Ég fór með kvikmyndafræðinni á Stóra planið eftir Ólaf Jóhannesson. Áður en ég fjalla efnislega um myndina langar mig að minnast á verðið á myndinni í miðasölunni. Ég bjó mig undir að borga 1000-1200 kall fyrir miðann, sem er óheyrilega há upphæð, en miðaverðið á Stóra planið er heilar 1300 kr! Eftir að hafa síðan keypt mér miðstærð af poppi og kóki á 550 kr. var heildarkostnaðurinn við þetta sunnudagsbíó kominn í 1.850 kr. Þessi verð eru komin algerlega úr samhengi við það sem eðlilegt er og ég er handviss um að fjölmargir mæta ekki í kvikmyndahúsin einungis vegna þessa. Það er ekki hægt að byggja upp almennilega bíómenningu fyrir íslenskum myndum ef það kostar helmingi meira á þær en aðrar myndir.
En þá að myndinni sjálfri.
Yfirskrift myndarinnar er “næstum því gangstermynd” og er sú setning mjög lýsandi fyrir myndina. Myndin hefst á því að aðalpersónan, Davíð, er úti að leika sér með bróður sínum í æsku þegar bíll keyrir á bróðurinn, sem deyr, beint fyrir framan Davíð. Restin af myndinni er síðan um tuttugu árum seinna og öll myndin er skoðuð í ljósi þessa atviks.
Þótt það kunni að hljóma undarlega var ég mjög ánægður þegar bróðir Davíðs varð fyrir bílnum, því mér fannst strákurinn sem lék hann ekki passa inn í myndina. Hann er þekktastur fyrir innskot sín í laugardagslögunum (skv. Bóbó) og ég held að ég hafi kannast við hann þaðan. Það truflaði mig og því var gott að afgreiða hann sem fyrst úr myndinni.
En við fáum semsagt að kynnast Davíð um tuttugu árum seinna og ljóst er að uppeldi móðurinnar, sem komin er á geðlyf, hefur ekki lukkast sérstaklega vel. Frá þessum punkti í myndinni gerast í raun engir mjög afdrifaríkir atburðir.
Stóra planið er því fyrst og fremst mynd sem snýst um persónur, en ekki atburði. Ég hefði hugsanlega viljað vita það fyrirfram því fram yfir miðja mynd var ég alltaf að bíða eftir því að eitthvað afdrifaríkt gerðist og sögunni fleytti áfram – “stóra planinu” eða einhverju álíka. Að ekkert í þá átt hafi í raun gerst þyrfti ekki að vera slæmt, en ég hafði búist við bíómynd með meiri atburðarás.
Söguþráðurinn sem slíkur er ekkert sérstaklega sterkur og það sem heldur myndinni saman er fyrst og fremst frábær leikur, mjög góður húmor og margar bráðskemmtilegar senur.
Mér finnst erfitt að draga einhvern sérstaklega út sem hafi staðið sig betur en aðrir, leikarahópurinn var einfaldlega mjög þéttur og varla veikur hlekkur á honum. Aðalpersónurnar, sem Pétur Jóhann, Eggert Þorleifs og Ingvar E. léku voru allar djúpar og skemmtilegar, og aukapersónur eins og Mustang (leikinn af Zlatko Krickic nokkrum) og Snati (eða Schnati, eins og Wolfi kallaði hann alltaf) – bættu miklu við myndina.
Ég kann mjög vel að meta þessa nýju kynslóð af húmor sem virðist vera komin mjög sterkt fram. Næturvaktin er eiginlega guðfaðir þessa húmors og margt í Stóra planinu er mjög augljóslega undir áhrifum næturvaktarinnar, hvort sem það er meðvitað eða ekki. Aðalpersónurnar eru vægast sagt ófullkomnar og húmorinn er grátbroslegur á meðan fylgst er með viðleitni þeirra til að hljóta velgengni á einhvern hátt. Samt er alltaf vitað frá upphafi að baráttan er vonlaus – á endanum gengur ekkert upp og sjálfsblekkingin nær í skottið á viðkomandi.
Ég velti því fyrir mér hvort kvikmyndaformið henti þessari mynd vel. Árni Þór sagðist hafa heyrt frá einhverjum að myndin hefði örugglega virkað mun betur sem stuttmynd, en þá vinnst ekki nægur tími til að fá dýptina í persónurnar. Þegar hugsað er út í það er Davíð Péturs Jóhannes mjög svipaður Ólafi úr Næturvaktinni. Ég velti því þess vegna fyrir mér hvort Stóra planið hefði ekki verið skemmtilegri sem nokkrir þættir frekar en kvikmynd. Fyrir það fyrsta væri 1.300 króna sparnaðurinn sem af hlytist óneitanlega stór plús fyrir upplifunina og einnig myndi maður held ég ekki endilega vera sífellt að bíða eftir atburðum sem síðan aldrei koma. Mér finnst Stóra planið ekki alveg rísa undir kvikmyndaforminu, hún er að minnsta kosti ekki nógu epísk til að réttlæta þessi útgjöld.
Viðbót:
Ólafur mætti í tíma og spjallaði við okkur sl. miðvikudag. Ég er sammála Marra um það að Stóra planið batnaði mjög mikið í minningunni við það að ræða allar pælingarnar á bakvið og í kringum myndina. Þegar maður veit betur hvað leikstjórinn er að hugsa með myndinni og hvernig senurnar tengjast söguþræðinum (eða tengjast honum alls ekki) þá sér maður miklu betur það sem leikstjórinn reynir að sýna í myndinni. Þetta opnar alveg augu mín fyrir kvikmyndasýningum sem eru með spurningar og svör með t.d. leikstjóra eftirá, sem tíðkast mikið á kvikmyndahátíðum. Ég held að það bæti mjög upplifunina að fá að heyra eftirá hvað þeir sem gerðu myndina voru að reyna að koma til skila.
RIFF 2008, ég bíð spenntur!
Sunday, April 13, 2008
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Flott færsla. 8 stig.
Ég er auðvitað sammála því að það er gaman að fá að heyra útskýringar leikstjórans á myndinni og hugleiðingar hans um hana, en samt finnst mér myndir ekki eiga að þurfa útskýringar, þ.e. myndin á að vera sjálfstætt verk og ef hún stendur ekki undir því án útskýringa leikstjórans þá vantar eitthvað uppá.
Og eins og fram kom hjá Ólafi, þá var myndin tekin upp áður en Næturvaktin var sýnd, þ.a. það hafa líkast til ekki verið nein bein áhrif...
Post a Comment