Ég tók mig loksins til í gærkvöldi og kíkti á The General eftir Buster Keaton. Dálítið seint fyrir skyldumynd, en betra er seint en aldrei. Ég ætla mér líka að sjá American Movie og átta og hálfan á næstu dögum.
Ég verð að segja að The General kom mér skemmtilega á óvart. Mín reynsla úr kvikmyndafræðinni er að myndir sem nálgast áttræðisaldurinn séu undantekningalítið skelfilegar. Nýjasta sönnunin á þessu hjá mér var Nosferatu, sem er þó “einungis” 78 ára. Ég hafði svo lítið gaman af þeirri mynd að mér kæmi ekki einu sinni til hugar að blogga um hana.
En aftur að myndinni. The General er nafnið á lest sem maður að nafni Johnny Gray (sem Buster Keaton leikur) sér um. Þegar borgarastríðið hefst í Bandaríkjunum er Hershöfðingjanum rænt af óvinunum, en í farþegavögnunum er ástin í lífi Johnny’s - Annabelle Lee. Johnny hefur því eltingaleik til að ná Hershöfðingjanum og unnustunni aftur.
Það sem kom mér á óvart við þessa mynd er hversu mikill meistari grínsins Buster Keaton er. Hann lætur ómerkilegustu hluti vera skemmtilega og hélt þannig athygli minni (nokkurn vegin) út myndina, þrátt fyrir að löng sé. Að sjálfsögðu hefði verið hægt að þétta grínið eitthvað – myndin gerir mjög mikið upp úr því að vera aðgengileg og auðskilin og það er stundum gert á kostnað hraðari klippinga – eitthvað sem maður sér ekki lengur í dag. Ofan á þetta er svo vel passað upp á að hver einasti áhorfandi fylgi sögunni að senurnar, sérstaklega í lestinni, endurtaka sig of mikið. Þar vantar líka meira grín – myndin virðist skipta dálítið úr því að reyna að vera grínmynd og í að reyna að vera spennumynd, þegar það hefði dugað henni mjög vel að halda sig við grínið.
En á heildina skemmti ég mér vel yfir þessari mynd og það kom mér á óvart að sjá svona gamla ræmu sem endist þetta vel.
Friday, November 23, 2007
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
mér fannst hún reyndar betri en þú gefur henni kredit fyrir, bæði mjög fyndin og líka vel gerð á allan hátt, þá sérstaklega lokabardaginn allur saman. Keaton er meistari.
Post a Comment