfaldari og hægari og kvikmyndalistin líkti í raun meira eftir veruleikanum. En hver vill það? Er ekki einmitt það besta við kvikmyndir hversu hraða, síbreytilega og lifandi atburðarrás þær geta sagt?

Annað dæmi er leikurinn. Mér finnst kvikmyndaleik hafa farið fram í gegnum árin. Í Notorious finnst mér ég sjá að leikararnir séu að leika, á meðan myndir eins og t.d. Requiem for a Dream og The Matrix láta mann gleyma öllu öðru. Þegar horft er á gamlar myndir finnst mér hugurinn reika mun meira í annað, t.d. pælingar varðandi kvikmyndatöku, leik o.fl. – með öðrum orðum er minna í gangi á kvikmyndatjaldinu. Ég vil fara í bíó og gleyma staði og stund – einfaldlega sökkva mér í söguna algerlega og ekki pæla í því hvort ákveðinn leikari sé að leika vel eða ekki.

Notorious er samt augljóslega klassamynd, sérstaklega miðað við sinn tíma. Flestir leikararnir leika einstaklega vel, og þá Claude Rains, sem leikur Alexander Sebastian. Hins vegar eru persónurnar ofureinfaldar og allt að því barnalegar í samskiptum sínum. Sem dæmi má nefna að ofuraugljóst er hverjir eru vondir og hverjir eru góðir og samskiptaleysið milli Aliciu og Devlin, hvernig stoltið þeirra skemmir fyrir sambandinu, er óraunverulega mikið. Þau tala í rauninni aldrei saman um hvað þeim finnst í alvörunni heldur leika leiki allan tímann. Þetta dró úr samsvörun minni með persónunum og þar af leiðandi úr skemmtanagildi myndarinnar.

Niðurstaðan er að ég kann enn betur að meta góðar nýjar bíómyndir eftir að hafa upplifað Notorious nostalgíuna. Klipping, kvikmyndataka, kvikmyndaleikur og handritaskrif, í raun flestar hliðar kvikmyndagerðar, hafa þróast mjög mikið frá því að Notorious var á toppinum.

Notorious slökkti því í nostalgíunni hjá mér.

Tuesday, October 16, 2007

My Kid Could Paint That (2007)

Seinni myndin sem ég fór á á RIFF er einnig heimildarmynd. Ég skellti mér á þessa með Marinó Páli Valdimarssyni og höfðum við gaman að henni. Mér finnst leiðinlegt að hafa ekki komist á fleiri myndir á þessari hátíð, sérstaklega þar sem ég borgaði fyrir hálft klippikort og borgaði því í raun 1125 fyrir hvora bíómynd sem ég sá. Það verður að teljast afar hátt bíóverð!

My Kid Could Paint That fjallar um stelpu sem heitir Marla, fjölskyldu hennar og vini. Marla er stelpa sem byrjar þriggja ára að mála abstrakt-málverk og verkin hennar ná fljótt mjög miklum vinsældum og seljast fyrir háar upphæðir. Listasérfræðingar lofsyngja málverk litlu stelpunnar og fjölskyldan er búin að selja málverkin hennar fyrir yfir 300.000 dali þegar 60 minutes fjalla um stelpuna. Þar er pabbi hennar ásakaður um að hafa málað verkin fyrir stelpuna og dökk mynd dregin upp af þessu ævintýri. Þetta reynir mjög mikið á fjölskylduna og mamman dauðsér eftir að hafa selt málverk stelpunnar í upphafi. Nú kemur í ljós að ástæðan fyrir því að heimildarmyndargerðarmanninum er leyft að vera með þeim svona lengi er tilraun foreldranna til að sýna að Marla hafi málað allt sjálf. Niðurstaðan í lok myndar er samt í raun óvissa og sjálfur trúi ég því að pabbinn hafi átt stóran þátt í mörgum verkanna.

