
My kid could paint that / Krakkinn minn gæti málað þetta
Bandaríkin (2007)
Þessi hljómar mjög hress, hún fjallar um fjögurra ára stelpu sem varð heimsfrægur málari og seldi málverk á yfir 300.000 dollara! Stelpunni var líkt við Picasso og 60 minutes fjölluðu um málið. Þetta er mjög áhugavert efni, veltir upp spurningum um hvað sé list í raun og veru og hvað sé alvöru málverk og hvað sé einfaldlega rusl.

Iraq in fragments / Írak í brotum
Bandaríkin, Írak (2007)
Mig langar að sjá þessa mynd af því að hún er tekin upp í Írak og fjallar um þrjár ólíkar hliðar á Íraksstríðinu. Auk þess var hún tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta heimildarmynd ársins 2007, þannig að það hlýtur eitthvað að vera varið í hana.

Sigur Rós – Heima
Ísland (2007)
Þessi mynd á varla heima hérna, mig langar ekkert sérstaklega að sjá hana, en Árna Þór Árnason langar svo gríðarlega að sjá hana að hann er búinn að smita örlítið frá sér. Ef ég sé hana þá ætla ég að fara á hana á opnunarsýningunni, það er örugglega stemning að fara á opnunarmyndina.

Black Sheep / Svartir sauðir
Nýja-Sjáland (2006)
Hryllingsmynd um erfðabreytt sauðfé á Nýja-Sjálandi og tæknibrellumennirnir unnu við Lord of the Rings. Hljómar eins og góð blanda.

Trippið / The Tripper
Bandaríkin (2006)
David Arquette leikstýrir þessari mynd, en mér hefur alltaf fundist hann skemmtilegur. Auk þess að vera hryllingsmynd gerir hún mikið grín að sjálfri sér, sem hljómar frumlega og vantar oft í bíómyndir. Auk þessa á myndin að vera rammpólitísk. Mér finnst mjög spennandi að sjá hvernig Arquette fer að því að sameina hryllingsmynd og pólitíska ádeilumynd.
Það tók mig næstum klukkustund að skoða dagskránna og myndirnar sem eru í boði, en alls eru 80 myndir á RIFF í ár. Það er mjög erfitt að ákveða hvaða myndir eru þess virði að fara á út frá dagskránni einni saman. Feedback á listann og uppástungur um myndir sem ættu einnig að vera á listanum væri því vel þegið!