Tuesday, February 5, 2008

I am legend (2007)

Will Smith stórmyndin. Stærsta desemberopnun Hollywood allra tíma og tekjurnar komnar í tæpar 600 milljónir dala, sem eru um 4 milljarðar króna. Þessar viðtökur voru alveg rosalegar og spurningin er hvort myndin hafi staðið undir þeim.

I am legend er sci-fi mynd og snýst um að næstum allt mannkynið hefur verið þurrkað út af vírus sem átti að lækna krabbamein. Will Smith leikur vísindamann sem er að reyna að vinna bug á veirunni og lifa af á manhattan innan um sýktar lífshættulegar mannverur á meðan.

Í stuttu máli er myndin virkilega töff, flott og vel leikin. Visual effectin eru alveg mind-blowing og það er virkilega gaman að sjá manhattan í eyði og alveg í rúst. Fyrri hluti myndarinnar var því alveg frábær og ég var næstum því með gæsahúð yfir töffleikanum. Ég fór á myndina í Kringlubíó og hljóð og mynd þar gerði upplifunina magnaða.

Þegar hins vegar sígur á seinni hlutann, þegar Will Smith hittir konu sem er að ferðast til fyrirheitna landsins afvegaleiðist I am legend svo um munar. Handritshöfundurinn virðist missa sig í kristilegum táknum og trúarboðskap og fer að rembast við að láta alla áhorfendur skyndilega trúa á Guð. Síðan þegar Will Smith dó og "María mey framtíðarinnar" komst til fyrirheitna landsins varð ég ósáttur, enda endir sem var í engu samræmi við töffaraskapinn framan af myndinni.

Þrátt fyrir þessi slæmu endalok var ég mjög ánægður með myndina í heild. Ég kann mjög vel við framtíðarskáldsögur og allt systemið sem Smith var með til að lifa af, t.d. heimilið hans, var mjög útpælt og flott. Ég mæli því með I am legend fyrir þá sem ekki hafa séð hana - og ég mæli með henni á stórum skjá.