Heimildarmyndir eru svo ótrúlega ólíkar kvikmyndum og stuttmyndum að því leyti að þær eru teknar upp í raunveruleikanum og reyna að segja sögu á skýran hátt. Allar pælingar um sviðsetningu og þess háttar eru því mun grynnri og meira hugsað um að klippa saman á sem áhugaverðastan hátt hundruði klukkustunda af upptökuefni. My Kid Could Paint That tekst það vel – sagan er áhugaverð og tekur sífellt nýjar beygjur, en er ekki sögð flatt út. Gallinn við hana er helst að viðmælendurnir eru ekki allir mjög áhugaverðir, til dæmis er mikið talað við vinkonu fjölskyldunarinnar sem virkaði eins sem móðursjúk húsmóðir frekar en áhugaverður álitsgjafi.

Líkt og Helvetica, hin heimildarmyndin sem ég sá, sýndi My Kid Could Paint That mér nýjan heim að mörgu leyti – heim nútímalistar og abstraktlistar. Hvað kallar maður list sem þriggja ára stelpa getur málað á heimsmælikvarða? Er það list? Aftur á móti eru mörg málverkanna hennar (eða pabba hennar) ótrúlega falleg, þótt það eina sem máli virðist skipta er hver hafi málað verkið, ekki hvernig það líti út.

Þetta var seinni RIFF færslan mín, ég var einnig að lengja þá fyrri til að ná 300 orða markinu. Von er á pistli um Notorious innan skamms.

Thursday, October 4, 2007

Zodiac (2007)

Ég sá þessa mynd með pabba mínum í fyrradag. Hún var nokkuð óvenjuleg að ýmsu leyti. Við fylgjumst með morðum fjöldamorðingjans Zodiac í bland við rannsókn lögreglunnar á málinu. Lögreglan gefst loks upp á rannsókninni en skopteiknari á dagblaði sem hefur mikinn áhuga á málinu heldur áfram rannsókninni í mörg ár.

Myndin er byggð á sannsögulegum atburðum og gefur það henni mun meira spennandi blæ. Í “making of” hluta disksins sé maður hversu nákvæmur David Fincher, leikstjórinn, er í að líkja eftir atburðunum eins og þeir gerðust í raun. Sem dæmi má nefna senu við stöðuvatn þar sem Zodiac drepur ungt par. Leikstjórinn fær lögregluna til að finna rétta staðinn nákvæmlega og lætur flytja tré á staðinn með þyrlu til að skóglendið sé nákvæmlega eins.

Tökurnar tóku yfir 100 daga og hefur þessi nákvæmni leikstjórans líklega kostað bæði mikla peninga og tekið tíma. Ég velti því fyrir mér til hvers þessi smámunasemi sé – hvort hún sé þess virði. Í ofannefndri senu velti ég til dæmis ekkert fyrir mér staðsetningu trjánna og ég ímynda mér að litlu hefði breytt ef leikstjórinn hefði sleppt því að færa þau til með þyrlu.

Annars var myndin skemmtilega uppbyggð. Það voru engar fléttur í henni, sagan var rakin í beinni tímaröð allan tímann og náði yfir mörg ár. Fyrir tveggja og hálfs tíma mynd verður svoleiðis uppbygging reyndar örlítið langdregin, en góður leikur og flott umhverfi kom í veg fyrir að manni leiddist. Zodiac var því ágætis mynd og metnaðarfull.

Monday, October 1, 2007

Helvetica *uppfært*

Fyrsta Riff-myndin sem ég fer á. Ég skellti mér á myndina með Ingólfi Halldórssyni síðastliðinn laugardag. Myndin er heimildarmynd um leturgerðina Helvetica sem er orðin sú útbreiddasta í heimi og fagnar fimmtíu ára afmæli í ár.

