Þessa mynd sá ég í annað sinn í fyrradag. Myndin er drama-/spennumynd og byggir lauslega á sögunni af valdatíma einræðisherrans Idi Amin í Úganda. Nýútskrifaður skoskur læknir, Nikulás, fær tilvistarkreppu og ákveður að fara hvert annað á hnöttinn sem er. Úganda verður fyrir valinu og ævintýrin í kjölfarið eru ótrúleg.
Ég vissi ekkert um Idi Amin fyrir myndina, en eftir að hafa séð hana finnst mér það hafa breyst mikið. Karakter Amins, sem leikinn er af Forest Whitaker, er gæddur gríðarlegum persónutöfrum og sýnir á sér nýjar hliðar út alla myndina. Leikur Whitakers í þessari mynd er með þeim betri sem ég hef séð í kvikmynd – svo áhrifamikill var hann. Það kom því ekki á óvart að Whitaker hafi landað Óskarnum, BAFTA og Golden Globe fyrir besta leik í aðalhlutverki fyrir myndina.
En það sem gerir þessa mynd svo góða er ekki bara leikurinn og karakterarnir, heldur sagan sjálf. Sagan er mjög sannfærandi og innlifunin er fullkomin. Ég upplifði mig í sporum skoska læknisins, og góðar myndir snúast alltaf um að áhorfandinn finni sjálfan sig í myndinni og upplifi hana því á sterkan hátt.
Mér fannst gaman að horfa á myndina aftur, núna á dvd, samanborið við að hafa farið á hana í bíó í fyrsta sinn. Myndin var miklu áhrifaríkari og einfaldlega betri á hvíta tjaldinu heldur en á sjónvarpsskjánum, en ég hef aldrei fundið þennan mun mjög skýrt áður. Þessi reynsla kveikti hjá mér löngun til að fara í bíó aftur sem fyrst. Popp, kók og risastórt tjald – það kemur einfaldlega ekkert í staðinn fyrir það.
Wednesday, November 14, 2007
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment