Á þriðjudagskvöld fór ég í Háskólabíó á myndina Elizabeth. Eins og nafnið bendir til fjallar myndin um Elísabetu Englandsdrottningu og er hún leikin af Cate Blanchet Leikstjóri myndarinnar er Shekhar Kapur.
Það besta við myndina var klárlega sögusviðið. Sögulegar myndir eða períódu-myndir búa yfir því leynivopni að geta sýnt áhorfendum heim sem þeir hafa ekki séð áður. Búningarnir í þessari mynd, propsið og umhverfið var stórglæsilegt og þetta er einna best útlítandi mynd sem ég hef séð lengi. Það eitt og sér tryggði að myndin myndi ekki valda vonbrigðum.
Elizabeth bar hins vegar fleiri einkenni Hollywood-myndar heldur en flott útlit, og það var í raun gallinn við hana. Myndin einblínir allt of mikið á sálarkreppu og sjálfsvorkunn drottningarinnar, sem er sÍfellt döpur yfir eigin ástarlífi, sem er ekki upp á marga fiska. Þetta sjónarhorn, sem á að sýna drottninguna frá persónulegu ljósi, veikir hana mjög sem leiðtoga í myndinni. Hún er alltaf hrædd, döpur og úr jafnvægi. Í stað þess að einbeita sér að því að stjórna ríkinu virðist hún einungis stunda skemmtana- og hirðlífið. Í myndinni er því Elísabet sýnd sem veikgeðja sjálfsupptekin kona sem sinnir þegnum sínum lítið sem ekkert. Þessi mynd af drottningunni er auðvitað kolröng, og ég efast um að handritshöfundurinn hafi ætlað sér að sýna drottninguna á þennan hátt.
Á sama tíma er “vondi kallinn”, Hinrik fyrsti Spánarkonungur, að höggva niður heilu skóganna og byggir upp risastóran flota til að leggja England undir sig. Með öðrum orðum beinir hann öllum sínum kröftum að Spáni á meðan Elísabet beinir allri sinni athygli að sér sjálfri. Aftasti hluti myndarinnar, þar sem stríðið við Spánverja fer fram, virkaði því afar einkennilega á mig. Elísabet, tilfinningahrúgan, er skyndilega komin í herbúning og heldur þrusuræðu yfir enska hernum. Sú sena, eins flott og hún er, er í algeru ósamræmi við þá mynd sem áhorfendur höfðu séð fram að stríðinu, og virkaði klisjukennd og ósannfærandi. Stríðinu lýkur á þann hátt að Englendingar kveikja í sex skipum og sigla þeim inn í spænska flotann, sem brennur allur. Þetta var því sannur Hollywood endir, allt springur í loft upp og engra spurninga er spurt.
Þessi ofur-ofur-einföldun á sögunni fór í taugarnar á mér. Endirinn virkaði illa á mig of virkaði ósanngjarn. Englendingum tekst að sigra öflugasta flota heims á einu Hollywood-eldskipa-trikki og sá leiðtogi sem stóð sig best, Spánarkonungur, tapaði þrátt fyrir alla erfiðisvinnuna – bara vegna þess að hann átti að vera vondi gæinn. Á sama tíma sigrar Elísabet þótt hún hafi ekkert gert til að verðskulda sigurinn.
Fyrst verið er að dæla svona miklum peningum í að kvikmynda sögu Elísabetar Englandsdrottningar hefði mátt gera það á mun raunverulegri hátt. Mannkynssagan er nógu áhugaverð út af fyrir sig. Það þarf ekki að ofureinfalda hana til að gera hana áhugaverða. Að því sögðu var myndin samt sem áður sannkölluð himnasending samanborið við La règle du jeu.
Thursday, November 8, 2007
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment