Thursday, November 22, 2007

Closer (2004)

Þetta er nýleg mynd sem ég sá í fyrradag. Hún kom út árið 2005 á Íslandi en ég hef ekki heyrt af þessari mynd fyrr en ég sá hana úti á vídjóleigu. Myndin skartar mjög “hipp” leikurum, þeim Natalie Portman, Jude Law, Juliu Roberts og Clive Owen. Leikstjóri myndarinnar heitir Mike Nichols. Myndin fjallar í sem stystu máli um ástar-ferhyrning þessara fjögurra persóna og þær tilfinningar og drama sem skapast í kringum það.

Það fyrsta sem kemur upp í hugann við þessa mynd er hversu óvenjuleg hún var. Ég hef ekki séð mynd svipaða þessari áður. Það eitt og sér finnst mér vera kostur. Það sem var óvenjulegt við myndina er framvindan, aðalpersónurnar fjórar, umfjöllunarefnið og stíllinn. Framvinda myndarinnar er óvenjuleg á þann hátt að fyrst eru nokkrar senur sýndar á ákveðnum tímapunkti og síðan er skyndilega spólað allt að ár fram í tímann, þar sem nokkrar senur í viðbót eiga sér stað, og svo framvegis. Þessi stíll hafði kosti og galla, en var fyrst og fremst ferskur.

Sögusviðið var einnig sterkur kostur við myndina. Myndin gerist í Lundúnum, aðallega í kokteilboðum, á götum úti, í fínni íbúð og í miðstéttaríbúð. Umhverfið í London er mjög flott og smellur mjög vel saman við stemninguna í myndinni og litatónana sem notaðir eru.

En að sögunni sjálfri. Persónurnar í myndinni höfðu allar mjög sterk persónueinkenni sem lituðu þau út myndina. Í samskiptum þeirra kynnist áhorfandinn persónunum betur og betur. Atburðarrásin þróast áfram og er sífellt að breytast, en undir lokin er eins og allar persónurnar séu komnar í blindgötu. Endirinn var því endasleppur, hann virtist að mörgu leyti stafa af því að karakterarnir voru fullnýttir og ekki var hægt að kreista meira út úr þeim.

Strax eftir áhorfið kunni ég ekki vel við þessa mynd. Hins vegar, eftir að hafa horft á Cruel Intentions nokkrum dögum síðar, áttaði ég mig á því hversu miklu dýpri Closer er miðað við fjölmargar aðrar myndir. Ég hef hugleitt persónurnar í Closer af og til eftir að ég sá myndina, og þannig eiga myndir að vera. Þær eiga að skilja eitthvað eftir.

No comments: