
Ridley Scott hefur komist að grunntilgangi kvikmyndanna í American Gangster. Það hlutverk er einfaldlega að segja sögu. Sagan sem Scott segir í þessari mynd er byggð á sönnum atburðum og það er á einhvern hátt miklu magnaðra en ef myndin væri skálduð. Allar aðalpersónurnar voru til í alvörunni og urðu mjög mannlegar fyrir vikið. Að segja þessa sögu tók yfir tvo og hálfan tíma og ég naut hennar frá fyrstu mínútu.
Myndin er líka mikill vitnisburður um þennan tíma í bandarísku þjóðlífi. Allt er undirlagt af eiturlyfjavandanum og Víetnamstríðinu og Nixon forseti er oft sýndur ávarpa þjóðina í svarthvítum sjónvarpstækjum. Fatatískan er mjög einkennandi; löggurnar eru í leðurjökkum og ljósum gallabuxum og gangsterarnir eru í jakkafötum og margir þeirra mjög dólgslegum. Einnig er gaman að sjá bandarísku hermennina í Víetnam. Washington fer til Víetnam til að sækja sér eiturlyf og þar fáum við að sjá dekkri hliðar bandarískra hermanna í Víetnam á þessum tíma, heróínfíkla og drykkjusjúklinga á hóruhúsum um alla borg.
Stór kostur við þessa mynd er einnig að hún fellur ekki í þá algengu gryfju að flokka alla sem vonda kallinn eða góða kallinn. Þótt Washington sé eiturlyfjabarón er hann ekki málaður sem ótíndur glæpamaður af leikstjóranum. Myndin er heldur ekki að reyna að troða einhverjum gildum upp á áhorfandann, heldur, eins og ég sagði í byrjun, einfaldlega að segja virkilega góða sögu. Og það er allt sem þarf.