Það sem ég kunni mest að meta við þessa mynd er hversu áhugaverðir viðmælendurnir í henni eru. Myndin samanstendur einungis af viðtölum við fólk sem tengist leturgerðinni á einn eða annan hátt og því veltur myndin fyrst og fremst á viðmælendunum. Þar fylgir hver meistarinn á fætur öðrum, allir með áhugaverðar pælingar, flottar myndlíkingar og sérstakan og skemmtilegan húmor.

Myndin sýndi mér inn í heim sem ég hafði ekki séð næstum því svona vel áður – heim hönnuða í Evrópu og Bandaríkjunum. Það er ótrúlegt hversu sterkar skoðanir er hægt að hafa á einni leturgerð. Í upphafi heimildarmyndarinnar kunni ég mjög vel að meta leturgerðina, um miðja mynd þoldi ég hana ekki en undir lokin var ég farinn að fyrirgefa henni aftur. Þetta var einnig svona í myndinni – sumir hönnuðirnir fyrirlíta Helvetica á meðan aðrir lofsyngja hana.

Heimildarmyndin fer einnig rækilega í sögu leturgerðarinnar; hvernig og hvar hún varð til, hver/hverjir hönnuðu hana og hver prinsippin að baki henni eru. Þessi rannsóknarvinna leiðir höfund myndarinnar um alla Evrópu og til Bandaríkjanna og gefur þessi alþjóðabragur myndinni áhugaverðan og faglegan blæ.

Áhugavert við þessa mynd er að höfundur heimildarmyndarinnar talar aldrei í allri myndinni og lætur viðmælendurna einungis sjá um að byggja myndina upp. Sú aðferð er örlítið þurr - oft væri maður til í að heyra örlítið í "sögumanni" til að leiða myndina áfram. En þessi stíll er einnig ferskur að mörgu leyti - myndin snýst einungis um viðfangsefnið og sá sem gerir hana er ekki að því fyrir sjálfan sig.

Fyrsta ferðin á RIFF var því skemmtileg. Næst stefni ég á að fara á My Kid Could Paint That klukkan 20 og XXY klukkan 22 á fimmtudaginn.

Das Leben der Anderen

Þessa mynd sá ég hjá Jóni Gunnari í síðustu viku, en Jón Gunnar hafði leigt hana með Stefáni Jökli vini okkar í kjölfar miilla meðmæla sem myndin fékk. Eins og alþjóð veit þá lofsöng Árni Þór þessa mynd á kvikmyndagerðarblogginu sínu um daginn og auk þess sagði pabbi Stefáns Jökuls þetta bestu mynd sem hann hafði séð um ævina. Það var því með mjög háar væntingar sem við settumst niður með Trópí og Dórítós og ýttum á Play.

Myndinni tókst furðu vel að standa undir væntingunum miðað við hversu gríðarlega háar þær voru. Leikurinn var góður, Austur-Þýskt umhverfið mjög flott og áhugavert og sagan sterk og góð. Eitt það sterkasta í myndinni finnst mér vera persónusköpunin. Sem dæmi sest HGW yfirmaður og njósnari hjá Stasi, við verkamannaborð í mötuneyti Stasi, en ekki við yfirmannaborðið, og segir “sósíalisminn verður að byrja einhvers staðar.” Þetta var mjög sterkt tákn um lífssýn mannsins og þegar á myndina leið sér maður hvernig þessi trú brestur.

Það sem pirraði mig við þessa mynd var soundtrackið – ég hefði viljað meiri tónlist – og myndatakan. Á köflum fannst mér klippingar of hægar og myndavélin of stöðug. En auðvitað eru þetta alger smáatriði. Málið er bara að það skemmir ótrúlega mikið fyrir myndum að fara á þær og búast við einhverju trylltu. Ég velti því fyrir mér hvernig hægt væri að losna við þennan leiðindafaktor þegar að kvikmyndum kemur – hvort hægt sé að “núllstilla” sig áður en horft er á mynd, þannig að allar myndir séu metnar á sambærilegan hátt, en ekki eftir skapsveiflum eða væntingum.