Eftir að hafa rennt í gegnum dagskrá kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík skrifaði ég niður þær myndir sem mig langar mest að sjá á hátíðinni. Ég fjárfesti í passa á móti Marinó Páli Valdimarssyni og er markmiðið að sjá að minnsta kosti þrjár myndir á hátðinni. Þessi listi byggist næstum bara á bæklingnum og þar af leiðandi textanum um myndirnar í honum, en minna á reynslu af leikstjórunum eða einhverju þess háttar, því hún er einfaldlega ekki til staðar.
Vitranir
Klopka / Gildran
Serbía, Þýskaland, Ungverjaland (2007)
Serbnesk hjón komast að því að sonur þeirra er með banvænan hjartasjúkdóm og þarf að fara til Berlínar í 26.000 evra skurðaðgerð. Þau eiga að sjálfsögðu ekki þann pening en þurfa að eignast hann á skömmum tíma. Þessi söguþráður finnst mér vera mjög áhugaverður.
Vitranir
Bangbang wo aishen / Hjálpaðu mér Eros
Taívan (2007)
Lost in Translation er með betri myndum sem ég hef séð. Þessi mynd virðist slá á svipaða strengi að einhverju leyti. Einmana maður sem tapaði öllu á verðbréfamarkaðnum dettur í þunglyndi og kynnist síðan stúlku sem selur hnetur fyrir utan húsið hans. Saga um “firringu neyslumenningarinnar”, eins og bæklingurinn orðar það, hljómar mjög líkt umfjöllunarefninu í Lost in Translation.
Fyrir opnu hafi
4 luni, 3 saptamani si 2 zile / 4 mánuðir, 3 vikur og 2 dagar
Rúmenía (2007)
Mér finnst umfjöllunarefnið ekkert rosalega spennandi (ólögleg fóstureyðing í Austur-Evrópu), en þetta er lokamynd hátíðarinnar, fékk gullpálmann í Cannes og margir mæla með henni.
Fyrir opnu hafi
Ledsaget udgang / Tímabundið frelsi
Danmörk (2007)
Dönsk mynd, sem lofar oft góðu, sem fjallar um atvinnukrimma og fangavörðin hans sem fara í brúðkaup sem krimminn fær tímabundið leyfi til að fara í. Þegar nær er komið kemur í ljós að persónurnar eru mun flóknari en virtist í fyrstu.
Heimildamyndir
Helvetica
Bandaríkin (2007)
Heimildarmynd um mjög óvenjulegt umfjöllunarefni, leturgerðina Helvetica! Samkvæmt dagskránni sló myndin í gegn og hefur verið á stanslausum sýningum á kvikmyndahátíðum og er full af viðtölum við hönnuði og listamenn um hvernig leturgerðin hefur orðið sú vinsælasta í heimi og er orðin 50 ára í ár.
---
Þetta var fyrri hlutinn. Hann inniheldur þær myndir sem mig langar að sjá í flokkunum “Vitranir” og “Fyrir opnu hafi”. Seinni hlutinn kemur innan skamms.
Thursday, September 27, 2007
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
2 comments:
Snilld! Meistari!
ég er svo funheitur fyrir helvetica, ég er meira að segja að spá í að breyta fontinu á síðunni minni í það!
Post a Comment