Thursday, November 22, 2007

Det sjunde inseglet (1957)

Síðasta mánudagsbíó skartaði myndinni Sjöunda innsiglið eftir Ingmar Bergman. Skemmst er frá því að segja að þessi mynd er virkilega skemmtileg. Hún er draugaleg, spennandi, áhugaverð en fyrst og fremst mjög fyndin. Karakterarnir eru skemmtilegir og plott myndarinnar, að aðalpersónan tefli við dauðann um líf sitt, er ótrúlega töff. Eins og þeir sem myndina sáu á mánudaginn snýst hún um líf fólks á ótilteknum tíma á miðöldum þegar svarti dauði herjar yfir Evrópu. Hræðsla, ofstækistrú, ofbeldi og hatur eru allsráðandi og dauðinn herjar á annan hvern mann.

Myndatakan í þessari mynd er einstök – Sjöunda innsiglið inniheldur ein flottustu skot sem ég hef séð. Svarthvítt, hár kontrast og hvíthærður riddari – þetta þrennt er gullin þrenna til að búa til flott myndefni. Landslagið er notað vel og Bergmann lagði augljóslega mjög mikið upp úr því að gera myndina sem drungalegasta. Nætursenurnar þar sem tunglskinið lýsir allt upp gefa mjög sterka tilfinningu, þrátt fyrir að vera bjartar.

Loks var músíkin í myndinni skemmtileg. Mig rámar enn í sum stefin í myndinni – þau voru eftirminnileg og hentuðu stemningunni rétt.

Í raun má segja að hafi smollið saman hjá Ingmar Bergmann í þessari ræmu. Það er ekki vafi á því að ég muni reyna að komast yfir fleiri myndir frá honum á næstu misserum.

1 comment:

Siggi Palli said...

Mæli sérstaklega með "Smultronstället" (Wild Strawberries), "Sommaren med Monika", og "Sommarnattens leende" af þeim sem ég hef séð. Bergman verður talsvert þyngri eftir 1960. Það er samt um að gera að kíkja á "Såsom i en spegel", "Persona" eða "Skammen" til þess að athuga hvernig manni líka. Mér er sagt að "Skammen" sé hans besta mynd, en ég hef ekki séð hana enn.