Saturday, September 8, 2007

Veðramót

Í gær fór ég á frumsýningu Veðramóta með foreldrum mínum. Það var margt virkilega áhugavert við þessa mynd. Þar sem ég er nýbúinn að sjá Astrópíu ætla ég að bera þessar tvær myndir dálítið saman.

Veðramót fjallar um Breiðuvík, vistheimili fyrir unglinga þar sem Lalli Johns var meðal annars vistaður á sínum tíma. Myndin á sér hins vegar stað á hippatímabilinu á Íslandi, eftir "Breiðavíkurhneykslið" margfræga. Sagan fjallar um fólk sem kemur eftir það mál og ætlar að rífa staðinn upp og koma honum í gagnið á nýjum forsendum - með jákvæðu og uppbyggjandi andrúmslofti og með því að vera vinir krakkanna.

Eftir að hafa frétt að Astópía væri tekin upp digital tók ég strax eftir því að Veðramót var tekin upp á filmu (35mm) og er munurinn töluverður. Fyrir mitt leyti finnst mér mun meiri bíófílingur að horfa á myndir teknar á filmu. Digital upptökur hafa á einhvern hátt ódýrari brag yfir sér, þótt tæknin sé í raun í yfirburðastöðu. Ég velti fyrir mér hvort ekki sé einfaldlega hægt að eftirvinna digital myndir til að gefa þeim sama útlit og filmumyndir hafa?

En að myndinni sjálfri, þá kom mér á óvart hversu heilsteypta og góða sögu hún sagði. Ólíkt Astrópíu var hún algerlega laus við klisjur og staðalímyndir og mikill tími fór í persónusköpun. Þegar persónurnar lentu í hremmingum var því niðurstaðan að maður fann virkilega til með þeim.

Hluti af því gæti reyndar skrifast á betri leik. Astrópía innihélt nær enga reynda leikara á meðan stærsta hlutverkið í Veðramótum er leikið af Hilmi Snæ. Munurinn þar á er mjög mikill. Að sjá þessar tvær myndir með skömmu millibili sýnir svart á hvítu hversu mikilvægur góður leikur er fyrir kvikmyndir. Í Veðramótum finnur maður aldrei fyrir stífum samtölum eða lélegum leik, en það truflaði mig mjög mikið í Astrópíu.

Loks vil ég minnast á tónlistina í Veðramótum, en hún er með því betra sem ég hef heyrt í íslenskri bíómynd. Ragga Gísla sér um tónlistina og er stórum hluta myndarinnar bókstaflega haldið uppi af tónlistinni. Góð tónlist í kvikmynd skiptir ótrúlega miklu máli og í þessu tilfelli hefði það ekki getað farið betur.

Eins og heyra má var ég mjög ánægður með myndina. Sagan var mjög áhugaverð, myndin var vel leikin, tónlistin var afbragðsgóð og handritið vel skrifað. Það var virkilega gaman að fara í bíó og sjá góða íslenska bíómynd.

3 comments:

Unknown said...
This comment has been removed by the author.
Árni Þór Árnason said...

góð færsla .. þarf að detta á þessa mynd núna fljótalega. Verð reyndar að viðurkenna að ég hafði enga trú á henni en ég meina ef Bysjunni finnst hún góð þá er hún örugglega góð ..

bledsig..

Siggi Palli said...

Flott færsla.
Miðað við dómana og umtalið sem myndin hefur verið að fá, held ég að það sé ekki spurning að það verði farin hópferð á hana, svo reynum við að fá Guðnýju í heimsókn.
Einar, sem kom í tíma um daginn, er búinn að tala við Hilmi Snæ og hann tók vel í það að koma. Þannig að vonandi fáum við þau bæði...