Tuesday, March 4, 2008

Suspiria (1977)

Skyldumynd vikunnar er ítalska hryllingsmyndin Suspiria. Leikstjóri og handritshöfundur myndarinnar er Dario Argento, en það er ítalskur leikstjóri sem virðist skrifa flestar af þeim myndum sem hann gerir. Myndin er frá árinu 1977 og er af mörgum talin meistarastykki Argentos.

Myndin fjallar um bandaríska balletdansarann Susy Banyon, sem leikin er af Jessicu Harper. Susy fer til Þýskalands til að sækja nám við mjög fínan ballettskóla. Fljótlega kemst hún að því að ekki er allt með felldu í skólanum. Skólastýran, Madame Blanc (leikin af Joan Bennett) og aðstoðarkona hennar, hin ofurstranga frú Tanner (leikin af Alida Valli), vekja upp grunsemdir Susy, og þegar Sara (leikin af Stefania Casini), vinkona hennar, hverfur (áhorfendur fá reyndar að sjá reyndar að Sara er myrt hrottalega), fer Susy að rannsaka málið sjálf. (spoiler) Niðurstaðan er að dans-akademían er rekin af nornum sem nærast á óförum og dauða þeirra sem umkringja þær, þar á meðal nemendunum. Susy, af einskærri forvitni, finnur leyniherbergi nornanna, og drepur þar eldgömlu aðalnornina, sem stofnaði skólann. Hún hleypur síðan út og skólinn brennur til ösku.


Mjög áhugavert við þessa mynd er að leikstjórinn hugsaði stúlkurnar í skólanum upphaflega sem tólf ára gamlar, eða jafnvel yngri. Framleiðandinn (pabbi hans) og kvikmyndaverið tóku þetta hins vegar ekki í mál af ótta við að myndin yrði bönnuð, enda fara gróf morð og ofbeldi í bland við litlar smástelpur örugglega ekki vel ofan í kvikmyndaeftirlitin. Argento hækkaði því aldur stúlknanna í 20 ár, en breytti handritinu ekki á neinn hátt annars. Þegar ég las þetta small myndin enn betur saman fyrir mér, enda voru stúlkurnar mjög barnalegar á köflum og samræðurnar ofureinfaldar.


Strax við fyrsta morðið (og reyndar annað morðið um leið) sá ég að þessi mynd var ekkert drasl. Senan í kringum það morð var ótrúlega góð. Morðið var ótrúlega spennandi og ógnvekjandi og ég sé það ljóslifandi fyrir mér ennþá núna þegar ég rifja það upp. Þessi morðsena fer tvímælalaust í bækurnar hjá mér sem ein sú minnisverðasta í langan tíma.

Það sem ég var sérstaklega ánægður með í Suspiria var tónlistin. Hún er er vægast sagt algert meistaraverk og stefin eru notuð sitt á hvað í gegnum myndina til að byggja upp ákveðna stemningu á einstaklega áhrifaríkan hátt. Ég kemst eiginlega ekki ennþá yfir það hvað tónlistin gerði mikið fyrir myndina, sem útskýrir þau sterku lýsingarorð sem ég nota. Ég man úr byrjuninni að semjendur tónlistarinnar hétu "Goblin," þannig að ég var ekki lengi að fletta þeim upp. Í ljós kom að Goblin hefur samið tónlist fyrir ítalskar myndir í 25 ár, auk Dawn of the Dead frá 1978. Þessir menn kunna greinilega sitt fag svo eftir er tekið.

Annað, ekki síðra, fannst mér vera kvikmyndatakan. Myndavélinni er óspart stillt upp með það að leiðarljósi að vekja upp ákveðna tilfinningu hjá áhorfandanum og ég hef held ég aldrei áður séð mynd sem hefur svona augljóslega úthugsaða kvikmyndatöku. Hvert einasta skot hefur tilgang og þjónar senunni og með tónlistinni byggist upp alveg ótrúleg spenna og hryllingur. Ég lifði mig fullkomlega inn í Suspiria útaf þessu og minnist sérstaklega senunnar þar sem hundur blinda mannsins rífur hálsinn á honum í sig og drepur hann á miðju risastóru torgi. Hvernig myndavélinni er stillt upp, úr öllum áttum og mislangt í burtu, snöggar klippingar að stóru byggingunum - þetta gerði senuna rosalega spennandi þótt hún innihéldi ekkert nema blindan mann að snúast í hringi, auk nokkurra fugla.


Síðasta frábæra einkenni myndarinnar eru litirnir, en ég hafði ekki áttað mig almennilega á því fyrr en ég las dóma um myndina við undirbúning fyrir þessa bloggfærslu. Argento beitti Technicolor tækninni svokölluðu með aðferð frá sjötta áratugnum til að ýkja litina og er fyrirmyndin hans fyrir litunum sögð vera Lísa í Undralandi. Líkingin er augljós þegar hugsað er út í það - öll herbergin, gangarnir og í raun völundarhúsið sem ballettskólinn er - allt þetta lítur út eins og Undaland, eins konar gotnesk útgáfa, þar sem allt er mun dimmara og drungalegra. Þegar ég las um þetta rann að nokkru leyti upp fyrir mér hvers vegna myndin hitti mig svona beint í mark. Ég man skýrt eftir teiknimyndinni um Lísu í Undralandi og Suspiria tókst að tengja sig við þær sterku tilfinningar sem ég upplifði í kringum þá mynd fyrir löngu, löngu síðan.


Þetta dregur mann að mjög áhugaverðri pælinu í kvikmyndagerð - pælingu sem ég hef aldrei komist til botns í sjálfur. Það er samspil meðvitundar og undirmeðvitundar í bíómyndum. Allir hafa heyrt um leynileg tákn og merkingar alls konar hluta í bíómyndum. Oft á tíðum hef ég velt því fyrir mér til hvers handritshöfundar og leikstjórar eyði ómældum tímum í að troða trúarlegum táknum, vísunum í biblíuna eða fræga sögulega viðburði, fyrst enginn tekur eftir þeim. Suspiria opnaði alveg augu mín fyrir þessum hlutum. Þótt ég hafi ekki áttað mig á tengingunni við Lísu í Undralandi er ég handviss um að hún hafi verið með því besta við myndina. Og það þrátt fyrir að ég hafi ekki einu sinni vitað af því!

Að lokum langar mig að minnast á eina eftirminnilegustu senuna. Það er senan þegar hundur píanóleikarans rífur hann á hol. Það sem gerir þessa senu svo frábæra (auk tónlistarinnar og kvikmyndatökunnar, eins og ég fór í gegnum) er það hversu rosalega mikið hún kom á óvart. Blindi maðurinn heyrir hljóð allt í kringum sig, myndavélin horfir á hann úr fylgsnum allt í kring, fuglarnir fælast í burtu eins og einhver sé í byggingunum - ég beið einfaldlega eftir því að sjá norn koma og drepa píanóleikarann. En hvað gerist? HUNDURINN! Hundurinn rífur úr honum barkann og étur innviðina úr hálsinum á honum! Sami hundur og píanóleikarinn var nýbúinn að segja að myndi ekki gera flugu mein. Sú sena sjokkeraði mig rosalega og ég sé hana enn ljóslifandi fyrir mér.

Ég hef aldrei verið mikið fyrir hryllingsmyndir. Mér finnst ekki gaman að horfa á myndir sem virðast hafa þann eina tilgang að hræða og vekja upp viðbjóð hjá áhorfandanum. Suspiria fær mig til að gefa þessum flokki mynda algerlega nýtt tækifæri. Á köflum fannst mér óþægilegt að sitja undir henni, þótt það væri síðdegis á mánudegi í Gamla skóla, en það jók einfaldlega upplifun mína af myndinni og gerði hana enn raunverulegri og eftirminnilegri.

Það er því án nokkurs vafa að ég segi að Suspiria sé eitt besta mánudagsbíó sem ég hafi séð í vetur.


Myndband

Mjög góð klippa sem ég mæli með fyrir þá sem ekki hafa séð myndina. Sem dæmi má sjá senuna þar sem hundur píanóleikarans rífur hann á hol nálægt byrjuninni.

Ítarefni
Skjáskot úr myndinni (á rússnesku)
Suspiria á imdb
Suspiria á Wikipedia
Dario Argento á Wikipedia
Aðdáendasíða tileinkuð Dario - meistara litanna

2 comments:

Siggi Palli said...

Stórglæsileg færsla. Virkilega vel útpæld og skemmtileg.

7 stig.

Siggi Palli said...

Endurskoðuð stigagjöf. 9 stig.