Monday, October 1, 2007

Helvetica *uppfært*

Fyrsta Riff-myndin sem ég fer á. Ég skellti mér á myndina með Ingólfi Halldórssyni síðastliðinn laugardag. Myndin er heimildarmynd um leturgerðina Helvetica sem er orðin sú útbreiddasta í heimi og fagnar fimmtíu ára afmæli í ár.

Það sem ég kunni mest að meta við þessa mynd er hversu áhugaverðir viðmælendurnir í henni eru. Myndin samanstendur einungis af viðtölum við fólk sem tengist leturgerðinni á einn eða annan hátt og því veltur myndin fyrst og fremst á viðmælendunum. Þar fylgir hver meistarinn á fætur öðrum, allir með áhugaverðar pælingar, flottar myndlíkingar og sérstakan og skemmtilegan húmor.

Myndin sýndi mér inn í heim sem ég hafði ekki séð næstum því svona vel áður – heim hönnuða í Evrópu og Bandaríkjunum. Það er ótrúlegt hversu sterkar skoðanir er hægt að hafa á einni leturgerð. Í upphafi heimildarmyndarinnar kunni ég mjög vel að meta leturgerðina, um miðja mynd þoldi ég hana ekki en undir lokin var ég farinn að fyrirgefa henni aftur. Þetta var einnig svona í myndinni – sumir hönnuðirnir fyrirlíta Helvetica á meðan aðrir lofsyngja hana.

Heimildarmyndin fer einnig rækilega í sögu leturgerðarinnar; hvernig og hvar hún varð til, hver/hverjir hönnuðu hana og hver prinsippin að baki henni eru. Þessi rannsóknarvinna leiðir höfund myndarinnar um alla Evrópu og til Bandaríkjanna og gefur þessi alþjóðabragur myndinni áhugaverðan og faglegan blæ.

Áhugavert við þessa mynd er að höfundur heimildarmyndarinnar talar aldrei í allri myndinni og lætur viðmælendurna einungis sjá um að byggja myndina upp. Sú aðferð er örlítið þurr - oft væri maður til í að heyra örlítið í "sögumanni" til að leiða myndina áfram. En þessi stíll er einnig ferskur að mörgu leyti - myndin snýst einungis um viðfangsefnið og sá sem gerir hana er ekki að því fyrir sjálfan sig.

Fyrsta ferðin á RIFF var því skemmtileg. Næst stefni ég á að fara á My Kid Could Paint That klukkan 20 og XXY klukkan 22 á fimmtudaginn.

2 comments:

Árni Þór Árnason said...

Mig langar mikið að sjá þessa mynd. Hef mikla trú á henni. Verst að ég er ekki viss hvort að það sé verið að sýna hana mikið lengur.

Bóbó said...

hverjum er ekki drjólanum meira en sama um það? Geturu ekki fengið kærustuna þína til að stela filmunni og leyfa þér að horfa á hana í einum af sölunum í Háskólabíó?