Thursday, October 4, 2007

Zodiac (2007)

Ég sá þessa mynd með pabba mínum í fyrradag. Hún var nokkuð óvenjuleg að ýmsu leyti. Við fylgjumst með morðum fjöldamorðingjans Zodiac í bland við rannsókn lögreglunnar á málinu. Lögreglan gefst loks upp á rannsókninni en skopteiknari á dagblaði sem hefur mikinn áhuga á málinu heldur áfram rannsókninni í mörg ár.

Myndin er byggð á sannsögulegum atburðum og gefur það henni mun meira spennandi blæ. Í “making of” hluta disksins sé maður hversu nákvæmur David Fincher, leikstjórinn, er í að líkja eftir atburðunum eins og þeir gerðust í raun. Sem dæmi má nefna senu við stöðuvatn þar sem Zodiac drepur ungt par. Leikstjórinn fær lögregluna til að finna rétta staðinn nákvæmlega og lætur flytja tré á staðinn með þyrlu til að skóglendið sé nákvæmlega eins.

Tökurnar tóku yfir 100 daga og hefur þessi nákvæmni leikstjórans líklega kostað bæði mikla peninga og tekið tíma. Ég velti því fyrir mér til hvers þessi smámunasemi sé – hvort hún sé þess virði. Í ofannefndri senu velti ég til dæmis ekkert fyrir mér staðsetningu trjánna og ég ímynda mér að litlu hefði breytt ef leikstjórinn hefði sleppt því að færa þau til með þyrlu.

Annars var myndin skemmtilega uppbyggð. Það voru engar fléttur í henni, sagan var rakin í beinni tímaröð allan tímann og náði yfir mörg ár. Fyrir tveggja og hálfs tíma mynd verður svoleiðis uppbygging reyndar örlítið langdregin, en góður leikur og flott umhverfi kom í veg fyrir að manni leiddist. Zodiac var því ágætis mynd og metnaðarfull.

No comments: