Mobile er glæný þrískipt saga sem sýnd var á bresku ITV sjónvarpsstöðinni fyrr á árinu. Hver þáttur er klukkustund að lengd og segja þeir sömu sögu út frá sjónarhorni mismunandi persóna.
Fyrsti þátturinn fjallar um mann sem fær hausverki af símnotkun sem kemur í ljós að stafa af heilaæxli. Hann kennir farsímum um og á sama tíma fara farsímamöstur að eyðileggjast og fólk sem talar í farsíma á götum úti er skotið úr launsátri. Grunurinn beinist fljótt að manninum…
Annar þátturinn fjallar um hermann sem er í Írak þegar hann fær þær fréttir að konan hans og barn séu dáin eftir umferðaslys. Maður sem var að tala í farsíma keyrði á þau á gangbraut og stakk af í kjölfarið. Hermaðurinn er kallaður heim og er algerlega rótlaus þar sem stríðið hafði hug hans allan fram að áfallinu. Hann leiðist síðan út á vafasamar brautir í leit að morðingjanum.
Þriðji þátturinn fjallar um manninn sem keyrði yfir konuna og barnið. Þessi þriðja og síðasta saga samtvinnar allar þrjár sögurnar á snilldarlegan hátt og hef ég sjaldan séð eins vel skrifað handrit.
Eftir að hafa horft á þessa þætti hef ég mikinn áhuga á að sjá meira af bresku sjónvarpsefni, sérstaklega ef viðmiðið í handritaskrifum er svona hátt. Eftir þessa þrjá þætti stendur eftir áhrifamikil, margþætt og flókin saga þar sem enginn er málaður “slæmur” eða “góður”. Persóna sem er “vond” í fyrsta þætti er skyndilega “góð” í þeim næsta, og áhorfandinn þarf í rauninni sjálfur að taka afstöðu um hvað sé rétt og hvað sé rangt. Þetta er kærkomið mótvægi við bróðurpartinn af bandarísku efni, þar sem heimurinn er ofureinfaldaður og allir eru í vonda liðinu eða góða liðinu.
Myndatakan og útlitið á þáttunum er annað sem mér fannst áhugavert. Þættirnir eru teknir upp stafrænt og nýta þáttagerðarmenn sér möguleika þeirrar tækni vel með því að nota nútímalega og töff litasamsetningu. Tónlistin hentar líka þáttunum vel; hún er notuð sparlega og byggir þar af leiðandi upp mikla spennu þegar hún er notuð.
Endilega kíkið á þessa þætti, þetta “þrisvar sinnum ein klukkustund” form er mjög skemmtilegt mótvægi við hefðbundna sjónvarpsþætti og bíómyndir. Mobile nýtir sér þetta afbragðsvel.
Monday, September 17, 2007
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Hljómar spennandi. Ég verð að tékka á þessu...
Post a Comment