Wednesday, April 16, 2008

Kvikmyndagerð 2007-2008

Þessi færsla markar fimmtugustu og aðra færsluna mína – og að öllum líkindum þá síðustu – í vetur. Stóra planið átti reyndar að vera lokafærslan, en Siggi Palli pantaði eina í viðbót sem væri ætlað að líta yfir áfangann í vetur. Ég ákvað því að fara skipulega yfir alla þætti námskeiðsins í vetur, lið fyrir lið, og fara yfir hvað mér fannst gott og hvað mér fannst slæmt. Og hér kemur það:

Bloggið

Það allra allra besta við kvikmyndafræðina í vetur finnst mér vera bloggið. Ekki bara það, heldur langar mig líka að tilnefna þetta blogg sem skemmtilegustu heimavinnu sem ég hef fengið á allri minni skólagöngu. Þetta er ekki lítil heimavinna, (ef ég áætla að hver færsla eftir mig hafi verið tæp 400 orð þá hef ég skrifað um 20.000 orð í vetur!) en hún hefur veitt mér svo mikla þjálfun í að skrifa að sú reynsla er alveg ómetanleg.

Þessi þáttur námskeiðsins er í raun nær íslenskri ritun þegar ég pæli í því. Síðastliðið haust, þegar námskeiðið var að byrja, átti ég erfitt með að komast í gang með bloggið og hver færsla tók langan, langan tíma – þótt stutt væri. Nú þegar námskeiðið er búið er ritunarfærnin ekki sambærileg. Ég get framleitt bloggfærslur um allar kvikmyndir og örugglega flest allt sem ég hef skoðun á eins og ekkert sé.

Önnur vídd í blogghlutanum eru athugasemdir og lestrar frá öðrum. Ófáum sinnum hef ég lent á spjalli við kvikmyndafræði-kollega mína um atriði tengd bloggunum. Við lesum hverjir hjá öðrum, skrifum athugasemdir og það er einn stærsti hvatinn í að halda uppi fyrsta flokks bloggi. Hvatinn minn í vetur var til dæmis ekki að ná lágmarkinu, heldur að vera með eitt besta bloggið af öllum. Það kallar maður alvöru markmið og þessari upplifun og þessum metnaði hef ég ekki kynnst við skil á heimaverkefnum áður.

Siggi Palli spyr hvað betur mætti fara. Hvað bloggið varðar þá er formið á því orðið mjög þróað, sérstaklega eftir að stigakerfi Jóns Ben var tekið í notkun. Það eina sem ég myndi helst vilja sjá er að fá fyrirmæli um sérhæfðari greinar. Skemmtilegt hefði verið að fá t.d. fimm atriði sem hefði þurft að blogga um – t.d. myndatöku, hljóðvinnslu, klippingu, handritavinnu og leikstjórn. Það hefði neytt mann til að googla og kynna sér tæknilegar hliðar kvikmyndagerðarinnar, sem hefði þjónað markmiðum námskeiðsins enn betur.

Lítil hugmynd fyrir blogghlutann er að setja inn athugasemdahvatningu í einkunnagjöfina. Þetta er hugmynd sem ég hef komið með áður en finnst tilvalið að setja hana hérna fyrst beðið er um tillögur fyrir næsta vetur. Þá myndi einhver hluti námseinkunnar taka til athugasemda og að til dæmis þyrfti um 30 stuttar athugasemdir með einhverri pælingu til að fá fulla einkunn í þeim hluta.

En þegar ég útskrifast úr Menntaskólanum í vor mun ég minnast kvikmyndafræðibloggsins sem eins þess besta úr náminu við skólann. Þar fyrst fór virkilega heimanám og skemmtun saman. Þessi ævilanga og endalausa barátta um að berja saman annars vegar félagslífið og hins vegar námið var leikur einn í kvikmyndafræðinni – þetta var einfaldlega ótrúlega gaman. Svo skemmir ekki fyrir að heyra að fólk í kringum mann hafi lent á blogginu fyrir tilviljun eftir leit á google!

Stuttmyndir

Jafn stór hluti og ekki minna umdeildur nú en fyrirkomulag bloggsins á sínum tíma. Stuttmyndahlutinn hentaði mér ekki jafn vel og bloggið vegna þess að sú heimavinna þurfti að fara fram í lotum. Reyndar má færa rök fyrir því að það sé jafnvel gott – það er jú nær raunverulegri kvikmyndagerð – en að þurfa að taka frá heilu dagana fyrir heilan hóp til að taka stuttmynd er mjög erfitt. Ég fann minna fyrir því á haustmisserinu, en á vormisserinu var helvíti slæmt að lenda í stuttmyndagerð svona skömmu fyrir próf.

Engu að síður var stuttmyndagerðin virkilega skemmtileg. Líkt og á blogginu fékk sköpunargleðin alveg lausan tauminn þar, en munurinn er að í stuttmyndinni er hún ekki bundin við orð. Fyrri stuttmyndin, sú þar sem ekkert var klippt, fannst mér jafnvel skemmtilegri heldur en sú seinni. Þessi skemmtilegi rammi – að banna klippingu og láta allt vera gert í vélinni – sparar gríðarlega mikinn tíma og samt er hægt að gera góða stuttmynd. Það gefur líka virkilega góðan samanburð við síðan klippistuttmyndina.

Í seinni stuttmyndinni fannst mér hins vegar of mikil áhersla vera lögð á handrit. Gríðarlegt púður fór í handritagerðina í hópnum okkar og í raun fór hún alveg úr böndunum. Þegar að tökum var komið kom í ljós að hreinn ógerningur hefði verið að taka upp handritið og því þurftum við í raun að skipta því algerlega út. Mér finnst professional handrit í professional forriti ekki vera hluti af því sem ég vil taka út af námskeiðinu – þar finnst mér námskeiðið reyna að vera eitthvað sem það er ekki. Handrit í Celtx eru einfaldlega ætluð fyrir kvikmyndagerðarfólk sem hefur einhverja reynslu af t.d. stuttmyndagerð, en ekki fyrir nemendur sem eru að kynna sér fagið.

Í heildina eru stuttmyndirnar bráðnauðsynlegur og skemmtilegur hluti af námskeiðinu en ættu samt ekki að reyna að vera meira en þær eru. Handritakröfur ætti algerlega að slíta frá stuttmyndunum til að sköpunargleðin og skemmtunin fái sín notið í öllu ferlinu en sé ekki læst niður í orð frá upphafi. Handritahlutinn ætti einfaldlega að vera sér verkefni (ef hann ætti á annað borð að vera í þessu námskeiði) og hann ætti ekki að tengjast stuttmyndunum neitt. Einnig mætti gerð seinni stuttmyndarinnar fara fram mun fyrr á vormisseri, til að áhugi og metnaður sé enn til staðar.

Leikstjóraheimsóknir

Ég er hugsanlega enn undir áhrifum frá Ólafi Jóhannessyni þegar ég skrifa þetta, en þessi hluti var einnig algerlega framúrskarandi. Allir sem komu í heimsókn veittu okkur mjög mikla og góða sýn inn í heim kvikmyndagerðarinnar og sumir (lesist: Ólafur) jafnvel innblástur. Það voru reyndar mikil vonbrigði að fá ekki Baltasar Kormák, þekktasta nafnið, en maður fær víst ekki allt sem maður vill.

Mér finnst að markmið kvikmyndagerðar-námskeiðsins sé að skila nemendunum út með stjörnur í augunum yfir heimi kvikmyndanna og kvikmyndagerðarmanna, jafnvel í von um það að einhverjir láti til leiðast og reyni fyrir sér í þessum heimi eftir menntaskólann. Besta leiðin til þess eru án efa leikstjóraheimsóknirnar.

Fyrirlestrar

Hefðbundið skólaverkefni og ágætt sem slíkt – gaman að brjóta upp kvikmyndafræðitímana með fyrirlestrum. Þó er hægt að vera heppinn og óheppinn hér. Myndir Emir Kusturica voru til dæmis langtum skemmtilegri heldur en Nosferatu meistara F. Murnau. Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé hægt að velja meira spennandi efni fyrir haustmisseris-fyrirlestrana heldur en gamla og misskemmtilega leikstjóra. Taka til dæmis fyrir kvikmyndastefnur á haustmisseri og síðan nútímaleikstjóra á vormisseri. Ég hef hins vegar alltaf verið minnsti talsmaður fortíðardýrkunar í kvikmyndafræðinni þannig að kannski sýnist sitt hverjum.

Skyldumyndir

Fyrsta umkvörtunarefnið hér myndi vera tímasetningin. Skyldumyndirnar hefðu betur mátt vera inni í venjulegri stundatöflu og væri vit að hafa tvo þrefalda tíma í staðinn fyrir þrjá tvöfalda á næsta skólaári. Mánudagar kl 16:10 gulltryggja einfaldlega að helmingur áhorfenda sé við það að líða útaf af þreytu (ég man til dæmis eftir Taste of Tea í móðu vegna þess að ég var svo gríðarlega gríðarlega þreyttur þegar við horfðum á hana). Tíminn hentaði fólki auk þess misvel.

Annað umkvörtunarefnið hér myndi síðan vera myndavalið. 8½ og Rules of the Game fóru langt með að drepa í mér alla von um almennilegt skyldubíó fyrir restina af vetrinum. Sem betur fer rættist úr því en þessar tvær myndir, ásamt nokkrum fleirum (sjá eldri bloggfærslur mínar), mættu fara beint í ruslakistuna.

Síðan spyr ég mig hvort skyldubíóið hefði ekki átt að einblína miklu meira á þá kvikmyndagerð sem er í gangi í dag? Rómantíska raunsæisstefnan frá þriðja áratug tuttugustu aldar í Frakklandi hefur litla sem enga þýðingu fyrir 20 ára nemendur í kvikmyndafræði-valáfanga árið 2008. Miklu skemmtilegra væri ef myndum sem þeim væri hent út og í staðinn sýndar t.d. stuttmyndasyrpur eða eitthvað álíka.

Önnur hugmynd að “skyldumynd” gæti verið auglýsingasyrpa. Ég man eftir að hafa séð safnspólur og síðar safndiska sem hétu Shots og innihéldu bestu auglýsingar heims á hverjum tíma. Ferskum hugmyndum, framúrstefnulegum pælingum og fyrst og fremst flottri kvikmyndagerð var beinlínis hellt yfir mann. Þessi tegund kvikmyndagerðar – auglýsingagerðin – er í rauninni ekkert annað en ör-stuttmyndagerð. Hún er meira að segja þannig að auglýsingar eru svo dýrar að ekki ein sekúnta má fara til spillis. Auglýsingar neyða því höfundinn til að ná hámarksnýtingu á forminu á sem allra stystum tíma – eitthvað sem er mjög spennandi að pæla í.

Loks fannst mér mjög skemmtilegt að vera skyldaður til að sjá allar íslenskar kvikmyndir sem komu út á tímanum. Ég hefði annars örugglega ekki séð helminginn af þeim og sérstaklega ef leikstjórinn kemur á eftir þá eru þessar sýningar gulls í gildi.

RIFF

Enn ein rósin í hnappagat þessa valfags. Ég stórefa að ég hefði farið á RIFF ef ekki hefði verið fyrir kvikmyndafræðina. Því miður lenti ég mjög illa í tímaskorti á meðan á hátíðinni stóð en þær tvær myndir sem ég fór á (Helvetica og My Kid Could Paint That) voru virkilega skemmtilegar og miklar andstæður við það sem ég sé ALLTAF í bíó. Kvikmyndagerðin opnaði allavega augu mín fyrir þessari hátíð og það er algerlega bókað mál að ég kaupi mér kort á næstu hátíð.

Talandi um hátíðir þá mætti kvikmyndagerðin hugsanlega gera eitthvað í tengslum við Óskarsverðlaunin, til dæmis skylda nemendur til að blogga eitthvað um þau og þá sem flesta flokka til að innsýn fáist inn í þau störf sem eru unnin til að framleiða stærstu kvikmyndir heims. Bara lítil hugmynd.

Lokapróf

Þetta er sá hluti námskeiðsins sem ég á eftir að upplifa, en ég verð að segja að mér finnst algerlega út í hött að allt sem ég sé búinn að skrifa um hér að ofan gildi samtals jafn mikið og þetta lokapróf. Það finnst mér vera algerlega úr takti við allt sem hefur verið í gangi í vetur því þetta fag öskrar beinlínis á að vera ekki próffag. Af hverju eigum við núna allt í einu að fara að læra utan að einhverjar staðreyndir sem einhverjir menn settu í einhverjar bækur fyrir kannski allt annan markhóp en okkur? Hvað gagn höfum við af því og hverju bætir það við námskeiðið? Og segjum að illa gangi – á þá að gefa nemanda sem hefur stundað alla hluta námskeiðsins af kappi í vetur lága stúdentsprófseinkunn vegna þess að hann kann ekki einhverjar skilgreiningar eða staðreyndir utan að?

Mér finnst þetta vera dökki punkturinn á námskeiðinu og grafa undan öllu öðru með því að skera það allt niður í 50% af því sem það raunverulega er bara til að geta fylgt einhverjum fyrirmælum að ofan. Þetta sýnir okkur einfaldlega að í MR kemst maður ekki upp með fag sem er bara skemmtilegt. Ónei, það þarf líka að smella á okkur enn einu risaprófinu svo við gerum okkur engar grillur. Þetta er reality checkið – ef einhver trúði því að kvikmyndafræðin væri of góð til að vera sönn, þá er prófinu ætlað að hrekja alla slíka vitleysu.

Það verður áhugavert að sjá hvað nemendur námskeiðsins fá í þessu prófi. Það er í hæsta máta ósanngjarn ef virkir og duglegir nemendur geti lent í því að allt sem búið er að byggja upp – 50-60 bloggfærslur, tvær stuttmyndir, eitt handrit, tveir fyrirlestrar, um 30 skyldumyndir og þrír tímar í viku – sé rifið niður í einu prófi.

---

Ég held að nú hafi ég gert ítarlega grein fyrir því hvað mér fannst um námskeiðið og hvernig mér finnst að það ætti að vera á næsta ári. Ég vona að ég hafi engu gleymt. Nú, ef ég hef einhverju gleymt, þá bæti ég því einfaldlega við! (bloggið er svo frábært að ég kemst ekki hjá því að hrósa því aftur) Ég vil að lokum nota tækifærið og þakka Sigga Palla fyrir frábært námskeið. Ég heyrði misjafnar sögur af kvikmyndafræðinni frá árinu áður, en þær breytingar sem Siggi Palli gerði á námskeiðinu eru greinilega nákvæmlega þær sem þurfti. Ég var tæpur á að velja kvikmyndafræðina á sínum tíma - ég var næstum því búinn að festa mig í bókfærslu sex sinnum í viku. Ég veit það að minnsta kosti fyrir víst núna að valið mitt á kvikmyndafræði er eitthvað sem ég mun aldrei sjá eftir.

Siggi Palli, takk fyrir mig!

Björn Brynjúlfur Björnsson, 6.Z

Sunday, April 13, 2008

Stóra planið (2008)

Ég fór með kvikmyndafræðinni á Stóra planið eftir Ólaf Jóhannesson. Áður en ég fjalla efnislega um myndina langar mig að minnast á verðið á myndinni í miðasölunni. Ég bjó mig undir að borga 1000-1200 kall fyrir miðann, sem er óheyrilega há upphæð, en miðaverðið á Stóra planið er heilar 1300 kr! Eftir að hafa síðan keypt mér miðstærð af poppi og kóki á 550 kr. var heildarkostnaðurinn við þetta sunnudagsbíó kominn í 1.850 kr. Þessi verð eru komin algerlega úr samhengi við það sem eðlilegt er og ég er handviss um að fjölmargir mæta ekki í kvikmyndahúsin einungis vegna þessa. Það er ekki hægt að byggja upp almennilega bíómenningu fyrir íslenskum myndum ef það kostar helmingi meira á þær en aðrar myndir.

En þá að myndinni sjálfri.


Yfirskrift myndarinnar er “næstum því gangstermynd” og er sú setning mjög lýsandi fyrir myndina. Myndin hefst á því að aðalpersónan, Davíð, er úti að leika sér með bróður sínum í æsku þegar bíll keyrir á bróðurinn, sem deyr, beint fyrir framan Davíð. Restin af myndinni er síðan um tuttugu árum seinna og öll myndin er skoðuð í ljósi þessa atviks.

Þótt það kunni að hljóma undarlega var ég mjög ánægður þegar bróðir Davíðs varð fyrir bílnum, því mér fannst strákurinn sem lék hann ekki passa inn í myndina. Hann er þekktastur fyrir innskot sín í laugardagslögunum (skv. Bóbó) og ég held að ég hafi kannast við hann þaðan. Það truflaði mig og því var gott að afgreiða hann sem fyrst úr myndinni.

En við fáum semsagt að kynnast Davíð um tuttugu árum seinna og ljóst er að uppeldi móðurinnar, sem komin er á geðlyf, hefur ekki lukkast sérstaklega vel. Frá þessum punkti í myndinni gerast í raun engir mjög afdrifaríkir atburðir.

Stóra planið er því fyrst og fremst mynd sem snýst um persónur, en ekki atburði. Ég hefði hugsanlega viljað vita það fyrirfram því fram yfir miðja mynd var ég alltaf að bíða eftir því að eitthvað afdrifaríkt gerðist og sögunni fleytti áfram – “stóra planinu” eða einhverju álíka. Að ekkert í þá átt hafi í raun gerst þyrfti ekki að vera slæmt, en ég hafði búist við bíómynd með meiri atburðarás.

Söguþráðurinn sem slíkur er ekkert sérstaklega sterkur og það sem heldur myndinni saman er fyrst og fremst frábær leikur, mjög góður húmor og margar bráðskemmtilegar senur.

Mér finnst erfitt að draga einhvern sérstaklega út sem hafi staðið sig betur en aðrir, leikarahópurinn var einfaldlega mjög þéttur og varla veikur hlekkur á honum. Aðalpersónurnar, sem Pétur Jóhann, Eggert Þorleifs og Ingvar E. léku voru allar djúpar og skemmtilegar, og aukapersónur eins og Mustang (leikinn af Zlatko Krickic nokkrum) og Snati (eða Schnati, eins og Wolfi kallaði hann alltaf) – bættu miklu við myndina.

Ég kann mjög vel að meta þessa nýju kynslóð af húmor sem virðist vera komin mjög sterkt fram. Næturvaktin er eiginlega guðfaðir þessa húmors og margt í Stóra planinu er mjög augljóslega undir áhrifum næturvaktarinnar, hvort sem það er meðvitað eða ekki. Aðalpersónurnar eru vægast sagt ófullkomnar og húmorinn er grátbroslegur á meðan fylgst er með viðleitni þeirra til að hljóta velgengni á einhvern hátt. Samt er alltaf vitað frá upphafi að baráttan er vonlaus – á endanum gengur ekkert upp og sjálfsblekkingin nær í skottið á viðkomandi.


Ég velti því fyrir mér hvort kvikmyndaformið henti þessari mynd vel. Árni Þór sagðist hafa heyrt frá einhverjum að myndin hefði örugglega virkað mun betur sem stuttmynd, en þá vinnst ekki nægur tími til að fá dýptina í persónurnar. Þegar hugsað er út í það er Davíð Péturs Jóhannes mjög svipaður Ólafi úr Næturvaktinni. Ég velti því þess vegna fyrir mér hvort Stóra planið hefði ekki verið skemmtilegri sem nokkrir þættir frekar en kvikmynd. Fyrir það fyrsta væri 1.300 króna sparnaðurinn sem af hlytist óneitanlega stór plús fyrir upplifunina og einnig myndi maður held ég ekki endilega vera sífellt að bíða eftir atburðum sem síðan aldrei koma. Mér finnst Stóra planið ekki alveg rísa undir kvikmyndaforminu, hún er að minnsta kosti ekki nógu epísk til að réttlæta þessi útgjöld.

Viðbót:

Ólafur mætti í tíma og spjallaði við okkur sl. miðvikudag. Ég er sammála Marra um það að Stóra planið batnaði mjög mikið í minningunni við það að ræða allar pælingarnar á bakvið og í kringum myndina. Þegar maður veit betur hvað leikstjórinn er að hugsa með myndinni og hvernig senurnar tengjast söguþræðinum (eða tengjast honum alls ekki) þá sér maður miklu betur það sem leikstjórinn reynir að sýna í myndinni. Þetta opnar alveg augu mín fyrir kvikmyndasýningum sem eru með spurningar og svör með t.d. leikstjóra eftirá, sem tíðkast mikið á kvikmyndahátíðum. Ég held að það bæti mjög upplifunina að fá að heyra eftirá hvað þeir sem gerðu myndina voru að reyna að koma til skila.

RIFF 2008, ég bíð spenntur!

Wednesday, April 2, 2008

C'est arrivé près de chez vous (1992)

Þessi mynd er þýdd sem Man Bites Dog á ensku. Henni er leikstýrt af hvorki meira né minna en þremur leikstjórum, þeim Rémy Belvaux, André Bonzel og Benoît Poelvoorde. Myndin er eins konar feik-heimildamynd, þar sem tökulið fylgist með fjöldamorðingjanum Ben að störfum.

Þegar ég sagði að þeir sem hefðu áhuga á óvenjulegri mynd ættu að sjá Being John Malkovich, þá ættu þeir sömu líka að kíkja á Man Bites Dog (þ.e.a.s. ef morð og ofbeldi fara ekki illa í viðkomandi). Man Bites Dog minnti mig á Clockwork Orange. Myndirnar hafa sitthvað sameiginlegt, fylgst er með mönnum með vægast sagt óhefðbundið siðferði, gjörðum þeirra og þróun. Báðar myndirnar reyna líka að vera einkennandi fyrir sitt tímabil, áttundi áratugurinn er allsráðandi í Clockwork Orange og sést það vel í t.d. arkitektúr og klæðaburði. Man Bites Dog sýnir á móti tíunda áratuginn og firringuna sem fylgir honum (að mati höfunda myndarinnar).

Þessi mynd er klárlega fyrsta flokks á mjög margan hátt. Leikurinn er frábær og myndin sem er máluð upp af Ben er mjög áhrifamikil og sannfærandi. Allt ógeðið truflaði mig hins vegar frekar mikið - kannski er ég ekki nógu vanur svona grófum hlutum, og kannski ætti ég ekki að vera það?

Monday, March 31, 2008

Hearts of Darkness: A Filmmaker's Apocalypse (1991)

Heimildarmynd sem sýnir áhorfandanum gríðarleg vandamál sem Francis Ford Coppola lenti í við gerð Apocalypse Now. Handrit, tökur, peningar og leikarar - allt virtist ætla að fara til andskotans á tímabili og eyðileggja mynd og jafnvel feril herra Coppola. Myndin er skv. mörgum besta "á-bakvið-tjöldin" heimildarmynd allra tíma.

"My film is not a movie. My film is not about Vietnam. It is Vietnam. It's what it was really like. It was crazy. And the way we made it was very much like the way the Americans were in Vietnam. We were in the jungle. There were too many of us. We had access to too much money… too much equipment. And, little by little, we went insane."


Þessi tilvitnun lýsir vel öllu því sem heimildarmyndin nær svo vel að fanga. Tökur tóku tvöfalt lengri tíma en upphaflega var ætlað og Coppola þurfti að greiða út milljónir dollar af sínum eigin peningum til að tryggja að myndin yrði kláruð.

Ef heimildarmyndin gerir eitthvað þá er það að sýna snilldina á bakvið Apocalypse Now. Martin Sheen, sem var gerður að aðalleikara myndarinnar viku eftir að tökur hófust (!), drakk sig t.d. svo blindfullan fyrir senuna með honum einum á hótelherbergi að hann hótaði tökuliðinu barsmíðum hvenær sem er. Skömmu seinna fékk hann alvarlegt hjartaáfall og dó næstum því, sem tafði að sjálfsögðu tökur ekkert smá mikið. Marlon Brando, með milljón dollara á viku, mætti spikfeitur og óæfður í tökurnar og á að hafa hótað að hætta að leika í myndinni.


Coppola sjálfur talar meira að segja um sjálfsmorð, sannfærður um að myndin muni verða ömurleg. Þessi mynd er eiginlega algert sjokk - þótt ótrúlegt sé vildi maður næstum því hafa verið á staðnum. Þessar tökur hafa verið þær erfiðustu nokkurntíman fyrir alla sem að þeim komu, en aftur á móti eru þær svo gríðarlegt ævintýri að manni finnst hversdagsleikinn hérna heima ótrúlega lítilmótlegur í samanburði.

Spurning um að kíkja til Írak!

Happy End (1966)

Svarthvít mynd frá Tékkóslóvakíu frá árinu 1966, sýnd afturábak. Ég kiknaði ekki beinlíni í hnjánum við þessa lýsingu þegar ég smellti loksins disknum frá Sigga Palla í tölvuna og kveikti á. Ég hafði reyndar kíkt á hana á imdb fyrst og séð að hún væri bara 71 mínúta og bjóst því ekki við að hún yrði mjög erfið í áhorfi.

Happy End snýr öllum skilningi gjörsamlega á hvolf. Hún hefst á manni sem drepur konuna sína og endar á því að sá sami maður fæðist. Plottið verður samt algert aukaatriði í þessu umhverfi - minnir mig á Memento nema á miklu miklu ýktara leveli. Réttara væri í raun að segja að þessi mynd minni mig ekki á neitt - svo óvenjuleg er hún.

Hún virðist ekki hafa slegið í gegn eða að hróðri hennar hafi verið haldið á lofti allt fram á okkar daga. 62 atkvæði á imdb nægir varla til að dekka þann fjölda sem kom að gerð myndarinnar. Ég tók því einkunninni 8.3 með mjög miklum fyrirvara, því að ljóst er að svona mynd getur aldrei fengið sláandi góða einkunn - til þess er hún of óhefðbundin.


Ég minnist þess einfaldlega að hafa verið að lesa Reviews um Being John Malkovich og mörgum fannst hún allt allt of skrýtin til að hægt væri að gefa henni góða einkunn. Happy End myndi eiga við sömu vandamál að glíma - bara margfalt verri.

Það sem ég hafði hins vegar ekki hugmynd um er að þetta væri grínmynd. Og meira að segja nokkuð fyndin sem slík. Samtölin eru mjög fyndin - leikararnir hafa þurft að tala afturábak til að samtöl virki í spilun myndarinnar og það er mjög einkennilegt að horfa á það.

Dæmi um atriði í myndinni. Frábært að sjá hann "klæða sig"!



