Some Like It Hot er langfrægasta mynd leikstjórans Billy Wilder. Myndin skartar meðal annarra þeim Jack Lemmon og Marilyn Monroe. Myndin er grínmynd og góð sem slík. Myndin fjallar í stuttu máli um tvo tónlstarmenn og félaga sem, vegna ytri aðstæðna, þurfa að dulbúa sig sem konur og túra með kvennahljómsveit. Ofan á þetta bætist síðan tvennt: Annar mannanna (Jack Lemmon) verður ástfanginn af einni hljómsveitarstúlkunni (Marilyn Monroe) og hinn lendir í því að annar maður verður ástfanginn af “henni.”
Það er óhætt að segja að Billy Wilder viti hvað hann syngur þegar kemur að kvikmyndagerð. Framvindan, klippingar, tökustíll og heildarmynd sögunnar kemur allt vel út og húmorinn er alltaf í lagi. Myndin var enda tilnefnd til Óskarsverðlauna þetta ár fyrir leikstjórn, handrit, aðalkarlleikara (Lemmon) og listræna stjórnun. Auk þess fékk myndin óskarsverðlaun fyrir búninga. Einnig vann myndin Golden globe verðlaun sem besta grínmyndin það sama ár.
Ástæðan fyrir því að hún hefur ekki verið tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta mynd hlýtur að vera vegna þess að hún er grínmynd. Í seinni tíð hefur lofi verið ausið yfir hana. Hjá American Film Institue var myndin nýlega til dæmis valin besta grínmynd allra tíma, og í 14. sæti sem besta kvikmynd allra tíma. Persónulega fannst mér hún ekki ná þeim hæðum – en í þetta sinn skil ég fullkomlega dýrkunina á myndinni. Some Like it Hot er mynd sem á þessa athygli skilið.
Wednesday, November 14, 2007
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment