Þessi færsla markar fimmtugustu og aðra færsluna mína – og að öllum líkindum þá síðustu – í vetur. Stóra planið átti reyndar að vera lokafærslan, en Siggi Palli pantaði eina í viðbót sem væri ætlað að líta yfir áfangann í vetur. Ég ákvað því að fara skipulega yfir alla þætti námskeiðsins í vetur, lið fyrir lið, og fara yfir hvað mér fannst gott og hvað mér fannst slæmt. Og hér kemur það:
Bloggið
Það allra allra besta við kvikmyndafræðina í vetur finnst mér vera bloggið. Ekki bara það, heldur langar mig líka að tilnefna þetta blogg sem skemmtilegustu heimavinnu sem ég hef fengið á allri minni skólagöngu. Þetta er ekki lítil heimavinna, (ef ég áætla að hver færsla eftir mig hafi verið tæp 400 orð þá hef ég skrifað um 20.000 orð í vetur!) en hún hefur veitt mér svo mikla þjálfun í að skrifa að sú reynsla er alveg ómetanleg.
Þessi þáttur námskeiðsins er í raun nær íslenskri ritun þegar ég pæli í því. Síðastliðið haust, þegar námskeiðið var að byrja, átti ég erfitt með að komast í gang með bloggið og hver færsla tók langan, langan tíma – þótt stutt væri. Nú þegar námskeiðið er búið er ritunarfærnin ekki sambærileg. Ég get framleitt bloggfærslur um allar kvikmyndir og örugglega flest allt sem ég hef skoðun á eins og ekkert sé.
Önnur vídd í blogghlutanum eru athugasemdir og lestrar frá öðrum. Ófáum sinnum hef ég lent á spjalli við kvikmyndafræði-kollega mína um atriði tengd bloggunum. Við lesum hverjir hjá öðrum, skrifum athugasemdir og það er einn stærsti hvatinn í að halda uppi fyrsta flokks bloggi. Hvatinn minn í vetur var til dæmis ekki að ná lágmarkinu, heldur að vera með eitt besta bloggið af öllum. Það kallar maður alvöru markmið og þessari upplifun og þessum metnaði hef ég ekki kynnst við skil á heimaverkefnum áður.
Siggi Palli spyr hvað betur mætti fara. Hvað bloggið varðar þá er formið á því orðið mjög þróað, sérstaklega eftir að stigakerfi Jóns Ben var tekið í notkun. Það eina sem ég myndi helst vilja sjá er að fá fyrirmæli um sérhæfðari greinar. Skemmtilegt hefði verið að fá t.d. fimm atriði sem hefði þurft að blogga um – t.d. myndatöku, hljóðvinnslu, klippingu, handritavinnu og leikstjórn. Það hefði neytt mann til að googla og kynna sér tæknilegar hliðar kvikmyndagerðarinnar, sem hefði þjónað markmiðum námskeiðsins enn betur.
Lítil hugmynd fyrir blogghlutann er að setja inn athugasemdahvatningu í einkunnagjöfina. Þetta er hugmynd sem ég hef komið með áður en finnst tilvalið að setja hana hérna fyrst beðið er um tillögur fyrir næsta vetur. Þá myndi einhver hluti námseinkunnar taka til athugasemda og að til dæmis þyrfti um 30 stuttar athugasemdir með einhverri pælingu til að fá fulla einkunn í þeim hluta.
En þegar ég útskrifast úr Menntaskólanum í vor mun ég minnast kvikmyndafræðibloggsins sem eins þess besta úr náminu við skólann. Þar fyrst fór virkilega heimanám og skemmtun saman. Þessi ævilanga og endalausa barátta um að berja saman annars vegar félagslífið og hins vegar námið var leikur einn í kvikmyndafræðinni – þetta var einfaldlega ótrúlega gaman. Svo skemmir ekki fyrir að heyra að fólk í kringum mann hafi lent á blogginu fyrir tilviljun eftir leit á google!
Stuttmyndir
Jafn stór hluti og ekki minna umdeildur nú en fyrirkomulag bloggsins á sínum tíma. Stuttmyndahlutinn hentaði mér ekki jafn vel og bloggið vegna þess að sú heimavinna þurfti að fara fram í lotum. Reyndar má færa rök fyrir því að það sé jafnvel gott – það er jú nær raunverulegri kvikmyndagerð – en að þurfa að taka frá heilu dagana fyrir heilan hóp til að taka stuttmynd er mjög erfitt. Ég fann minna fyrir því á haustmisserinu, en á vormisserinu var helvíti slæmt að lenda í stuttmyndagerð svona skömmu fyrir próf.
Engu að síður var stuttmyndagerðin virkilega skemmtileg. Líkt og á blogginu fékk sköpunargleðin alveg lausan tauminn þar, en munurinn er að í stuttmyndinni er hún ekki bundin við orð. Fyrri stuttmyndin, sú þar sem ekkert var klippt, fannst mér jafnvel skemmtilegri heldur en sú seinni. Þessi skemmtilegi rammi – að banna klippingu og láta allt vera gert í vélinni – sparar gríðarlega mikinn tíma og samt er hægt að gera góða stuttmynd. Það gefur líka virkilega góðan samanburð við síðan klippistuttmyndina.
Í seinni stuttmyndinni fannst mér hins vegar of mikil áhersla vera lögð á handrit. Gríðarlegt púður fór í handritagerðina í hópnum okkar og í raun fór hún alveg úr böndunum. Þegar að tökum var komið kom í ljós að hreinn ógerningur hefði verið að taka upp handritið og því þurftum við í raun að skipta því algerlega út. Mér finnst professional handrit í professional forriti ekki vera hluti af því sem ég vil taka út af námskeiðinu – þar finnst mér námskeiðið reyna að vera eitthvað sem það er ekki. Handrit í Celtx eru einfaldlega ætluð fyrir kvikmyndagerðarfólk sem hefur einhverja reynslu af t.d. stuttmyndagerð, en ekki fyrir nemendur sem eru að kynna sér fagið.
Í heildina eru stuttmyndirnar bráðnauðsynlegur og skemmtilegur hluti af námskeiðinu en ættu samt ekki að reyna að vera meira en þær eru. Handritakröfur ætti algerlega að slíta frá stuttmyndunum til að sköpunargleðin og skemmtunin fái sín notið í öllu ferlinu en sé ekki læst niður í orð frá upphafi. Handritahlutinn ætti einfaldlega að vera sér verkefni (ef hann ætti á annað borð að vera í þessu námskeiði) og hann ætti ekki að tengjast stuttmyndunum neitt. Einnig mætti gerð seinni stuttmyndarinnar fara fram mun fyrr á vormisseri, til að áhugi og metnaður sé enn til staðar.
Leikstjóraheimsóknir
Ég er hugsanlega enn undir áhrifum frá Ólafi Jóhannessyni þegar ég skrifa þetta, en þessi hluti var einnig algerlega framúrskarandi. Allir sem komu í heimsókn veittu okkur mjög mikla og góða sýn inn í heim kvikmyndagerðarinnar og sumir (lesist: Ólafur) jafnvel innblástur. Það voru reyndar mikil vonbrigði að fá ekki Baltasar Kormák, þekktasta nafnið, en maður fær víst ekki allt sem maður vill.
Mér finnst að markmið kvikmyndagerðar-námskeiðsins sé að skila nemendunum út með stjörnur í augunum yfir heimi kvikmyndanna og kvikmyndagerðarmanna, jafnvel í von um það að einhverjir láti til leiðast og reyni fyrir sér í þessum heimi eftir menntaskólann. Besta leiðin til þess eru án efa leikstjóraheimsóknirnar.
