Tuesday, October 16, 2007

My Kid Could Paint That (2007)

Seinni myndin sem ég fór á á RIFF er einnig heimildarmynd. Ég skellti mér á þessa með Marinó Páli Valdimarssyni og höfðum við gaman að henni. Mér finnst leiðinlegt að hafa ekki komist á fleiri myndir á þessari hátíð, sérstaklega þar sem ég borgaði fyrir hálft klippikort og borgaði því í raun 1125 fyrir hvora bíómynd sem ég sá. Það verður að teljast afar hátt bíóverð!

My Kid Could Paint That fjallar um stelpu sem heitir Marla, fjölskyldu hennar og vini. Marla er stelpa sem byrjar þriggja ára að mála abstrakt-málverk og verkin hennar ná fljótt mjög miklum vinsældum og seljast fyrir háar upphæðir. Listasérfræðingar lofsyngja málverk litlu stelpunnar og fjölskyldan er búin að selja málverkin hennar fyrir yfir 300.000 dali þegar 60 minutes fjalla um stelpuna. Þar er pabbi hennar ásakaður um að hafa málað verkin fyrir stelpuna og dökk mynd dregin upp af þessu ævintýri. Þetta reynir mjög mikið á fjölskylduna og mamman dauðsér eftir að hafa selt málverk stelpunnar í upphafi. Nú kemur í ljós að ástæðan fyrir því að heimildarmyndargerðarmanninum er leyft að vera með þeim svona lengi er tilraun foreldranna til að sýna að Marla hafi málað allt sjálf. Niðurstaðan í lok myndar er samt í raun óvissa og sjálfur trúi ég því að pabbinn hafi átt stóran þátt í mörgum verkanna.

Heimildarmyndir eru svo ótrúlega ólíkar kvikmyndum og stuttmyndum að því leyti að þær eru teknar upp í raunveruleikanum og reyna að segja sögu á skýran hátt. Allar pælingar um sviðsetningu og þess háttar eru því mun grynnri og meira hugsað um að klippa saman á sem áhugaverðastan hátt hundruði klukkustunda af upptökuefni. My Kid Could Paint That tekst það vel – sagan er áhugaverð og tekur sífellt nýjar beygjur, en er ekki sögð flatt út. Gallinn við hana er helst að viðmælendurnir eru ekki allir mjög áhugaverðir, til dæmis er mikið talað við vinkonu fjölskyldunarinnar sem virkaði eins sem móðursjúk húsmóðir frekar en áhugaverður álitsgjafi.

Líkt og Helvetica, hin heimildarmyndin sem ég sá, sýndi My Kid Could Paint That mér nýjan heim að mörgu leyti – heim nútímalistar og abstraktlistar. Hvað kallar maður list sem þriggja ára stelpa getur málað á heimsmælikvarða? Er það list? Aftur á móti eru mörg málverkanna hennar (eða pabba hennar) ótrúlega falleg, þótt það eina sem máli virðist skipta er hver hafi málað verkið, ekki hvernig það líti út.

Þetta var seinni RIFF færslan mín, ég var einnig að lengja þá fyrri til að ná 300 orða markinu. Von er á pistli um Notorious innan skamms.

No comments: