Þessa þætti fékk ég í afmælisgjöf um síðustu helgi. House of Cards eru skáldaðir breskir dramaþættir um mann að nafni Francis Urquhart, sem gegnir embætti "Chief Whip" innan breska íhaldsflokksins. Chief Whip er eins konar agavörður flokksins, sem passar að þingmenn kjósi rétt í mikilvægum málum og haldi sig við stefnu flokksins. Eða í orðum herra Urquharts:
"I'm the Chief Whip. Merely a functionary. I keep the troops in line. I put a bit of stick about. I make 'em jump."
Þættirnir eiga sér stað eftir að Margaret Thatcher fer frá völdum og nýr forsætisráðherra íhaldsflokksins tekur við. Sögusvið þáttanna er því fyrst og fremst Downing stræti 10 og Westminster höllin. Tilviljun ein réði því, en þættirnir voru einmitt sýndir á sama tíma og Thatcher steig niður og íhaldsmenn kepptust um að fá að taka við af henni.
Urquhart fer á fund til nýja forsætisráðherrans, sem heitir Charles Collingridge, og margir vilja meina að sé eftirmynd af John Major. Urquhart biður um ráðherrastöðu fyrir sig og íhaldssama vini sína, en Collingridge neitar honum um allt saman og Urquhart gengur sneyptur út af fundinum. Urquhart lætur ekki bjóða sér það og grípur til aðgerða.
Í stuttu máli snúast þættirnir um pólitísk klókindi Urquharts, en hann er staðráðinn í að verða sjálfur forsætisráðherra á kostnað sitjandi forsætisráðherra og formanns íhaldsflokksins. Þættirnir fjalla síðan um hvernig Francis fer að því að hrekja ráðherrann frá völdum og sigra andstæðinga sína í baráttunni um forsætisráðherrastólinn.
Það er í rauninni að vissu leyti rangnefni að kalla House of Cards dramaþætti, þar sem Francis virðist vera algerlega tilfinningasnauður. Hann lýgur, kúgar, mútar, tælir og jafnvel myrðir, allt til að koma sér áfram innan "hirðar" íhaldsflokksins. Og þetta gerir hann á fullkomlega yfirvegaðan hátt.
Til að bæta enn á kaldhæðnina talar Francis reglulega beint við áhorfandann með því að horfa í myndavélina í gegnum alla atburðarásina. Hann kemur með beittar og hæðnar athugasemdir sem eru ætlaðar milli hans og áhorfandans í trúnaði. Þessi stíll gerir þættina á einhvern hátt enn raunverulegri fyrir vikið og dregur áhorfandann inn í atburðarásina.
Francis er nefnilega skilgreiningin á breskum herramanni, eða Gentleman. Allt frá fasi til klæðnaðar, heimilis og áhugamála ýtir undir ímynd hans sem manns sem mikil virðing er borin fyrir. Það eru með sterkustu kostunum við þættina - hin fullkomna yfirvegun og háttvísi Francis er aðdáunarverð og gerir hann að ódauðlegri persónu.
Francis Urquhart er leikinn af Ian Richardson, sem sumir kannast kannski við. Túlkun hans á Urquhart er ótrúlega flott og hefur meira að segja haft áhrif á bresk stjórnmál, hvað varðar talsmáta. Richardson á að hafa tekið sér Ríkharð þriðja frá Shakespeare til fyrirmyndar þegar hann undirbjó sig fyrir hlutverkið, svo það gefur vonandi ágæta mynd af persónunni. Nokkrar línur sem eru notaðar enn í dag og eiga vinsældir sínar m.a. þessum þáttum að þakka:
"You might very well think that; but I couldn't possibly comment" (þýðir: "Já, en ég neita öllu ef þú ferð með það lengra.")
"He wants to spend more time with his family"
(þýðir: "Hann var rekinn með skömm.")
"He's been economical with the truth"
(þýðir: "Hann hefur logið hverju sem er til að bjarga eigin skinni.")
Þessar línur eru góð dæmi um dýptina, bresku kaldhæðnina og klókindin í Francis Urquhart. Allt sem hann gerir er á Macchíavellískum nótum og er einstaklega skemmtilegt að horfa á. Richardson fékk enda BAFTA verðlaunin fyrir besta leik í þáttunum. Richardson dó þann 9. febrúar fyrir ári síðan, 72ja ára að aldri, og hans er fyrst og fremst minnst fyrir hlutverk sitt í þessum þáttum.
Auk leiksins var handritið verðlaunað af breskum handritshöfundum auk Emmy verðlauna. Leyndardómurinn á bakvið þetta frábæra handrit má finna í samnefndri skáldsögu sem þættirnir eru skrifaðir eftir, en höfundur þeirrar bókar er Michael Dobbs, sem var um tíma varaformaður íhaldsflokksins og þekkir innviði bresku ríkistjórnarinnar. Dobbs veit greinilega að allt er mögulegt í samkeppni um völd í Westminster.
Hér eru nokkur dæmi um siðleysið sem ræður ríkjum:
Penny Guy: Oh, Roger! You're not taking cocaine at 8 in the morning at the Conservative Party Conference.
Stephanie Woolton: [after sitting through a tape of her husband having sex at a political conference] Oh and one more thing... you will let me know if I have to get an HIV test, won't you?
Francis Urquhart: She trusts me absolutely. I trust she does. And I, I trust her absolutely - to be absolutely human.
Það er kannski einmitt þetta skrýtna siðferði sem gerir þættina góða. Þrátt fyrir að Francis Urquhart sé fullkomlega siðlaus og valdagráðugur maður er hann svo heillandi persóna að áhorfandinn heldur fullkomlega með honum þrátt fyrir öll illvirkin. Þannig má í raun segja að þættirnir spilli áhorfandanum, því samviska mín hringdi engum bjöllum, ég vonaði einfaldlega að ekki kæmist upp um Francis.
Þættirnir eru einungis fjórir talsins og spanna rétt rúmar 200 mínútur í heildina. Það er því ekki mikið á sig lagt að horfa á seríuna við gott tækifæri og njóta bresks sjónvarpsefnis eins og það gerist best. Því það eru þættir eins og House of Cards sem gera BBC heimsfræga fyrir fyrsta flokks sjónvarpsefni.
Wednesday, February 6, 2008
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
6 comments:
Naunaunau, bara verið að taka sér heavy-hittarana til fyrirmyndar. Velkominn í hópinn.
Það stefnir allt í þriðja ofur-bloggið...
Snilldarþættir. Mæli líka með næstu tveimur seríum.
Djöfull er fyrsti þáttur góður. West Wing hvað segi ég nú bara!
8 stig.
Maður kann að velja þetta....
Post a Comment