Killer of Sheep hefur reikað um kvikmyndaheiminn í 30 ár. Félag kvikmyndagagnrýnenda valdi myndina eina af 100 grundvallarkvikmyndum kvikmyndasögunnar. En þangað til í fyrra - ef frá eru taldir þeir sem sækja kvikmyndir á ólöglegan hátt á netinu - hefur nær enginn fengið að sjá myndina. Flestir halda að ástæðan fyrir þessari gríðarlöngu töf sé að höfundurinn og leikstjórinn, Charles Burnett, hafi ekki átt pening til að gefa myndina út því hann hafi ekki getað borgað lagahöfundum fyrir að nota lög þeirra í myndinni. En í orðum herra Burnett sjálfs:
"I never had the means of distributing it. I made it with music without getting clearances because I always thought it would be seen only by a small audience of activists.”
Annað átti heldur betur eftir að koma í ljós, og Milestone fyrirtækið tók að sér að gefa myndina út og semja við lagahöfunda og -flytjendur um að fá að dreifa myndinni. Það verk tók sex ár og kostaði $150.000, sem var afar há upphæð fyrir lítið fyrirtæki eins og Milestone. Það varð þeim þó til happs að Steven Soderbergh, leikstjórinn frægi, gaf $75.000 í verkefnið. Í staðinn vildi hann ekkert - hann elskaði einfaldlega verk Burnetts.
En þá að myndinni sjálfri. Myndin fjallar um daglegt líf manns að nafni Stan, sem leikinn er af Henry Gayle Sanders. Stan vinnur í sláturhúsi við að slátra kindum og þaðan er nafn myndarinnar dregið. En þessi vinna hans er einnig mjög táknræn, því sífellt er klippt á milli kindanna og svörtu krakkanna í myndinni og myndin er í raun mjög hörð ádeila á aðstæður svertingja í Bandaríkjunum. Það góða við myndina hvað ádeiluna varðar er að hún er alls ekki augljós og myndin hefur ekki neinn augljósan siðaboðskap sem hann reynir að troða ofan í áhorfandann.
Stan byrjar sem mjög óhamingjusamur maður. Hann yrðir varla á konuna sína, skammast í krökkunum og gælir jafnvel við glæpastarfsemi þegar honum er boðið að taka þátt. Hann mætir í sláturhúsið dag eftir dag og kemur síðan heim örþreyttur, bæði á sál og líkama. Konan hans er afar óhamingjusöm vegna þessarar slæmu meðferðar og er sífellt utan í honum. Þegar á myndina líður kemur hins vegar smám saman hið góða í ljós hjá Stan og á endanum sættir hann við sitt hlutskipti og verður sáttur með lífið og tilveruna - þótt ekkert hafi í raun breyst nema hann og hans viðhorf.
Sögusviðið er Watts-svertingjahverfið í Los Angeles og myndin er það raunveruleg að hún er eiginlega á mörkunum heimildarmyndar og leikinnar myndar. Dæmi um það er söguþráðurinn, eða réttara sagt skortur á söguþræði. Það er stærsta einkenni myndarinnar og um leið helsti galli hennar. Kvikmynd án söguþráðar verður fljótt leiðinleg. Burnett virðist reyndar hafa vitað það, öfugt við leikstjóra The Taste of Tea (sjá að neðan), sem hafði sína mynd tvo og hálfan tíma. Burnett hélt sig sem betur fer við 83 mínútur.
En sem afþreyingarmynd er Killer of Sheep á mjög lágu plani - hún er einfaldlega ekki nógu skemmtileg. En það er heldur ekki endilega ætlunin hjá Burnett. Hann gerði hana í kvikmyndaskóla, og eins og tilvitnunin að ofan sagði þá var aldrei ætlunin að setja hana í almenna dreifingu. Því er eðlilegra að horfa á hana út frá samtímanum, boðskapnum og sögunni á bakvið myndina. Þegar það er gert er Killer of Sheep alls ekki svo slæm. Tónlistin er virkilega skemmtileg og bókstaflega heldur myndinni á floti, enda byggir hún fyrst og fremst á andrúmslofti, eða stemningu, í senunum. Tónlistarval Burnetts skapar mjög flotta stemningu í myndinni og hentar stílnum vel.
Á heildina litið myndi ég einungis mæla með þessari mynd fyrir þá sem finnst forsagan mjög áhugaverð og vilja sjá myndina á bakvið söguna. Fyrir aðra er þetta enn ein leiðinlega bíómyndin í safnið. Sjálfur tilheyrði ég fyrri hópnum í þetta skiptið - mér fannst Killer of Sheep vera áhugaverð.