Fyrirlestrar
Hefðbundið skólaverkefni og ágætt sem slíkt – gaman að brjóta upp kvikmyndafræðitímana með fyrirlestrum. Þó er hægt að vera heppinn og óheppinn hér. Myndir Emir Kusturica voru til dæmis langtum skemmtilegri heldur en Nosferatu meistara F. Murnau. Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé hægt að velja meira spennandi efni fyrir haustmisseris-fyrirlestrana heldur en gamla og misskemmtilega leikstjóra. Taka til dæmis fyrir kvikmyndastefnur á haustmisseri og síðan nútímaleikstjóra á vormisseri. Ég hef hins vegar alltaf verið minnsti talsmaður fortíðardýrkunar í kvikmyndafræðinni þannig að kannski sýnist sitt hverjum.
Skyldumyndir
Fyrsta umkvörtunarefnið hér myndi vera tímasetningin. Skyldumyndirnar hefðu betur mátt vera inni í venjulegri stundatöflu og væri vit að hafa tvo þrefalda tíma í staðinn fyrir þrjá tvöfalda á næsta skólaári. Mánudagar kl 16:10 gulltryggja einfaldlega að helmingur áhorfenda sé við það að líða útaf af þreytu (ég man til dæmis eftir Taste of Tea í móðu vegna þess að ég var svo gríðarlega gríðarlega þreyttur þegar við horfðum á hana). Tíminn hentaði fólki auk þess misvel.
Annað umkvörtunarefnið hér myndi síðan vera myndavalið. 8½ og Rules of the Game fóru langt með að drepa í mér alla von um almennilegt skyldubíó fyrir restina af vetrinum. Sem betur fer rættist úr því en þessar tvær myndir, ásamt nokkrum fleirum (sjá eldri bloggfærslur mínar), mættu fara beint í ruslakistuna.
Síðan spyr ég mig hvort skyldubíóið hefði ekki átt að einblína miklu meira á þá kvikmyndagerð sem er í gangi í dag? Rómantíska raunsæisstefnan frá þriðja áratug tuttugustu aldar í Frakklandi hefur litla sem enga þýðingu fyrir 20 ára nemendur í kvikmyndafræði-valáfanga árið 2008. Miklu skemmtilegra væri ef myndum sem þeim væri hent út og í staðinn sýndar t.d. stuttmyndasyrpur eða eitthvað álíka.
Önnur hugmynd að “skyldumynd” gæti verið auglýsingasyrpa. Ég man eftir að hafa séð safnspólur og síðar safndiska sem hétu Shots og innihéldu bestu auglýsingar heims á hverjum tíma. Ferskum hugmyndum, framúrstefnulegum pælingum og fyrst og fremst flottri kvikmyndagerð var beinlínis hellt yfir mann. Þessi tegund kvikmyndagerðar – auglýsingagerðin – er í rauninni ekkert annað en ör-stuttmyndagerð. Hún er meira að segja þannig að auglýsingar eru svo dýrar að ekki ein sekúnta má fara til spillis. Auglýsingar neyða því höfundinn til að ná hámarksnýtingu á forminu á sem allra stystum tíma – eitthvað sem er mjög spennandi að pæla í.
Loks fannst mér mjög skemmtilegt að vera skyldaður til að sjá allar íslenskar kvikmyndir sem komu út á tímanum. Ég hefði annars örugglega ekki séð helminginn af þeim og sérstaklega ef leikstjórinn kemur á eftir þá eru þessar sýningar gulls í gildi.
RIFF
Enn ein rósin í hnappagat þessa valfags. Ég stórefa að ég hefði farið á RIFF ef ekki hefði verið fyrir kvikmyndafræðina. Því miður lenti ég mjög illa í tímaskorti á meðan á hátíðinni stóð en þær tvær myndir sem ég fór á (Helvetica og My Kid Could Paint That) voru virkilega skemmtilegar og miklar andstæður við það sem ég sé ALLTAF í bíó. Kvikmyndagerðin opnaði allavega augu mín fyrir þessari hátíð og það er algerlega bókað mál að ég kaupi mér kort á næstu hátíð.
Talandi um hátíðir þá mætti kvikmyndagerðin hugsanlega gera eitthvað í tengslum við Óskarsverðlaunin, til dæmis skylda nemendur til að blogga eitthvað um þau og þá sem flesta flokka til að innsýn fáist inn í þau störf sem eru unnin til að framleiða stærstu kvikmyndir heims. Bara lítil hugmynd.
Lokapróf
Þetta er sá hluti námskeiðsins sem ég á eftir að upplifa, en ég verð að segja að mér finnst algerlega út í hött að allt sem ég sé búinn að skrifa um hér að ofan gildi samtals jafn mikið og þetta lokapróf. Það finnst mér vera algerlega úr takti við allt sem hefur verið í gangi í vetur því þetta fag öskrar beinlínis á að vera ekki próffag. Af hverju eigum við núna allt í einu að fara að læra utan að einhverjar staðreyndir sem einhverjir menn settu í einhverjar bækur fyrir kannski allt annan markhóp en okkur? Hvað gagn höfum við af því og hverju bætir það við námskeiðið? Og segjum að illa gangi – á þá að gefa nemanda sem hefur stundað alla hluta námskeiðsins af kappi í vetur lága stúdentsprófseinkunn vegna þess að hann kann ekki einhverjar skilgreiningar eða staðreyndir utan að?
Mér finnst þetta vera dökki punkturinn á námskeiðinu og grafa undan öllu öðru með því að skera það allt niður í 50% af því sem það raunverulega er bara til að geta fylgt einhverjum fyrirmælum að ofan. Þetta sýnir okkur einfaldlega að í MR kemst maður ekki upp með fag sem er bara skemmtilegt. Ónei, það þarf líka að smella á okkur enn einu risaprófinu svo við gerum okkur engar grillur. Þetta er reality checkið – ef einhver trúði því að kvikmyndafræðin væri of góð til að vera sönn, þá er prófinu ætlað að hrekja alla slíka vitleysu.
Það verður áhugavert að sjá hvað nemendur námskeiðsins fá í þessu prófi. Það er í hæsta máta ósanngjarn ef virkir og duglegir nemendur geti lent í því að allt sem búið er að byggja upp – 50-60 bloggfærslur, tvær stuttmyndir, eitt handrit, tveir fyrirlestrar, um 30 skyldumyndir og þrír tímar í viku – sé rifið niður í einu prófi.
---
Ég held að nú hafi ég gert ítarlega grein fyrir því hvað mér fannst um námskeiðið og hvernig mér finnst að það ætti að vera á næsta ári. Ég vona að ég hafi engu gleymt. Nú, ef ég hef einhverju gleymt, þá bæti ég því einfaldlega við! (bloggið er svo frábært að ég kemst ekki hjá því að hrósa því aftur) Ég vil að lokum nota tækifærið og þakka Sigga Palla fyrir frábært námskeið. Ég heyrði misjafnar sögur af kvikmyndafræðinni frá árinu áður, en þær breytingar sem Siggi Palli gerði á námskeiðinu eru greinilega nákvæmlega þær sem þurfti. Ég var tæpur á að velja kvikmyndafræðina á sínum tíma - ég var næstum því búinn að festa mig í bókfærslu sex sinnum í viku. Ég veit það að minnsta kosti fyrir víst núna að valið mitt á kvikmyndafræði er eitthvað sem ég mun aldrei sjá eftir.
Siggi Palli, takk fyrir mig!
Björn Brynjúlfur Björnsson, 6.Z
Wednesday, April 16, 2008
Sunday, April 13, 2008
Stóra planið (2008)

En þá að myndinni sjálfri.

Yfirskrift myndarinnar er “næstum því gangstermynd” og er sú setning mjög lýsandi fyrir myndina. Myndin hefst á því að aðalpersónan, Davíð, er úti að leika sér með bróður sínum í æsku þegar bíll keyrir á bróðurinn, sem deyr, beint fyrir framan Davíð. Restin af myndinni er síðan um tuttugu árum seinna og öll myndin er skoðuð í ljósi þessa atviks.

En við fáum semsagt að kynnast Davíð um tuttugu árum seinna og ljóst er að uppeldi móðurinnar, sem komin er á geðlyf, hefur ekki lukkast sérstaklega vel. Frá þessum punkti í myndinni gerast í raun engir mjög afdrifaríkir atburðir.

Söguþráðurinn sem slíkur er ekkert sérstaklega sterkur og það sem heldur myndinni saman er fyrst og fremst frábær leikur, mjög góður húmor og margar bráðskemmtilegar senur.

Ég kann mjög vel að meta þessa nýju kynslóð af húmor sem virðist vera komin mjög sterkt fram. Næturvaktin er eiginlega guðfaðir þessa húmors og margt í Stóra planinu er mjög augljóslega undir áhrifum næturvaktarinnar, hvort sem það er meðvitað eða ekki. Aðalpersónurnar eru vægast sagt ófullkomnar og húmorinn er grátbroslegur á meðan fylgst er með viðleitni þeirra til að hljóta velgengni á einhvern hátt. Samt er alltaf vitað frá upphafi að baráttan er vonlaus – á endanum gengur ekkert upp og sjálfsblekkingin nær í skottið á viðkomandi.

Ég velti því fyrir mér hvort kvikmyndaformið henti þessari mynd vel. Árni Þór sagðist hafa heyrt frá einhverjum að myndin hefði örugglega virkað mun betur sem stuttmynd, en þá vinnst ekki nægur tími til að fá dýptina í persónurnar. Þegar hugsað er út í það er Davíð Péturs Jóhannes mjög svipaður Ólafi úr Næturvaktinni. Ég velti því þess vegna fyrir mér hvort Stóra planið hefði ekki verið skemmtilegri sem nokkrir þættir frekar en kvikmynd. Fyrir það fyrsta væri 1.300 króna sparnaðurinn sem af hlytist óneitanlega stór plús fyrir upplifunina og einnig myndi maður held ég ekki endilega vera sífellt að bíða eftir atburðum sem síðan aldrei koma. Mér finnst Stóra planið ekki alveg rísa undir kvikmyndaforminu, hún er að minnsta kosti ekki nógu epísk til að réttlæta þessi útgjöld.
Viðbót:

RIFF 2008, ég bíð spenntur!
Wednesday, April 2, 2008
C'est arrivé près de chez vous (1992)

Þegar ég sagði að þeir sem hefðu áhuga á óvenjulegri mynd ættu að sjá Being John Malkovich, þá ættu þeir sömu líka að kíkja á Man Bites Dog (þ.e.a.s. ef morð og ofbeldi fara ekki illa í viðkomandi). Man Bites Dog minnti mig á Clockwork Orange. Myndirnar hafa sitthvað sameiginlegt, fylgst er með mönnum með vægast sagt óhefðbundið siðferði, gjörðum þeirra og þróun. Báðar myndirnar reyna líka að vera einkennandi fyrir sitt tímabil, áttundi áratugurinn er allsráðandi í Clockwork Orange og sést það vel í t.d. arkitektúr og klæðaburði. Man Bites Dog sýnir á móti tíunda áratuginn og firringuna sem fylgir honum (að mati höfunda myndarinnar).
Þessi mynd er klárlega fyrsta flokks á mjög margan hátt. Leikurinn er frábær og myndin sem er máluð upp af Ben er mjög áhrifamikil og sannfærandi. Allt ógeðið truflaði mig hins vegar frekar mikið - kannski er ég ekki nógu vanur svona grófum hlutum, og kannski ætti ég ekki að vera það?
Monday, March 31, 2008
Hearts of Darkness: A Filmmaker's Apocalypse (1991)

"My film is not a movie. My film is not about Vietnam. It is Vietnam. It's what it was really like. It was crazy. And the way we made it was very much like the way the Americans were in Vietnam. We were in the jungle. There were too many of us. We had access to too much money… too much equipment. And, little by little, we went insane."

Þessi tilvitnun lýsir vel öllu því sem heimildarmyndin nær svo vel að fanga. Tökur tóku tvöfalt lengri tíma en upphaflega var ætlað og Coppola þurfti að greiða út milljónir dollar af sínum eigin peningum til að tryggja að myndin yrði kláruð.
Ef heimildarmyndin gerir eitthvað þá er það að sýna snilldina á bakvið Apocalypse Now. Martin Sheen, sem var gerður að aðalleikara myndarinnar viku eftir að tökur hófust (!), drakk sig t.d. svo blindfullan fyrir senuna með honum einum á hótelherbergi að hann hótaði tökuliðinu barsmíðum hvenær sem er. Skömmu seinna fékk hann alvarlegt hjartaáfall og dó næstum því, sem tafði að sjálfsögðu tökur ekkert smá mikið. Marlon Brando, með milljón dollara á viku, mætti spikfeitur og óæfður í tökurnar og á að hafa hótað að hætta að leika í myndinni.

Coppola sjálfur talar meira að segja um sjálfsmorð, sannfærður um að myndin muni verða ömurleg. Þessi mynd er eiginlega algert sjokk - þótt ótrúlegt sé vildi maður næstum því hafa verið á staðnum. Þessar tökur hafa verið þær erfiðustu nokkurntíman fyrir alla sem að þeim komu, en aftur á móti eru þær svo gríðarlegt ævintýri að manni finnst hversdagsleikinn hérna heima ótrúlega lítilmótlegur í samanburði.
Spurning um að kíkja til Írak!
Happy End (1966)

Happy End snýr öllum skilningi gjörsamlega á hvolf. Hún hefst á manni sem drepur konuna sína og endar á því að sá sami maður fæðist. Plottið verður samt algert aukaatriði í þessu umhverfi - minnir mig á Memento nema á miklu miklu ýktara leveli. Réttara væri í raun að segja að þessi mynd minni mig ekki á neitt - svo óvenjuleg er hún.
Hún virðist ekki hafa slegið í gegn eða að hróðri hennar hafi verið haldið á lofti allt fram á okkar daga. 62 atkvæði á imdb nægir varla til að dekka þann fjölda sem kom að gerð myndarinnar. Ég tók því einkunninni 8.3 með mjög miklum fyrirvara, því að ljóst er að svona mynd getur aldrei fengið sláandi góða einkunn - til þess er hún of óhefðbundin.

Ég minnist þess einfaldlega að hafa verið að lesa Reviews um Being John Malkovich og mörgum fannst hún allt allt of skrýtin til að hægt væri að gefa henni góða einkunn. Happy End myndi eiga við sömu vandamál að glíma - bara margfalt verri.
Það sem ég hafði hins vegar ekki hugmynd um er að þetta væri grínmynd. Og meira að segja nokkuð fyndin sem slík. Samtölin eru mjög fyndin - leikararnir hafa þurft að tala afturábak til að samtöl virki í spilun myndarinnar og það er mjög einkennilegt að horfa á það.
Dæmi um atriði í myndinni. Frábært að sjá hann "klæða sig"!
Ég á eiginlega erfitt með að dæma myndina svona stuttu eftir að hafa séð hana. En ef tilgangurinn var að rugla áhorfandann alveg í ríminu og láta hann hlæja í leiðinni - þá er markmiðinu náð.
Funny Games (1997)

Fjórða myndin sem ég kíkti á um helgina var Funny Games. Ég hefði haft lítinn áhuga á að sjá þessa ef hún væri ekki skyldumynd. Eftir að sjá myndina velti ég því fyrir mér hvort hún sé ekki í raun diss leikstjórans á kvikmyndagerð eða eitthvað álíka djúpt. Það er nefnilega alveg potential í þessari mynd en það virðist vera eyðilagt viljandi. Yfirleitt hafa virkilega virkilega lélegar myndir sér ekkert til málsbóta en Funny Games inniheldur mörg áhugaverð atriði. Málið virðist einfaldlega vera að leikstjórinn gengur alltaf of langt. Það sem virkar vel er síðan rifið niður með því að ýkja það eða, ef minnst er á alla myndina, spóla það til baka.
Gott dæmi um þetta er ótrúlega langa skotið. Það er skot sem hefur raunverulega möguleika á að virka mjög vel. Seinni hluti þessa sama skots er hins vegar kominn langt yfir öll skynsemistímamörk og er þá búinn að eyðileggja fyrri hlutann í leiðinni. Í bókmenntunum kallast þetta rómantískt háð. Höfundurinn byggir upp einhverja mynd og rífur hana síðan niður aftur, að vissu leyti til að hæðast að áhorfandanum.
Ef ég hefði ekki getað spólað hefði þessi mynd verið skelfileg. En með því að horfa á hana í ljósi viðbragða annarra fannst mér hún satt að segja ekki alslæm. Þegar ég byrjaði að skrifa pistilinn var planið reyndar að rakka hana niður, en ég fyrirgaf henni á miðri leið.
Oldboy (2003)

Oldboy er fyrst og fremst ótrúlega kúl mynd. Hún minnir mig á aðra asíska mynd þar sem einhver að því er mig minnir japanskur milljónamæringur verður þreyttur á lífinu og fer að drepa fullt af fólki, þar á meðal foreldra sína. Löggan kemst síðan á slóðir hans. Ef þessi lýsing hringir einhverjum bjöllum þá væri ég mjög spenntur að fá að vita hvaða mynd þetta væri. En þetta var smá útúrdúr.

Asískar myndir hafa mjög mörg sameiginleg, og góð, einkenni. Þær eru mjög ýktar í kvikmyndatöku og leik, skipta t.d. mikið á milli víðra skota og super close-up skota, sem sýna t.d. bara hluta af andliti eða eitthvað í þeim dúr. Quentin Tarantino gerðist svo sniðugur að innleiða fullt af þessum hlutum í Hollywood með Kill bill tvennunni og hlaut hann endalaust lof fyrir. En Tarantino var ekki að finna neitt hjól upp - hann var einfaldlega að herma eftir hlutum sem hafa verið gerðir hinum megin á kúlunni miklu lengur.
Ég ætla að kíkja aftur á Oldboy við fyrsta tækifæri - hún hefur gríðarlega skemmtilegan stíl og heldur sig frá öllum vestrænum klisju-gildrum.
Little Miss Sunshine (2006)


Persónur myndarinnar voru mjög misjafnar. Hér kemur nánari útlistun:

Skemmtilegasta persónan, þótt sumir hlutir við hann séu ekki fullkomlega sannfærandi leikur Steve Carrell svo vel að maður hefur sjálfkrafa gaman að honum. Hann er líka gáfaðasta persónan í myndinni, var prófessor (þeas þangað til hann var rekinn).

Restin (sonurinn, mamman, pabbinn og afinn)
Ég áttaði mig á því að það væri algjört ofmat að reyna að greina hverja einustu persónu, til þess eru þær einfaldlega og svipaðar að uppbyggingu. Mamman finnst mér reyndar vera síst og afinn næst á eftir Steve Carrell. Ég hef einfaldlega ekki nógu sterka skoðun á þessari mynd til þess að fara ítarlega út í hana (ef það er á annað borð hægt). Þó langar mig að minnast á bestu aukapersónuna í myndinni. Það er fimmtuga face-lift konan sem á fegurðarsamkeppnina Little Miss Sunshine. Hún er ótrúlega fyndin týpa og nákvæmlega eins og maður ímyndar sér að umsjónarkonur fegurðarsamkeppna séu.
Ég hafði samt mjög gaman að sögusviðinu. Miðstéttarfjölskylda í Bandaríkjunum ferðast mörg hundruð mílur á gulu Volkswagen Rúbrauði til að fara með litlu dótturina á fegurðarsamkeppni fyrir fimm ára börn. Myndin snýst síðan fyrst og fremst um þetta ferðalag um þjóðvegi Bandaríkjanna. Little Miss Sunshine er alls ekki léleg mynd, en hún reynir of mikið að vera sniðug. Hún gerir það á kostnað aðalpersónanna og fyrir vikið stendur ekki mjög mikið eftir undir lokin. Maður slekkur samt á VLC í góðu skapi - myndinni tekst það þó eftir allt saman.
GoodFellas (1990)



Munurinn á myndunum kristallast m.a. í tveimur hlutum. Í fyrsta lagi er það endirinn. GoodFellas gerir upp söguna svo hratt og örugglega og verður ekki of þung í endann, á meðan American Gangster endirinn er í raun bara antíklímax eftir að Frank Lucas komst á toppinn þegar myndin var rúmlega hálfnuð. Það sem GoodFellas hafði líka er að hún var ekki bara rómantísk gangster mynd heldur var líka gróft ofbeldi í henni, sem gaf henni miklu meiri raunveruleikablæ. American Gangster hefði að mínu mati mátt vera miklu grófari. Fyrst hún var á annað borð að gera flestallt eins og GoodFellas, af hverju að skera þann frábæra part myndarinnar í burtu?
Being John Malkovich (1999)

Nema hvað. Mig minnti að þessi mynd hefði verið allt of undarleg og skringileg fyrir minn smekk. Upplifunin við að horfa á þessa mynd núna er önnur, og miklu betri. Líklega hef ég ekki verið nógu gamall þegar ég sá hana fyrst, enda langt síðan.

Nokkur atriði varðandi þessa mynd sitja eftir betur en önnur. Í fyrsta lagi er Craig (leikinn af John Cusack) mjög ýkt en einnig mjög trúverðug persóna. Þetta tvennt fer sjaldan saman en virkar ótrúlega vel í myndinni. Hann kann ekki að klæða sig, klippir sig ekki og rakar sig ekki, talar lágt og muldrar næstum því og er að sjálfsögðu hræðilegur í samskiptum við konur. Hér eru tvö dæmi þar sem hann reynir við vinnufélaga sinn:
Craig Schwartz: Can I buy you a drink, Maxine?
Maxine: Are you married?
Craig Schwartz: Yes, but enough about me.
Maxine: Tell me a little about yourself.
Craig Schwartz: Well, I'm a puppeteer...
Maxine: [turns to bartender] Check!
Þessar tvær tilvitnanir leiða mig að því næsta, sem er hversu virkilega fyndin þessi mynd er. Það er hægt að horfa á þessa mynd án þess að koma auga á grínið og það gera það eflaust sumir, en ef hlustað er nákvæmlega á það sem sagt er eru ótrúlega fyndnir brandarar í línum persónanna. Dæmi:

Craig Schwartz: There's a tiny door in my office, Maxine. It's a portal and it takes you inside John Malkovich. You see the world through John Malkovich's eyes... and then after about 15 minutes, you're spit out... into a ditch on the side of The New Jersey Turnpike.
Maxine: Sounds great!. Who the fuck is John Malkovich?
Craig Schwartz: Oh, he's an actor. He's one of the great American actors of the 20th century.
Maxine: Oh yeah? What's he been in?
Craig Schwartz: Lots of things. That jewel thief movie, for example. He's very well respected.

Larry the Agent: John! Great to see you! Sorry about the cunt at reception.
Craig Schwartz (sem John Malkovich): This is my fiancÈe Maxine.
Larry the Agent: Great to see you, Maxine. Sorry about the cunt at reception. Please have a seat.
…
Craig Schwartz (sem John Malkovich): Larry. From now on I’m no longer an actor, I’m a puppeteer.
Larry the Agent: Okay, great. Sure, no problemo. Poof, you’re a puppeteer. Just let me make a couple of phonecalls.
Átta mánuðum síðar er hann síðan orðinn heimsfrægur brúðustjórnandi sem veitir fólki um allan heim innblástur, fær standandi lófatak og áhorfendurnir hans gráta yfir fegurð listarinnar sem hann töfrar fram í brúðunum. Hæðnin er greinilega ekki langt í burtu. Það er líka fyndið að sjá t.d. umboðsmanninn, ritarinn lét John Malkovich bíða í eina mínútu og Larry var ekki lengi að afsaka það… tvisvar.
Loks fannst mér mjög gaman að sjá allar heimspekilegu pælingarnar. Í eitt skipti, í frábæru og mjög fyndnu atriði, fer John Malkovich inn í göngin (með einhverjum kínverja) og sér sjálfan sig… alls staðar. Og eina orðið, blótsyrði, söngur eða hæ – eina orðið er Malkovich:
Waiter: Malkovich?
John Malkovich: MALKOVICH!
Waiter: Malkovich.
Í öðru atriði fara aðalpersónurnar þrjár allar inn í John Malkovich í einu og tvær þeirra lenda í undirmeðvitundinni hans. Þær enda á að hlaupa á milli æskuminninga þar sem John Malkovich er lagður í einelti, þefar af nærbuxum og gerir alls konar hluti í þeim persónulega dúr.

Leikstjóri myndarinnar, Spike Jonze, er fyrst og fremst þekktur fyrir tónlistarmyndbönd, m.a. með Björk. Þetta var held ég hans fyrsta kvikmynd og ég efast um að hann nái nokkurntíman að toppa sig. Ég ætla samt að kíkja á Adaptation sem fyrst. Það er mynd frá 2002 með Nicholas Cage sem Spike Jonze leikstýrði líka. Ef sú mynd kemst nálægt Being John Malkovich hvað varðar handrit er að minnsta kosti öruggt að þar er sé góð mynd á ferðinni.
Handritshöfundurinn, Charlie Kaufman, hefur meðal annars skrifað handrit að Eternal Sunshine of the Spotless Mind (2004), Confessions of a Dangerous Mind (2002) og Adaptation (2002). Af þessum myndum hef ég bara séð Eternal Sunshine og ég kunni alls ekki að meta hana. Reyndar er eitthvað síðan ég sá hana. Spurningin er hvort ég hafi einfaldlega misst af snilldinni í handriti þeirrar myndar. Það væri þá í annað sinn sem ég gerði þau mistök.
Ég mæli með þessari mynd við alla sem eru opnir fyrir mynd sem óvenjulegri en flestar aðrar, en vitsmunaleg og mjög, mjög fyndin.
Tuesday, March 4, 2008
Suspiria (1977)

Myndin fjallar um bandaríska balletdansarann Susy Banyon, sem leikin er af Jessicu Harper. Susy fer til Þýskalands til að sækja nám við mjög fínan ballettskóla. Fljótlega kemst hún að því að ekki er allt með felldu í skólanum. Skólastýran, Madame Blanc (leikin af Joan Bennett) og aðstoðarkona hennar, hin ofurstranga frú Tanner (leikin af Alida Valli), vekja upp grunsemdir Susy, og þegar Sara (leikin af Stefania Casini), vinkona hennar, hverfur (áhorfendur fá reyndar að sjá reyndar að Sara er myrt hrottalega), fer Susy að rannsaka málið sjálf. (spoiler) Niðurstaðan er að dans-akademían er rekin af nornum sem nærast á óförum og dauða þeirra sem umkringja þær, þar á meðal nemendunum. Susy, af einskærri forvitni, finnur leyniherbergi nornanna, og drepur þar eldgömlu aðalnornina, sem stofnaði skólann. Hún hleypur síðan út og skólinn brennur til ösku.

