Tuesday, November 27, 2007

Two Weeks Notice (2002)

Sumar myndir eru svo dæmigerðar að það hefði nákvæmlega engu breytt ef þær hefðu ekki verið framleiddar. Two Weeks Notice er ein af þeim myndum. Sandra Bullock leikur stjarnfræðilega klára stelpu sem er fullkomlega góðhjörtuð og á móti stórfyrirtækjum og Hugh Grant leikur ótrúlega ríkan mann sem er ótrúlega sjálfsupptekinn. Þessir ýktu og einföldu karakterar þynna myndina út eins og ítalska pizzu allt frá fyrstu mínútu.

Plottið í sögunni er að Hugh Grant vantar gáfaðan kvenkyns lögfræðing með eins dags fyrirvara og hann ræður Söndru Bullock þar sem hann hittir hana við að mótmæla niðurrifi á félagsmiðstöð sem hún er að berjast fyrir en hann ætlar að rífa. Hin góðhjartaða Bullock bjargar félagsmiðstöðinni sinni gegn því að fara að vinna hjá Grant. Smám saman fær hún þó nóg af egói herra Grant og ákveður að hætta og þá byrjar dramað fyrir alvöru. Hugh Grant leyfir henni ekki að hætta. Bambambambam… spennandi?

Nei, þessi mynd er ekki spennandi. En hún er ágætlega fyndin og það er skemmtilegur andi í henni. Það skemmtilegasta í myndinni fannst mér vera þegar Bullock er að reyna að hætta og Grant prófar nýjan kven-lögfræðing sem fer að reyna við hann. Skyndilega verður Bullock öfundsjúk og upphefst mjög hjákátleg samkeppni á milli hennar og nýja ritarans, sem endar með slagsmálum.

Myndin á sína spretti í gríninu, en hún verður heldur klisjukennd í dramanu og rómantíkinni. Í heildina ágæt mynd, ef verið er að leita að dæmigerðri rómantískri gamanmynd.

1 comment:

Unknown said...

Elsku Bjössi minn .. hvernig í ósköpunum datt þér í hug að horfa á þessa mynd? Var það Kristrún? Er hún að neyða þig til að horfa á eitthvað ömurlegt drasl?