Wednesday, February 20, 2008

Killer of Sheep (1977)

Áður en ég fer út í gagnrýni á myndina ætla ég að rekja forsögu myndarinnar. Sú saga er nefnilega mjög merkileg og flestir horfa á myndina í því ljósi.

Killer of Sheep hefur reikað um kvikmyndaheiminn í 30 ár. Félag kvikmyndagagnrýnenda valdi myndina eina af 100 grundvallarkvikmyndum kvikmyndasögunnar. En þangað til í fyrra - ef frá eru taldir þeir sem sækja kvikmyndir á ólöglegan hátt á netinu - hefur nær enginn fengið að sjá myndina. Flestir halda að ástæðan fyrir þessari gríðarlöngu töf sé að höfundurinn og leikstjórinn, Charles Burnett, hafi ekki átt pening til að gefa myndina út því hann hafi ekki getað borgað lagahöfundum fyrir að nota lög þeirra í myndinni. En í orðum herra Burnett sjálfs:

"I never had the means of distributing it. I made it with music without getting clearances because I always thought it would be seen only by a small audience of activists.”

Börn að leik í eftirminnilegri senu

Annað átti heldur betur eftir að koma í ljós, og Milestone fyrirtækið tók að sér að gefa myndina út og semja við lagahöfunda og -flytjendur um að fá að dreifa myndinni. Það verk tók sex ár og kostaði $150.000, sem var afar há upphæð fyrir lítið fyrirtæki eins og Milestone. Það varð þeim þó til happs að Steven Soderbergh, leikstjórinn frægi, gaf $75.000 í verkefnið. Í staðinn vildi hann ekkert - hann elskaði einfaldlega verk Burnetts.

En þá að myndinni sjálfri. Myndin fjallar um daglegt líf manns að nafni Stan, sem leikinn er af Henry Gayle Sanders. Stan vinnur í sláturhúsi við að slátra kindum og þaðan er nafn myndarinnar dregið. En þessi vinna hans er einnig mjög táknræn, því sífellt er klippt á milli kindanna og svörtu krakkanna í myndinni og myndin er í raun mjög hörð ádeila á aðstæður svertingja í Bandaríkjunum. Það góða við myndina hvað ádeiluna varðar er að hún er alls ekki augljós og myndin hefur ekki neinn augljósan siðaboðskap sem hann reynir að troða ofan í áhorfandann.

Stan byrjar sem mjög óhamingjusamur maður. Hann yrðir varla á konuna sína, skammast í krökkunum og gælir jafnvel við glæpastarfsemi þegar honum er boðið að taka þátt. Hann mætir í sláturhúsið dag eftir dag og kemur síðan heim örþreyttur, bæði á sál og líkama. Konan hans er afar óhamingjusöm vegna þessarar slæmu meðferðar og er sífellt utan í honum. Þegar á myndina líður kemur hins vegar smám saman hið góða í ljós hjá Stan og á endanum sættir hann við sitt hlutskipti og verður sáttur með lífið og tilveruna - þótt ekkert hafi í raun breyst nema hann og hans viðhorf.

Tveir smákrimmar í Watts-hverfinu

Sögusviðið er Watts-svertingjahverfið í Los Angeles og myndin er það raunveruleg að hún er eiginlega á mörkunum heimildarmyndar og leikinnar myndar. Dæmi um það er söguþráðurinn, eða réttara sagt skortur á söguþræði. Það er stærsta einkenni myndarinnar og um leið helsti galli hennar. Kvikmynd án söguþráðar verður fljótt leiðinleg. Burnett virðist reyndar hafa vitað það, öfugt við leikstjóra The Taste of Tea (sjá að neðan), sem hafði sína mynd tvo og hálfan tíma. Burnett hélt sig sem betur fer við 83 mínútur.

En sem afþreyingarmynd er Killer of Sheep á mjög lágu plani - hún er einfaldlega ekki nógu skemmtileg. En það er heldur ekki endilega ætlunin hjá Burnett. Hann gerði hana í kvikmyndaskóla, og eins og tilvitnunin að ofan sagði þá var aldrei ætlunin að setja hana í almenna dreifingu. Því er eðlilegra að horfa á hana út frá samtímanum, boðskapnum og sögunni á bakvið myndina. Þegar það er gert er Killer of Sheep alls ekki svo slæm. Tónlistin er virkilega skemmtileg og bókstaflega heldur myndinni á floti, enda byggir hún fyrst og fremst á andrúmslofti, eða stemningu, í senunum. Tónlistarval Burnetts skapar mjög flotta stemningu í myndinni og hentar stílnum vel.

Á heildina litið myndi ég einungis mæla með þessari mynd fyrir þá sem finnst forsagan mjög áhugaverð og vilja sjá myndina á bakvið söguna. Fyrir aðra er þetta enn ein leiðinlega bíómyndin í safnið. Sjálfur tilheyrði ég fyrri hópnum í þetta skiptið - mér fannst Killer of Sheep vera áhugaverð.

Tuesday, February 12, 2008

Shortbus (2006)

Eftir að Jón bloggaði eftirminnilega 1800 orða færslu um þessa mynd langaði mig til að sjá hana. Ég veit ekki hvað það var (vonandi ekki hommaklámslýsingarnar), en eitthvað heillaði við hana. Ég kíkti því á hana á hana fyrir um viku síðan og blogga um hana núna.

Nærtækast er að bera þessa mynd saman við tvær myndir, Kids og Ken Park. Þar sem nú er orðið frekar langt síðan ég sá Kids mun ég samt aðallega bera hana saman við Ken Park.

Meginmunurinn á þessum tveimur myndum er að allt sjokk-effectið í Ken Park er bara gert til að sjokkera, á meðan allar senurnar í Shortbus hafa tilgang og þróa persónur myndarinnar áfram. Ég hélt reyndar að hér stefndi í aðra Ken Park þegar upphafsatriðið stóð sem hæst, en nánari lýsingar á því atriði má lesa á blogginu hans Jóns. Síðan kemur í ljós að öll þessi atriði hafa tilgang.

Annar grunnmunur á grófu senum myndarinnar er að í Shortbus eru senurnar jákvæðar, en í Ken Park eru þær á einhvern hátt allar tengdar einhverju dimmu og neikvæðu.

Gagnrýni á siðferðislegt gildi Shortbus finnst mér ekki vera réttmæt. Það vita allir að myndin er gróf, á coverinu stendur að þetta sé grófasta kynlífsmynd sem farið hafi í almenn kvikmyndahús. Þeir sem sjá hana ættu því ekki að láta sum atriðin koma sér á óvart.

Meðal þess sem ég fíla við þessa mynd er hvað hún nær mikilli stemningu. Myndin gerist í New York og allt snýst um næturklúbbinn Shortbus, þar sem öll bóhemin eru mætt, til að spjalla, drekka og fara í orgíur. Stemningin er rosalega hippaleg - algjört frelsi og enginn hugsar um hvað náunganum finnst um sig.

Aðalpersóna myndarinnar heitir Sofia og er kynlífsráðgjafi. Plott myndarinnar snýst um að hún getur ekki fengið fullnægingu og rekst á Shortbus í leit sinni að alsælunni. Eitt það athyglisverðasta við myndina er hversu ótrúlega góð leikkona leikur hana. Maður hefði haldið að mynd sem krefst þess að þú ríðir einhverjum leikara á ótrúlega marga vegu myndi skera niður úrval góðra leikkvenna niður í ekkert. Það virðist hins vegar ekki hafa verið vandamál fyrir leikstjórann, og leikur hennar er eftirminnilegur.

Annar mjög skemmtilegur fídus er þrívíddarmódel af New York, sem er notað til að fara á milli húsa og sýnir líka þegar rafmagnið fer af borginni. Þetta var rosalega fersk leið til að sýna hvað var í gangi í myndinni og virkaði ótrúlega vel.

Á heildina séð er Shortbus ekki lík neinni annarri mynd sem ég hef séð. Hún er ótrúlega fersk, innlifunin er alger og maður beinlínis dregst inn í söguna. Ég velti því fyrir mér hvort skortur á grafískum senum sem sýna heilsteypt líf persónu eins og það er í raun skemmi ekki fyrir öðrum myndum. Eitt er víst að ef þessi mynd hefði verið ritskoðuð þá myndi það gereyðileggja hana.

Ég mæli eindregið með Shortbus.

Monday, February 11, 2008

Cha no aji (2004)

Óvissumynd þessarar viku er japanska myndin Cha no aji (e. The Taste of Tea). Myndin hefur 1300 atkvæði á imdb og fær einkunnina 8.0.

Frá fyrstu mínútu lofaði myndin góðu. Gullfalleg upphafssena með frægu bleiku japönsku trjánum og virkilega fallegt umhverfi gerði myndina að augnkonfekti. Karakterarnir lofa nokkuð góðu og myndin virðist vera að byggja eitthvað upp. So far, so good.

Eftir um það bil klst hafði mér algerlega snúist hugur. Enn hafði ekkert gerst og nær engin þróun hafði orðið í sögunni. Allar persónunar héldu áfram að lifa sínu lífi án nokkurra skapsveiflna eða spennu og litlaust lífið hélt áfram. Ég var farinn að líta mjög oft á klukkuna þegar loksins að 90 mínútna markinu var komið. En þá átti ég von á öðru verra; myndin átti eftir að halda áfram í næstum klukkustund í viðbót.

Mér finnst mjög rangt að gera minni kröfur til bíómynda ef þær eru framandi eða gamlar, en það er tilhneiging sem mér finnst ég sjá mjög oft í kringum bíómyndir af því tagi. Bóbó fannst þessi mynd t.d. hress, kunni vel við karakterana og fannst hún flott. . Þetta eru svosem alveg valid punktar, en myndin var svo gríðarlega hææææg að brandararnir urðu pirrandi, karakterarnir leiðinlegir og flottu skotin vildi ég að hefðu verið klippt út svo sagan hefði einhverja framvindu.

Verra þykir mér þegar farið er að tala um fullt af táknum og ádeilum í umhverfinu og persónunum, því að ef einhver tákn og þess háttar hlutir eru í þessari mynd þá eru þeir þar af algerri tilviljun. Það er dæmi um að gefa mynd séns bara af því að hún er ekki Hollywood-mynd.


Málið er einfaldlega að handritshöfundarnir virðast ekki hafa verið að reyna að segja neina sögu, eða þá að leikstjóri myndarinnar hafi gjörsamlega rústað handritinu í meðför sinni og eyðilagt alla meiningu þess. Sem dæmi nefni ég atriðið sem ég varð fyrir mestum vonbrigðum með í myndinni. Ég ætla ekki að vara sérstaklega við spoiler hér því að atriðið skiptir engu máli, frekar en nokkurt annað atriði myndarinnar.

Eftir að afinn í ofur-venjulegu hversdagsfjölskyldunni deyr skoðar fjölskyldan vinnuherbergið hans, og finnur fjórar möppur, eina merkta hverjum fjölskyldumeðlimi. Inni í möppunum eru sovna roll-through myndir, sem hreyfast þegar flett er hratt í gegnum blaðsíðurnar. Leikstjórinn tekur örugglega hátt í 10 mínútur í þessa senu. Fyrst eru sýndar myndir af mömmunni að labba, síðan pabbanum að hlaupa, síðan strákinum að hjóla og loks stelpunni að snúa sér á stöng. Hver syrpa er sýnd nokkrum sinnum, næstum ekkert er talað á meðan og lítil sem engin tónlist spilar undir. Engin spenna er byggð upp á neinum tímapunkti og þessi saga gerir ekkert fyrir framvinduna.

Ég spyr mig með tilgang myndarinnar? Af hverju að búa til mynd þar sem engu máli skiptir hvenær byrjað er að horfa og hvenær hætt er að horfa? Af hverju að búa til mynd þar sem það eina sem lætur mann vita að myndin sé búin er credit-listinn? Og af hverju að búa til mynd sem er löng og hundleiðinleg?

Ég á erfitt með að svara þessum spurningum.

Wednesday, February 6, 2008

Bestu myndir ársins 2008

Kvikmyndaárið 2008 virðist ætla að verða nokkuð gott. Ég fór yfir ýmsa lista á netinu og fann þær myndir sem ég hef mestan áhuga á að sjá á árinu. Myndir sem nú þegar hafa komið út, eins og til dæmis No Country for Old Men, eruekki taldar með hér - ég fer einungis yfir myndir sem væntanlegar eru seinna á árinu. Svo virðist sem verkfall handritshöfunda sé ekki farið að hafa slæm áhrif á Hollywood, að minnsta kosti ekki enn sem komið er. En vindum okkur í þetta:

1. Bond 22: Quantum of Solace
Bond er algert skylduáhorf og er ég spenntastur fyrir þessari af öllum myndum ársins. Myndin á að taka við Casino Royale í beinni tímaröð og það hljómar mjög vel fyrir persónusköpunina. Leikstjórinn er Marc Forster, en hans "breakthrough" mynd var Monster's Ball, en hann hefur einnig leikstýrt t.d. Finding Neverland, með Johnny Depp.

2. The Dark Knight
Christopher Nolan leikstýrir og Christian Bale leikur Batman aftur. Ég held að ekki þurfi að tíunda hversu vinsæl þessi mynd verður í sumar. Stefnir í stærstu mynd ársins og vonandi eina af þeim betri.

3. Wanted
James McAvoy, einn efnilegasti leikarinn í Hollywood, Angelina Jolie og Morgan Freeman í mynd sem virðist ætla að vera gríðarlega töff. Mæli með trailernum: www.wantedmovie.com, hann minnir mig dálítið á Matrix – sem er bara gott, því það er besta mynd sem ég hef séð skv. topp 10 listanum.

4. 21
Sannsöguleg mynd um háskólanema í stærðfræði frá MIT í Bandaríkjunum sem fóru til Las Vegas til að græða á Blackjack, með stærðfræði. Ég hef heyrt af þessu áður og líst mjög vel á leikarahópinn, sem inniheldur m.a. Kevin Spacey og Lawrence Fishburne.


5. X-Files 2
Ég hef alltaf verið mjög spenntur fyrir X-files og horfði mikið á þættina. Mynd um geimverur með meistara David Duchovny sem Mulder í aðalhlutverki hljómar óneitanlega mjög vel. Reyndar á eftir að gefa myndinni nafn, en hún á að koma í lok júlí.

6. Indiana Jones & the Kingdom of the Crystal Skull
Indiana orðinn 65 ára og Spielberg leikstýrir enn. Þetta verður ein stærsta mynd ársins og gaman verður að sjá hvernig tekst til. Meðal fleiri leikara eru Ray Winstone og Kate Blanchett. Áætlað er að myndin verði frumsýnd í lok maí.

7-8. Burn After Reading
Eitthvað CIA njósna-spennu-drama, leikstýrt af Coen bræðrum og fyrsta flokks leikarahóp (m.a. Brad Pitt, George Clooney og John Malkovich). Hljómar vel.

7-8. Body of Lies
Önnur CIA njósnamynd, í þetta skiptið leikstýrt af Ridley Scott og skartar Russel Crowe og Leonardo DiCaprio. Klassísk formúla, sem er kannski ástæðan fyrir því að von er á tveimur svona í ár.

9. The Incredible Hulk
Já, Hulk eitt var ömurleg, en núna er Edward Norton kominn í hlutverkið og tæknivinnan, sem floppaði algerlega í fyrstu myndinni (Hulk hegðaði sér frekar eins og Flubber heldur en stórt skrímsli í henni), hefur verið endurbætt. Ég er tilbúinn til að gefa henni séns

10. Sex & The City
Þættirnir eru mjög skemmtilegir og ef myndin kemst nálægt þeim vil ég hiklaust kíkja á hana.


---
Ítarefni:
Grein Times Online um 50 stærstu kvikmyndir ársins 2008

House of Cards (1990)

Þessa þætti fékk ég í afmælisgjöf um síðustu helgi. House of Cards eru skáldaðir breskir dramaþættir um mann að nafni Francis Urquhart, sem gegnir embætti "Chief Whip" innan breska íhaldsflokksins. Chief Whip er eins konar agavörður flokksins, sem passar að þingmenn kjósi rétt í mikilvægum málum og haldi sig við stefnu flokksins. Eða í orðum herra Urquharts:

"I'm the Chief Whip. Merely a functionary. I keep the troops in line. I put a bit of stick about. I make 'em jump."

Þættirnir eiga sér stað eftir að Margaret Thatcher fer frá völdum og nýr forsætisráðherra íhaldsflokksins tekur við. Sögusvið þáttanna er því fyrst og fremst Downing stræti 10 og Westminster höllin. Tilviljun ein réði því, en þættirnir voru einmitt sýndir á sama tíma og Thatcher steig niður og íhaldsmenn kepptust um að fá að taka við af henni.

Urquhart fer á fund til nýja forsætisráðherrans, sem heitir Charles Collingridge, og margir vilja meina að sé eftirmynd af John Major. Urquhart biður um ráðherrastöðu fyrir sig og íhaldssama vini sína, en Collingridge neitar honum um allt saman og Urquhart gengur sneyptur út af fundinum. Urquhart lætur ekki bjóða sér það og grípur til aðgerða.

Í stuttu máli snúast þættirnir um pólitísk klókindi Urquharts, en hann er staðráðinn í að verða sjálfur forsætisráðherra á kostnað sitjandi forsætisráðherra og formanns íhaldsflokksins. Þættirnir fjalla síðan um hvernig Francis fer að því að hrekja ráðherrann frá völdum og sigra andstæðinga sína í baráttunni um forsætisráðherrastólinn.

Það er í rauninni að vissu leyti rangnefni að kalla House of Cards dramaþætti, þar sem Francis virðist vera algerlega tilfinningasnauður. Hann lýgur, kúgar, mútar, tælir og jafnvel myrðir, allt til að koma sér áfram innan "hirðar" íhaldsflokksins. Og þetta gerir hann á fullkomlega yfirvegaðan hátt.

Til að bæta enn á kaldhæðnina talar Francis reglulega beint við áhorfandann með því að horfa í myndavélina í gegnum alla atburðarásina. Hann kemur með beittar og hæðnar athugasemdir sem eru ætlaðar milli hans og áhorfandans í trúnaði. Þessi stíll gerir þættina á einhvern hátt enn raunverulegri fyrir vikið og dregur áhorfandann inn í atburðarásina.

Francis er nefnilega skilgreiningin á breskum herramanni, eða Gentleman. Allt frá fasi til klæðnaðar, heimilis og áhugamála ýtir undir ímynd hans sem manns sem mikil virðing er borin fyrir. Það eru með sterkustu kostunum við þættina - hin fullkomna yfirvegun og háttvísi Francis er aðdáunarverð og gerir hann að ódauðlegri persónu.

Francis Urquhart er leikinn af Ian Richardson, sem sumir kannast kannski við. Túlkun hans á Urquhart er ótrúlega flott og hefur meira að segja haft áhrif á bresk stjórnmál, hvað varðar talsmáta. Richardson á að hafa tekið sér Ríkharð þriðja frá Shakespeare til fyrirmyndar þegar hann undirbjó sig fyrir hlutverkið, svo það gefur vonandi ágæta mynd af persónunni. Nokkrar línur sem eru notaðar enn í dag og eiga vinsældir sínar m.a. þessum þáttum að þakka:

"You might very well think that; but I couldn't possibly comment" (þýðir: "Já, en ég neita öllu ef þú ferð með það lengra.")

"He wants to spend more time with his family"
(þýðir: "Hann var rekinn með skömm.")

"
He's been economical with the truth"
(þýðir: "Hann hefur logið hverju sem er til að bjarga eigin skinni.")

Þessar línur eru góð dæmi um dýptina, bresku kaldhæðnina og klókindin í Francis Urquhart. Allt sem hann gerir er á Macchíavellískum nótum og er einstaklega skemmtilegt að horfa á. Richardson fékk enda BAFTA verðlaunin fyrir besta leik í þáttunum. Richardson dó þann 9. febrúar fyrir ári síðan, 72ja ára að aldri, og hans er fyrst og fremst minnst fyrir hlutverk sitt í þessum þáttum.

Auk leiksins var handritið verðlaunað af breskum handritshöfundum auk Emmy verðlauna. Leyndardómurinn á bakvið þetta frábæra handrit má finna í samnefndri skáldsögu sem þættirnir eru skrifaðir eftir, en höfundur þeirrar bókar er Michael Dobbs, sem var um tíma varaformaður íhaldsflokksins og þekkir innviði bresku ríkistjórnarinnar. Dobbs veit greinilega að allt er mögulegt í samkeppni um völd í Westminster.

Hér eru nokkur dæmi um siðleysið sem ræður ríkjum:

Penny Guy: Oh, Roger! You're not taking cocaine at 8 in the morning at the Conservative Party Conference.

Stephanie Woolton: [after sitting through a tape of her husband having sex at a political conference] Oh and one more thing... you will let me know if I have to get an HIV test, won't you?

Francis Urquhart: She trusts me absolutely. I trust she does. And I, I trust her absolutely - to be absolutely human.

Það er kannski einmitt þetta skrýtna siðferði sem gerir þættina góða. Þrátt fyrir að Francis Urquhart sé fullkomlega siðlaus og valdagráðugur maður er hann svo heillandi persóna að áhorfandinn heldur fullkomlega með honum þrátt fyrir öll illvirkin. Þannig má í raun segja að þættirnir spilli áhorfandanum, því samviska mín hringdi engum bjöllum, ég vonaði einfaldlega að ekki kæmist upp um Francis.

Þættirnir eru einungis fjórir talsins og spanna rétt rúmar 200 mínútur í heildina. Það er því ekki mikið á sig lagt að horfa á seríuna við gott tækifæri og njóta bresks sjónvarpsefnis eins og það gerist best. Því það eru þættir eins og House of Cards sem gera BBC heimsfræga fyrir fyrsta flokks sjónvarpsefni.

Tuesday, February 5, 2008

El espinazo del diablo (2001)

Nýjasta skyldumyndin, þessi ævintýramynd er frá leikstjóranum Guillermo del Toro, þeim sama og gerði myndina El Laberinto Del Fauno (2006).

Myndin gerist á tímum borgarastyrjaldarinnar á Spáni og hægrimenn Francos eru að ná yfirhöndinni. Carlos, tíu ára strákur, er settur á munaðarleysingjahæli eftir að pabbi hans deyr í stríðinu við menn Francos. Meðan Carlos kynnist aðstæðum á hælinu kemst hann í kynni við draug sem segir að margir muni deyja, auk þess sem ósprungin sprengja stendur í miðjum garðinum frá upphafi myndarinnar. Jacinto, vinnumaður á hælinu, er illmenni myndarinnar og Carlos lendir í miklum hörmungum áður en yfir lýkur.

Þessi mynd líkist að mjög miklu leyti El Laberinto Del Faunu. Í báðum myndum er fjallað um barn sem lendir illa í hörku og ilsku fullorðinna í tengslum við borgarastyrjöldina á Spáni.

Titill myndarinnar skýrist af spjalli höfuðsmanns hælisins, Dr. Casares, við Carlos um fóstur sem Casares geymir í krukkum. Hryggur barnanna er svartur og brunninn og er kallaður hryggur djöfulsins. Casares segir að Spánverjar trúi því að hryggurinn tákni börn sem aldrei hafi átt að fæðast. Þetta er táknrænt fyrir börnin á munaðarleysingjahælinu, að hörmunarnar og dauðinn sem þau lenda í hafi verið örlög þeirra sem ekki var hægt að flýja.

Þessi mynd var virkilega góð. Hún hafði merkilega sögu að segja, var átakanleg, vel leikin og mjög vel útlítandi.

Það eina sem truflaði mig var hversu dramatíseraðir karakterarnir voru. T.d. þegar Jacinto drepur unga ástkonu sína einfaldlega vegna þess að hún svo stolt að hún vill frekar deyja heldur en að segja fyrirgefðu. Ef maður setur sig einfaldlega í hennar spor hefði legið beint fyrir að þegar lífi manns er ógnað er minnsta mál að segja fyrirgefðu, einfaldlega til að halda lífi. En kannski er þetta bara menningarmunur, kannski eru Spánverjar svo tilfinningaheitir að þeir séu frekar tilbúnir að deyja en að sveigja stoltið.

Ég var í það minnsta virkilega ánægður með myndina og bíð spenntur eftir næstu skyldumynd.

I am legend (2007)

Will Smith stórmyndin. Stærsta desemberopnun Hollywood allra tíma og tekjurnar komnar í tæpar 600 milljónir dala, sem eru um 4 milljarðar króna. Þessar viðtökur voru alveg rosalegar og spurningin er hvort myndin hafi staðið undir þeim.

I am legend er sci-fi mynd og snýst um að næstum allt mannkynið hefur verið þurrkað út af vírus sem átti að lækna krabbamein. Will Smith leikur vísindamann sem er að reyna að vinna bug á veirunni og lifa af á manhattan innan um sýktar lífshættulegar mannverur á meðan.

Í stuttu máli er myndin virkilega töff, flott og vel leikin. Visual effectin eru alveg mind-blowing og það er virkilega gaman að sjá manhattan í eyði og alveg í rúst. Fyrri hluti myndarinnar var því alveg frábær og ég var næstum því með gæsahúð yfir töffleikanum. Ég fór á myndina í Kringlubíó og hljóð og mynd þar gerði upplifunina magnaða.

Þegar hins vegar sígur á seinni hlutann, þegar Will Smith hittir konu sem er að ferðast til fyrirheitna landsins afvegaleiðist I am legend svo um munar. Handritshöfundurinn virðist missa sig í kristilegum táknum og trúarboðskap og fer að rembast við að láta alla áhorfendur skyndilega trúa á Guð. Síðan þegar Will Smith dó og "María mey framtíðarinnar" komst til fyrirheitna landsins varð ég ósáttur, enda endir sem var í engu samræmi við töffaraskapinn framan af myndinni.

Þrátt fyrir þessi slæmu endalok var ég mjög ánægður með myndina í heild. Ég kann mjög vel við framtíðarskáldsögur og allt systemið sem Smith var með til að lifa af, t.d. heimilið hans, var mjög útpælt og flott. Ég mæli því með I am legend fyrir þá sem ekki hafa séð hana - og ég mæli með henni á stórum skjá.

Juno (2008)

Þessa mynd kíkti ég á fyrir ca. viku síðan og vissi nákvæmlega ekkert um hana fyrirfram. Leikstjórinn er Jason Reitman ("Thank You fo Smoking") og er myndin m.a. tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta myndin.

Að þessi mynd hafi fengið tilnefningu finnst mér vera merki um að allt sé hey í harðinum hjá Óskarnum. Jújú, myndin er fín, en hún er ekki mjög fyndin, ekki mjög sannfærandi og ekki mjög hrærandi. Þetta er alger lala feel-good leigja-spólu mynd með skondnum karakterum og mjög lítilli atburðarás.

Það sem truflaði mig mest var hvað Juno er gríðarlega mikil stelpumynd. Allt snýst um stelpuna Juno sem er rosalega mikill kvenskörungur, öfugt við alla karlmenn myndarinnar, sem eru meira og minna aumingjar. Bara sá útgangspunktur pirraði mig mikið - hvað hún er miklu klárari og hæðnari en allir aðrir og lætur ekki bjóða sér neitt rugl. Frábært fyrir hana, en ergjandi að horfa á.

Plott myndarinnar er það að Juno verður ólétt eftir einhvern skokk-nördastrák og ákveður að gefa barnið barnlausum foreldrum í gegnum smáauglýsingar. Hún fer síðan og heimsækir foreldrana nokkrum sinnum og nær rosalega vel saman við "pabbann". Gallinn við þessa karakterþróun er að hún er látin gerast á ótrúlega hallærislegan hátt, Juno kynnist semsagt pabbanum með því að tala endalaust við hann um alternative tónlist og gore-hryllingsmyndir. Úff.

Ég fýlaði þessa mynd semsagt alls ekki, þegar ég fæ kjánahroll yfir kvikmynd nokkrum sinnum þá er henni ekki lengur bjargandi. Guð forði henni frá nokkrum Óskarsverðlaunum.

Brúðguminn (2008)

Brúðguminn var önnur skyldumynd ársins og ég skellti mér á hana um daginn með Ingólfi Halldórssyni, eða Bóbó (til vinstri á mynd). Myndin var frumsýnd 16. janúar síðastliðinn og leikstýrir Baltasar Kormákur myndinni, en hann er einmitt pabbi Baltasars Breka í 5.B (til hægri á mynd). Sögusvið myndarinnar er fyrst og fremst Flatey. Aðalpersónan, Jón Jónsson háskólakennari, flytur þangað með kærustunni til að hefja nýtt líf.

Ég hafði gaman að þessari mynd. Það er ekki oft sem maður sér íslenskar bíómyndir ná því að vera fyndnar án þess að það sé tilgerðarlegt. Margar senurnar í Brúðgumanum voru bráðfyndnar og fannst mér það einn ferskasti punkturinn á myndinni. Dramahlið myndarinnar fannst mér líka allt í lagi, en þó örlítið síðri. Þeim hluta var fyrst og fremst haldið uppi af Hilmi Snæ, en hann er alveg ótrúlega góður leikari og kemur mér sífellt á óvart. Jón er langþreyttur og drykkfelldur og það skín úr augunum á Hilmi Snæ allan tímann.

Ég viðurkenni þó að þessi mynd risti ekki mjög djúpt. Endirinn skilur mann eftir á byrjunarreit og það skildi eftir tómarúm hjá mér þegar ég gekk út úr bíóinu. Systur-leikritið Ívanoff endar víst á því að hann drepur sig og hefði ég frekar viljað sjá eitthvað í þeim dúr í myndinni, einfaldlega til að gera hana upp í lokin.

Annars var frágangur myndarinnar, klipping, útlit og kvikmyndataka allt fyrsta flokks. Myndin flakkaði á milli fortíðar og nútíðar og ólíkt mörgum öðrum myndum fannst mér hún komast fullkomlega upp með það.

Ég gekk því sáttur út, en ekki varð þó ekki fyrir mjög miklum áhrifum.