Monday, February 11, 2008

Cha no aji (2004)

Óvissumynd þessarar viku er japanska myndin Cha no aji (e. The Taste of Tea). Myndin hefur 1300 atkvæði á imdb og fær einkunnina 8.0.

Frá fyrstu mínútu lofaði myndin góðu. Gullfalleg upphafssena með frægu bleiku japönsku trjánum og virkilega fallegt umhverfi gerði myndina að augnkonfekti. Karakterarnir lofa nokkuð góðu og myndin virðist vera að byggja eitthvað upp. So far, so good.

Eftir um það bil klst hafði mér algerlega snúist hugur. Enn hafði ekkert gerst og nær engin þróun hafði orðið í sögunni. Allar persónunar héldu áfram að lifa sínu lífi án nokkurra skapsveiflna eða spennu og litlaust lífið hélt áfram. Ég var farinn að líta mjög oft á klukkuna þegar loksins að 90 mínútna markinu var komið. En þá átti ég von á öðru verra; myndin átti eftir að halda áfram í næstum klukkustund í viðbót.

Mér finnst mjög rangt að gera minni kröfur til bíómynda ef þær eru framandi eða gamlar, en það er tilhneiging sem mér finnst ég sjá mjög oft í kringum bíómyndir af því tagi. Bóbó fannst þessi mynd t.d. hress, kunni vel við karakterana og fannst hún flott. . Þetta eru svosem alveg valid punktar, en myndin var svo gríðarlega hææææg að brandararnir urðu pirrandi, karakterarnir leiðinlegir og flottu skotin vildi ég að hefðu verið klippt út svo sagan hefði einhverja framvindu.

Verra þykir mér þegar farið er að tala um fullt af táknum og ádeilum í umhverfinu og persónunum, því að ef einhver tákn og þess háttar hlutir eru í þessari mynd þá eru þeir þar af algerri tilviljun. Það er dæmi um að gefa mynd séns bara af því að hún er ekki Hollywood-mynd.


Málið er einfaldlega að handritshöfundarnir virðast ekki hafa verið að reyna að segja neina sögu, eða þá að leikstjóri myndarinnar hafi gjörsamlega rústað handritinu í meðför sinni og eyðilagt alla meiningu þess. Sem dæmi nefni ég atriðið sem ég varð fyrir mestum vonbrigðum með í myndinni. Ég ætla ekki að vara sérstaklega við spoiler hér því að atriðið skiptir engu máli, frekar en nokkurt annað atriði myndarinnar.

Eftir að afinn í ofur-venjulegu hversdagsfjölskyldunni deyr skoðar fjölskyldan vinnuherbergið hans, og finnur fjórar möppur, eina merkta hverjum fjölskyldumeðlimi. Inni í möppunum eru sovna roll-through myndir, sem hreyfast þegar flett er hratt í gegnum blaðsíðurnar. Leikstjórinn tekur örugglega hátt í 10 mínútur í þessa senu. Fyrst eru sýndar myndir af mömmunni að labba, síðan pabbanum að hlaupa, síðan strákinum að hjóla og loks stelpunni að snúa sér á stöng. Hver syrpa er sýnd nokkrum sinnum, næstum ekkert er talað á meðan og lítil sem engin tónlist spilar undir. Engin spenna er byggð upp á neinum tímapunkti og þessi saga gerir ekkert fyrir framvinduna.

Ég spyr mig með tilgang myndarinnar? Af hverju að búa til mynd þar sem engu máli skiptir hvenær byrjað er að horfa og hvenær hætt er að horfa? Af hverju að búa til mynd þar sem það eina sem lætur mann vita að myndin sé búin er credit-listinn? Og af hverju að búa til mynd sem er löng og hundleiðinleg?

Ég á erfitt með að svara þessum spurningum.

3 comments:

Bóbó said...

Mér fannst alveg frekar áhugavert að horfa á þessa mynd með tilliti til þess að það gerist eiginlega ekkert í henni sem skiptir máli. Ágætis tilraun í sjálfu sér á því hversu lengi þú getur haldið athygli áhorfandans með nánast engri sögu, bara karakterum. Mér fannst hún mjög skemmtileg á köflum, mjög semi á öðrum köflum og suma kaflana skildi ég hreinlega ekki. Burtséð frá því fannst mér hún mjög flott og vel leikin þannig að á heildina var hún bara fín, ekkert geggjuð, en fín.

Siggi Palli said...

Þessi mynd er ekki allra en ég elska hana. Rétt er það að (næstum) ekkert gerist í henni, hún er röð augnablika og atvika, "slice of life". Mér finnst einfaldlega alveg yndislegt að horfa á þessa mynd, ég sat bara þarna með heimskulegt glott nánast allan tímann.
Hins vegar eru margir sem vilja meina að þessi mynd sýni merki um skort á sjálfsaga hjá leikstjóranum (hefði hún þurft að vera svona löng? hefði ekki verið hægt að hafa eitthvað plott?), þ.a. viðbrögð þín koma svo sem ekkert sérstaklega á óvart. Og aðrar myndir leikstjórans bjóða svolítið upp á slíka pælingu, enda minnir þessi mynd á munka hvað sjálfsaga varðar miðað við hinar myndirnar sem ég hef séð.

Stigagjöf: 4 stig

Siggi Palli said...

Endurskoðað. 7 stig.