Brúðguminn var önnur skyldumynd ársins og ég skellti mér á hana um daginn með Ingólfi Halldórssyni, eða Bóbó (til vinstri á mynd). Myndin var frumsýnd 16. janúar síðastliðinn og leikstýrir Baltasar Kormákur myndinni, en hann er einmitt pabbi Baltasars Breka í 5.B (til hægri á mynd). Sögusvið myndarinnar er fyrst og fremst Flatey. Aðalpersónan, Jón Jónsson háskólakennari, flytur þangað með kærustunni til að hefja nýtt líf.
Ég hafði gaman að þessari mynd. Það er ekki oft sem maður sér íslenskar bíómyndir ná því að vera fyndnar án þess að það sé tilgerðarlegt. Margar senurnar í Brúðgumanum voru bráðfyndnar og fannst mér það einn ferskasti punkturinn á myndinni. Dramahlið myndarinnar fannst mér líka allt í lagi, en þó örlítið síðri. Þeim hluta var fyrst og fremst haldið uppi af Hilmi Snæ, en hann er alveg ótrúlega góður leikari og kemur mér sífellt á óvart. Jón er langþreyttur og drykkfelldur og það skín úr augunum á Hilmi Snæ allan tímann.
Ég viðurkenni þó að þessi mynd risti ekki mjög djúpt. Endirinn skilur mann eftir á byrjunarreit og það skildi eftir tómarúm hjá mér þegar ég gekk út úr bíóinu. Systur-leikritið Ívanoff endar víst á því að hann drepur sig og hefði ég frekar viljað sjá eitthvað í þeim dúr í myndinni, einfaldlega til að gera hana upp í lokin.
Annars var frágangur myndarinnar, klipping, útlit og kvikmyndataka allt fyrsta flokks. Myndin flakkaði á milli fortíðar og nútíðar og ólíkt mörgum öðrum myndum fannst mér hún komast fullkomlega upp með það.
Ég gekk því sáttur út, en ekki varð þó ekki fyrir mjög miklum áhrifum.
Tuesday, February 5, 2008
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
4 stig.
Post a Comment