Ég á eiginlega erfitt með að dæma myndina svona stuttu eftir að hafa séð hana. En ef tilgangurinn var að rugla áhorfandann alveg í ríminu og láta hann hlæja í leiðinni - þá er markmiðinu náð.

Funny Games (1997)

(Ath. Plakatið er af endurgerð myndarinnar sem var frumsýnd í fyrra, en ekki af þeirri útgáfu sem ég sá. Þetta plakat er einfaldlega miklu flottara.)

Fjórða myndin sem ég kíkti á um helgina var Funny Games. Ég hefði haft lítinn áhuga á að sjá þessa ef hún væri ekki skyldumynd. Eftir að sjá myndina velti ég því fyrir mér hvort hún sé ekki í raun diss leikstjórans á kvikmyndagerð eða eitthvað álíka djúpt. Það er nefnilega alveg potential í þessari mynd en það virðist vera eyðilagt viljandi. Yfirleitt hafa virkilega virkilega lélegar myndir sér ekkert til málsbóta en Funny Games inniheldur mörg áhugaverð atriði. Málið virðist einfaldlega vera að leikstjórinn gengur alltaf of langt. Það sem virkar vel er síðan rifið niður með því að ýkja það eða, ef minnst er á alla myndina, spóla það til baka.

Gott dæmi um þetta er ótrúlega langa skotið. Það er skot sem hefur raunverulega möguleika á að virka mjög vel. Seinni hluti þessa sama skots er hins vegar kominn langt yfir öll skynsemistímamörk og er þá búinn að eyðileggja fyrri hlutann í leiðinni. Í bókmenntunum kallast þetta rómantískt háð. Höfundurinn byggir upp einhverja mynd og rífur hana síðan niður aftur, að vissu leyti til að hæðast að áhorfandanum.

Ef ég hefði ekki getað spólað hefði þessi mynd verið skelfileg. En með því að horfa á hana í ljósi viðbragða annarra fannst mér hún satt að segja ekki alslæm. Þegar ég byrjaði að skrifa pistilinn var planið reyndar að rakka hana niður, en ég fyrirgaf henni á miðri leið.

Oldboy (2003)

Sá þessa fyrir meira en ári síðan. Eins og mig minnir verður aðalpersónan, Ho Dae-su (leikin af Min-sik Choi), blindfullur og er rænt. Hann er síðan settur í eitthvað herbergi, þar sem hann æfir m.a. bardagalistir. Þegar honum er skyndilega sleppt, fimmtán árum seinna, ætlar hann síðan að leita hefnda. Uppgjörið verður vægast sagt mjög blóðugt.

Oldboy er fyrst og fremst ótrúlega kúl mynd. Hún minnir mig á aðra asíska mynd þar sem einhver að því er mig minnir japanskur milljónamæringur verður þreyttur á lífinu og fer að drepa fullt af fólki, þar á meðal foreldra sína. Löggan kemst síðan á slóðir hans. Ef þessi lýsing hringir einhverjum bjöllum þá væri ég mjög spenntur að fá að vita hvaða mynd þetta væri. En þetta var smá útúrdúr.


Asískar myndir hafa mjög mörg sameiginleg, og góð, einkenni. Þær eru mjög ýktar í kvikmyndatöku og leik, skipta t.d. mikið á milli víðra skota og super close-up skota, sem sýna t.d. bara hluta af andliti eða eitthvað í þeim dúr. Quentin Tarantino gerðist svo sniðugur að innleiða fullt af þessum hlutum í Hollywood með Kill bill tvennunni og hlaut hann endalaust lof fyrir. En Tarantino var ekki að finna neitt hjól upp - hann var einfaldlega að herma eftir hlutum sem hafa verið gerðir hinum megin á kúlunni miklu lengur.

Ég ætla að kíkja aftur á Oldboy við fyrsta tækifæri - hún hefur gríðarlega skemmtilegan stíl og heldur sig frá öllum vestrænum klisju-gildrum.