Mjög áhugavert við þessa mynd er að leikstjórinn hugsaði stúlkurnar í skólanum upphaflega sem tólf ára gamlar, eða jafnvel yngri. Framleiðandinn (pabbi hans) og kvikmyndaverið tóku þetta hins vegar ekki í mál af ótta við að myndin yrði bönnuð, enda fara gróf morð og ofbeldi í bland við litlar smástelpur örugglega ekki vel ofan í kvikmyndaeftirlitin. Argento hækkaði því aldur stúlknanna í 20 ár, en breytti handritinu ekki á neinn hátt annars. Þegar ég las þetta small myndin enn betur saman fyrir mér, enda voru stúlkurnar mjög barnalegar á köflum og samræðurnar ofureinfaldar.

Strax við fyrsta morðið (og reyndar annað morðið um leið) sá ég að þessi mynd var ekkert drasl. Senan í kringum það morð var ótrúlega góð. Morðið var ótrúlega spennandi og ógnvekjandi og ég sé það ljóslifandi fyrir mér ennþá núna þegar ég rifja það upp. Þessi morðsena fer tvímælalaust í bækurnar hjá mér sem ein sú minnisverðasta í langan tíma.

Annað, ekki síðra, fannst mér vera kvikmyndatakan. Myndavélinni er óspart stillt upp með það að leiðarljósi að vekja upp ákveðna tilfinningu hjá áhorfandanum og ég hef held ég aldrei áður séð mynd sem hefur svona augljóslega úthugsaða kvikmyndatöku. Hvert einasta skot hefur tilgang og þjónar senunni og með tónlistinni byggist upp alveg ótrúleg spenna og hryllingur. Ég lifði mig fullkomlega inn í Suspiria útaf þessu og minnist sérstaklega senunnar þar sem hundur blinda mannsins rífur hálsinn á honum í sig og drepur hann á miðju risastóru torgi. Hvernig myndavélinni er stillt upp, úr öllum áttum og mislangt í burtu, snöggar klippingar að stóru byggingunum - þetta gerði senuna rosalega spennandi þótt hún innihéldi ekkert nema blindan mann að snúast í hringi, auk nokkurra fugla.

Síðasta frábæra einkenni myndarinnar eru litirnir, en ég hafði ekki áttað mig almennilega á því fyrr en ég las dóma um myndina við undirbúning fyrir þessa bloggfærslu. Argento beitti Technicolor tækninni svokölluðu með aðferð frá sjötta áratugnum til að ýkja litina og er fyrirmyndin hans fyrir litunum sögð vera Lísa í Undralandi. Líkingin er augljós þegar hugsað er út í það - öll herbergin, gangarnir og í raun völundarhúsið sem ballettskólinn er - allt þetta lítur út eins og Undaland, eins konar gotnesk útgáfa, þar sem allt er mun dimmara og drungalegra. Þegar ég las um þetta rann að nokkru leyti upp fyrir mér hvers vegna myndin hitti mig svona beint í mark. Ég man skýrt eftir teiknimyndinni um Lísu í Undralandi og Suspiria tókst að tengja sig við þær sterku tilfinningar sem ég upplifði í kringum þá mynd fyrir löngu, löngu síðan.

Þetta dregur mann að mjög áhugaverðri pælinu í kvikmyndagerð - pælingu sem ég hef aldrei komist til botns í sjálfur. Það er samspil meðvitundar og undirmeðvitundar í bíómyndum. Allir hafa heyrt um leynileg tákn og merkingar alls konar hluta í bíómyndum. Oft á tíðum hef ég velt því fyrir mér til hvers handritshöfundar og leikstjórar eyði ómældum tímum í að troða trúarlegum táknum, vísunum í biblíuna eða fræga sögulega viðburði, fyrst enginn tekur eftir þeim. Suspiria opnaði alveg augu mín fyrir þessum hlutum. Þótt ég hafi ekki áttað mig á tengingunni við Lísu í Undralandi er ég handviss um að hún hafi verið með því besta við myndina. Og það þrátt fyrir að ég hafi ekki einu sinni vitað af því!


Það er því án nokkurs vafa að ég segi að Suspiria sé eitt besta mánudagsbíó sem ég hafi séð í vetur.
Myndband
Mjög góð klippa sem ég mæli með fyrir þá sem ekki hafa séð myndina. Sem dæmi má sjá senuna þar sem hundur píanóleikarans rífur hann á hol nálægt byrjuninni.
Ítarefni
Skjáskot úr myndinni (á rússnesku)
Suspiria á imdb
Suspiria á Wikipedia
Dario Argento á Wikipedia
Aðdáendasíða tileinkuð Dario - meistara litanna
Wednesday, February 20, 2008
Killer of Sheep (1977)

Killer of Sheep hefur reikað um kvikmyndaheiminn í 30 ár. Félag kvikmyndagagnrýnenda valdi myndina eina af 100 grundvallarkvikmyndum kvikmyndasögunnar. En þangað til í fyrra - ef frá eru taldir þeir sem sækja kvikmyndir á ólöglegan hátt á netinu - hefur nær enginn fengið að sjá myndina. Flestir halda að ástæðan fyrir þessari gríðarlöngu töf sé að höfundurinn og leikstjórinn, Charles Burnett, hafi ekki átt pening til að gefa myndina út því hann hafi ekki getað borgað lagahöfundum fyrir að nota lög þeirra í myndinni. En í orðum herra Burnett sjálfs:
"I never had the means of distributing it. I made it with music without getting clearances because I always thought it would be seen only by a small audience of activists.”

Annað átti heldur betur eftir að koma í ljós, og Milestone fyrirtækið tók að sér að gefa myndina út og semja við lagahöfunda og -flytjendur um að fá að dreifa myndinni. Það verk tók sex ár og kostaði $150.000, sem var afar há upphæð fyrir lítið fyrirtæki eins og Milestone. Það varð þeim þó til happs að Steven Soderbergh, leikstjórinn frægi, gaf $75.000 í verkefnið. Í staðinn vildi hann ekkert - hann elskaði einfaldlega verk Burnetts.

Stan byrjar sem mjög óhamingjusamur maður. Hann yrðir varla á konuna sína, skammast í krökkunum og gælir jafnvel við glæpastarfsemi þegar honum er boðið að taka þátt. Hann mætir í sláturhúsið dag eftir dag og kemur síðan heim örþreyttur, bæði á sál og líkama. Konan hans er afar óhamingjusöm vegna þessarar slæmu meðferðar og er sífellt utan í honum. Þegar á myndina líður kemur hins vegar smám saman hið góða í ljós hjá Stan og á endanum sættir hann við sitt hlutskipti og verður sáttur með lífið og tilveruna - þótt ekkert hafi í raun breyst nema hann og hans viðhorf.

Sögusviðið er Watts-svertingjahverfið í Los Angeles og myndin er það raunveruleg að hún er eiginlega á mörkunum heimildarmyndar og leikinnar myndar. Dæmi um það er söguþráðurinn, eða réttara sagt skortur á söguþræði. Það er stærsta einkenni myndarinnar og um leið helsti galli hennar. Kvikmynd án söguþráðar verður fljótt leiðinleg. Burnett virðist reyndar hafa vitað það, öfugt við leikstjóra The Taste of Tea (sjá að neðan), sem hafði sína mynd tvo og hálfan tíma. Burnett hélt sig sem betur fer við 83 mínútur.

Á heildina litið myndi ég einungis mæla með þessari mynd fyrir þá sem finnst forsagan mjög áhugaverð og vilja sjá myndina á bakvið söguna. Fyrir aðra er þetta enn ein leiðinlega bíómyndin í safnið. Sjálfur tilheyrði ég fyrri hópnum í þetta skiptið - mér fannst Killer of Sheep vera áhugaverð.
Tuesday, February 12, 2008
Shortbus (2006)

Nærtækast er að bera þessa mynd saman við tvær myndir, Kids og Ken Park. Þar sem nú er orðið frekar langt síðan ég sá Kids mun ég samt aðallega bera hana saman við Ken Park.
Meginmunurinn á þessum tveimur myndum er að allt sjokk-effectið í Ken Park er bara gert til að sjokkera, á meðan allar senurnar í Shortbus hafa tilgang og þróa persónur myndarinnar áfram. Ég hélt reyndar að hér stefndi í aðra Ken Park þegar upphafsatriðið stóð sem hæst, en nánari lýsingar á því atriði má lesa á blogginu hans Jóns. Síðan kemur í ljós að öll þessi atriði hafa tilgang.
Annar grunnmunur á grófu senum myndarinnar er að í Shortbus eru senurnar jákvæðar, en í Ken Park eru þær á einhvern hátt allar tengdar einhverju dimmu og neikvæðu.
Gagnrýni á siðferðislegt gildi Shortbus finnst mér ekki vera réttmæt. Það vita allir að myndin er gróf, á coverinu stendur að þetta sé grófasta kynlífsmynd sem farið hafi í almenn kvikmyndahús. Þeir sem sjá hana ættu því ekki að láta sum atriðin koma sér á óvart.
Meðal þess sem ég fíla við þessa mynd er hvað hún nær mikilli stemningu. Myndin gerist í New York og allt snýst um næturklúbbinn Shortbus, þar sem öll bóhemin eru mætt, til að spjalla, drekka og fara í orgíur. Stemningin er rosalega hippaleg - algjört frelsi og enginn hugsar um hvað náunganum finnst um sig.

Annar mjög skemmtilegur fídus er þrívíddarmódel af New York, sem er notað til að fara á milli húsa og sýnir líka þegar rafmagnið fer af borginni. Þetta var rosalega fersk leið til að sýna hvað var í gangi í myndinni og virkaði ótrúlega vel.
Á heildina séð er Shortbus ekki lík neinni annarri mynd sem ég hef séð. Hún er ótrúlega fersk, innlifunin er alger og maður beinlínis dregst inn í söguna. Ég velti því fyrir mér hvort skortur á grafískum senum sem sýna heilsteypt líf persónu eins og það er í raun skemmi ekki fyrir öðrum myndum. Eitt er víst að ef þessi mynd hefði verið ritskoðuð þá myndi það gereyðileggja hana.
Ég mæli eindregið með Shortbus.
Monday, February 11, 2008
Cha no aji (2004)

Frá fyrstu mínútu lofaði myndin góðu. Gullfalleg upphafssena með frægu bleiku japönsku trjánum og virkilega fallegt umhverfi gerði myndina að augnkonfekti. Karakterarnir lofa nokkuð góðu og myndin virðist vera að byggja eitthvað upp. So far, so good.
Eftir um það bil klst hafði mér algerlega snúist hugur. Enn hafði ekkert gerst og nær engin þróun hafði orðið í sögunni. Allar persónunar héldu áfram að lifa sínu lífi án nokkurra skapsveiflna eða spennu og litlaust lífið hélt áfram. Ég var farinn að líta mjög oft á klukkuna þegar loksins að 90 mínútna markinu var komið. En þá átti ég von á öðru verra; myndin átti eftir að halda áfram í næstum klukkustund í viðbót.
Mér finnst mjög rangt að gera minni kröfur til bíómynda ef þær eru framandi eða gamlar, en það er tilhneiging sem mér finnst ég sjá mjög oft í kringum bíómyndir af því tagi. Bóbó fannst þessi mynd t.d. hress, kunni vel við karakterana og fannst hún flott. . Þetta eru svosem alveg valid punktar, en myndin var svo gríðarlega hææææg að brandararnir urðu pirrandi, karakterarnir leiðinlegir og flottu skotin vildi ég að hefðu verið klippt út svo sagan hefði einhverja framvindu.
Verra þykir mér þegar farið er að tala um fullt af táknum og ádeilum í umhverfinu og persónunum, því að ef einhver tákn og þess háttar hlutir eru í þessari mynd þá eru þeir þar af algerri tilviljun. Það er dæmi um að gefa mynd séns bara af því að hún er ekki Hollywood-mynd.

Málið er einfaldlega að handritshöfundarnir virðast ekki hafa verið að reyna að segja neina sögu, eða þá að leikstjóri myndarinnar hafi gjörsamlega rústað handritinu í meðför sinni og eyðilagt alla meiningu þess. Sem dæmi nefni ég atriðið sem ég varð fyrir mestum vonbrigðum með í myndinni. Ég ætla ekki að vara sérstaklega við spoiler hér því að atriðið skiptir engu máli, frekar en nokkurt annað atriði myndarinnar.
Eftir að afinn í ofur-venjulegu hversdagsfjölskyldunni deyr skoðar fjölskyldan vinnuherbergið hans, og finnur fjórar möppur, eina merkta hverjum fjölskyldumeðlimi. Inni í möppunum eru sovna roll-through myndir, sem hreyfast þegar flett er hratt í gegnum blaðsíðurnar. Leikstjórinn tekur örugglega hátt í 10 mínútur í þessa senu. Fyrst eru sýndar myndir af mömmunni að labba, síðan pabbanum að hlaupa, síðan strákinum að hjóla og loks stelpunni að snúa sér á stöng. Hver syrpa er sýnd nokkrum sinnum, næstum ekkert er talað á meðan og lítil sem engin tónlist spilar undir. Engin spenna er byggð upp á neinum tímapunkti og þessi saga gerir ekkert fyrir framvinduna.
Ég spyr mig með tilgang myndarinnar? Af hverju að búa til mynd þar sem engu máli skiptir hvenær byrjað er að horfa og hvenær hætt er að horfa? Af hverju að búa til mynd þar sem það eina sem lætur mann vita að myndin sé búin er credit-listinn? Og af hverju að búa til mynd sem er löng og hundleiðinleg?
Ég á erfitt með að svara þessum spurningum.
Wednesday, February 6, 2008
Bestu myndir ársins 2008
Kvikmyndaárið 2008 virðist ætla að verða nokkuð gott. Ég fór yfir ýmsa lista á netinu og fann þær myndir sem ég hef mestan áhuga á að sjá á árinu. Myndir sem nú þegar hafa komið út, eins og til dæmis No Country for Old Men, eruekki taldar með hér - ég fer einungis yfir myndir sem væntanlegar eru seinna á árinu. Svo virðist sem verkfall handritshöfunda sé ekki farið að hafa slæm áhrif á Hollywood, að minnsta kosti ekki enn sem komið er. En vindum okkur í þetta:
1. Bond 22: Quantum of Solace
Bond er algert skylduáhorf og er ég spenntastur fyrir þessari af öllum myndum ársins. Myndin á að taka við Casino Royale í beinni tímaröð og það hljómar mjög vel fyrir persónusköpunina. Leikstjórinn er Marc Forster, en hans "breakthrough" mynd var Monster's Ball, en hann hefur einnig leikstýrt t.d. Finding Neverland, með Johnny Depp.
2. The Dark Knight
Christopher Nolan leikstýrir og Christian Bale leikur Batman aftur. Ég held að ekki þurfi að tíunda hversu vinsæl þessi mynd verður í sumar. Stefnir í stærstu mynd ársins og vonandi eina af þeim betri.
3. Wanted
1. Bond 22: Quantum of Solace
Bond er algert skylduáhorf og er ég spenntastur fyrir þessari af öllum myndum ársins. Myndin á að taka við Casino Royale í beinni tímaröð og það hljómar mjög vel fyrir persónusköpunina. Leikstjórinn er Marc Forster, en hans "breakthrough" mynd var Monster's Ball, en hann hefur einnig leikstýrt t.d. Finding Neverland, með Johnny Depp.
Christopher Nolan leikstýrir og Christian Bale leikur Batman aftur. Ég held að ekki þurfi að tíunda hversu vinsæl þessi mynd verður í sumar. Stefnir í stærstu mynd ársins og vonandi eina af þeim betri.

James McAvoy, einn efnilegasti leikarinn í Hollywood, Angelina Jolie og Morgan Freeman í mynd sem virðist ætla að vera gríðarlega töff. Mæli með trailernum: www.wantedmovie.com, hann minnir mig dálítið á Matrix – sem er bara gott, því það er besta mynd sem ég hef séð skv. topp 10 listanum.
4. 21
Sannsöguleg mynd um háskólanema í stærðfræði frá MIT í Bandaríkjunum sem fóru til Las Vegas til að græða á Blackjack, með stærðfræði. Ég hef heyrt af þessu áður og líst mjög vel á leikarahópinn, sem inniheldur m.a. Kevin Spacey og Lawrence Fishburne.
5. X-Files 2
Ég hef alltaf verið mjög spenntur fyrir X-files og horfði mikið á þættina. Mynd um geimverur með meistara David Duchovny sem Mulder í aðalhlutverki hljómar óneitanlega mjög vel. Reyndar á eftir að gefa myndinni nafn, en hún á að koma í lok júlí.
6. Indiana Jones & the Kingdom of the Crystal Skull
Indiana orðinn 65 ára og Spielberg leikstýrir enn. Þetta verður ein stærsta mynd ársins og gaman verður að sjá hvernig tekst til. Meðal fleiri leikara eru Ray Winstone og Kate Blanchett. Áætlað er að myndin verði frumsýnd í lok maí.
7-8. Burn After Reading
Eitthvað CIA njósna-spennu-drama, leikstýrt af Coen bræðrum og fyrsta flokks leikarahóp (m.a. Brad Pitt, George Clooney og John Malkovich). Hljómar vel.
7-8. Body of Lies
Önnur CIA njósnamynd, í þetta skiptið leikstýrt af Ridley Scott og skartar Russel Crowe og Leonardo DiCaprio. Klassísk formúla, sem er kannski ástæðan fyrir því að von er á tveimur svona í ár.
9. The Incredible Hulk
Já, Hulk eitt var ömurleg, en núna er Edward Norton kominn í hlutverkið og tæknivinnan, sem floppaði algerlega í fyrstu myndinni (Hulk hegðaði sér frekar eins og Flubber heldur en stórt skrímsli í henni), hefur verið endurbætt. Ég er tilbúinn til að gefa henni séns
10. Sex & The City
Þættirnir eru mjög skemmtilegir og ef myndin kemst nálægt þeim vil ég hiklaust kíkja á hana.
---
Ítarefni: Grein Times Online um 50 stærstu kvikmyndir ársins 2008

Sannsöguleg mynd um háskólanema í stærðfræði frá MIT í Bandaríkjunum sem fóru til Las Vegas til að græða á Blackjack, með stærðfræði. Ég hef heyrt af þessu áður og líst mjög vel á leikarahópinn, sem inniheldur m.a. Kevin Spacey og Lawrence Fishburne.

Ég hef alltaf verið mjög spenntur fyrir X-files og horfði mikið á þættina. Mynd um geimverur með meistara David Duchovny sem Mulder í aðalhlutverki hljómar óneitanlega mjög vel. Reyndar á eftir að gefa myndinni nafn, en hún á að koma í lok júlí.

Indiana orðinn 65 ára og Spielberg leikstýrir enn. Þetta verður ein stærsta mynd ársins og gaman verður að sjá hvernig tekst til. Meðal fleiri leikara eru Ray Winstone og Kate Blanchett. Áætlað er að myndin verði frumsýnd í lok maí.

Eitthvað CIA njósna-spennu-drama, leikstýrt af Coen bræðrum og fyrsta flokks leikarahóp (m.a. Brad Pitt, George Clooney og John Malkovich). Hljómar vel.

Önnur CIA njósnamynd, í þetta skiptið leikstýrt af Ridley Scott og skartar Russel Crowe og Leonardo DiCaprio. Klassísk formúla, sem er kannski ástæðan fyrir því að von er á tveimur svona í ár.

Já, Hulk eitt var ömurleg, en núna er Edward Norton kominn í hlutverkið og tæknivinnan, sem floppaði algerlega í fyrstu myndinni (Hulk hegðaði sér frekar eins og Flubber heldur en stórt skrímsli í henni), hefur verið endurbætt. Ég er tilbúinn til að gefa henni séns

Þættirnir eru mjög skemmtilegir og ef myndin kemst nálægt þeim vil ég hiklaust kíkja á hana.
---
Ítarefni: Grein Times Online um 50 stærstu kvikmyndir ársins 2008
Subscribe to:
Posts (Atom)