Monday, March 31, 2008

Funny Games (1997)

(Ath. Plakatið er af endurgerð myndarinnar sem var frumsýnd í fyrra, en ekki af þeirri útgáfu sem ég sá. Þetta plakat er einfaldlega miklu flottara.)

Fjórða myndin sem ég kíkti á um helgina var Funny Games. Ég hefði haft lítinn áhuga á að sjá þessa ef hún væri ekki skyldumynd. Eftir að sjá myndina velti ég því fyrir mér hvort hún sé ekki í raun diss leikstjórans á kvikmyndagerð eða eitthvað álíka djúpt. Það er nefnilega alveg potential í þessari mynd en það virðist vera eyðilagt viljandi. Yfirleitt hafa virkilega virkilega lélegar myndir sér ekkert til málsbóta en Funny Games inniheldur mörg áhugaverð atriði. Málið virðist einfaldlega vera að leikstjórinn gengur alltaf of langt. Það sem virkar vel er síðan rifið niður með því að ýkja það eða, ef minnst er á alla myndina, spóla það til baka.

Gott dæmi um þetta er ótrúlega langa skotið. Það er skot sem hefur raunverulega möguleika á að virka mjög vel. Seinni hluti þessa sama skots er hins vegar kominn langt yfir öll skynsemistímamörk og er þá búinn að eyðileggja fyrri hlutann í leiðinni. Í bókmenntunum kallast þetta rómantískt háð. Höfundurinn byggir upp einhverja mynd og rífur hana síðan niður aftur, að vissu leyti til að hæðast að áhorfandanum.

Ef ég hefði ekki getað spólað hefði þessi mynd verið skelfileg. En með því að horfa á hana í ljósi viðbragða annarra fannst mér hún satt að segja ekki alslæm. Þegar ég byrjaði að skrifa pistilinn var planið reyndar að rakka hana niður, en ég fyrirgaf henni á miðri leið.