Þessa kvikmynd sáum við í kvikmyndafræði í síðustu viku. Myndinni er leikstýrt af Alfred Hitchcock og leika Ingrid Bergman og Cary Grant aðalhlutverkin, Aliciu og Devlin.
Þegar ég sá þessa mynd áttaði ég mig betur á þróuninni í kvikmyndagerð frá þessum tíma og fram að okkar dögum. Að öllu jöfnu veita kvikmyndir frá tíma Notorious minni innlifun heldur en kvikmyndir í dag. Kvikmyndatakan var stöðugri, atburðarrás einfaldari og hægari og kvikmyndalistin líkti í raun meira eftir veruleikanum. En hver vill það? Er ekki einmitt það besta við kvikmyndir hversu hraða, síbreytilega og lifandi atburðarrás þær geta sagt?
Annað dæmi er leikurinn. Mér finnst kvikmyndaleik hafa farið fram í gegnum árin. Í Notorious finnst mér ég sjá að leikararnir séu að leika, á meðan myndir eins og t.d. Requiem for a Dream og The Matrix láta mann gleyma öllu öðru. Þegar horft er á gamlar myndir finnst mér hugurinn reika mun meira í annað, t.d. pælingar varðandi kvikmyndatöku, leik o.fl. – með öðrum orðum er minna í gangi á kvikmyndatjaldinu. Ég vil fara í bíó og gleyma staði og stund – einfaldlega sökkva mér í söguna algerlega og ekki pæla í því hvort ákveðinn leikari sé að leika vel eða ekki.
Notorious er samt augljóslega klassamynd, sérstaklega miðað við sinn tíma. Flestir leikararnir leika einstaklega vel, og þá Claude Rains, sem leikur Alexander Sebastian. Hins vegar eru persónurnar ofureinfaldar og allt að því barnalegar í samskiptum sínum. Sem dæmi má nefna að ofuraugljóst er hverjir eru vondir og hverjir eru góðir og samskiptaleysið milli Aliciu og Devlin, hvernig stoltið þeirra skemmir fyrir sambandinu, er óraunverulega mikið. Þau tala í rauninni aldrei saman um hvað þeim finnst í alvörunni heldur leika leiki allan tímann. Þetta dró úr samsvörun minni með persónunum og þar af leiðandi úr skemmtanagildi myndarinnar.
Niðurstaðan er að ég kann enn betur að meta góðar nýjar bíómyndir eftir að hafa upplifað Notorious nostalgíuna. Klipping, kvikmyndataka, kvikmyndaleikur og handritaskrif, í raun flestar hliðar kvikmyndagerðar, hafa þróast mjög mikið frá því að Notorious var á toppinum.
Notorious slökkti því í nostalgíunni hjá mér.
Tuesday, October 23, 2007
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
ekkert skrítið að þú hafir ekki dottið inn í myndina, þú tókst þér alveg tvisvar 20 mínútna hlé í miðri mynd.
Post a Comment