Tuesday, December 4, 2007

American Gangster (2007)

Þessi nýjasta mynd Ridley Scott er í bíó og ég skellti mér á hana í gær. Með aðalhlutverk myndarinnar fara Denzel Washington og Russel Crowe, og leikur Washington gangster í New York á sjöunda áratugnum, þegar Víetnamstríðið stóð sem hæst og eiturlyf flæddu um allar stórborgir Bandaríkjanna. Crowe leikur að því er virðist einu óspilltu lögguna í New York, sem að sjálfsögðu beinir fljótt spjótum sínum að Washington.

Ridley Scott hefur komist að grunntilgangi kvikmyndanna í American Gangster. Það hlutverk er einfaldlega að segja sögu. Sagan sem Scott segir í þessari mynd er byggð á sönnum atburðum og það er á einhvern hátt miklu magnaðra en ef myndin væri skálduð. Allar aðalpersónurnar voru til í alvörunni og urðu mjög mannlegar fyrir vikið. Að segja þessa sögu tók yfir tvo og hálfan tíma og ég naut hennar frá fyrstu mínútu.

Myndin er líka mikill vitnisburður um þennan tíma í bandarísku þjóðlífi. Allt er undirlagt af eiturlyfjavandanum og Víetnamstríðinu og Nixon forseti er oft sýndur ávarpa þjóðina í svarthvítum sjónvarpstækjum. Fatatískan er mjög einkennandi; löggurnar eru í leðurjökkum og ljósum gallabuxum og gangsterarnir eru í jakkafötum og margir þeirra mjög dólgslegum. Einnig er gaman að sjá bandarísku hermennina í Víetnam. Washington fer til Víetnam til að sækja sér eiturlyf og þar fáum við að sjá dekkri hliðar bandarískra hermanna í Víetnam á þessum tíma, heróínfíkla og drykkjusjúklinga á hóruhúsum um alla borg.

Stór kostur við þessa mynd er einnig að hún fellur ekki í þá algengu gryfju að flokka alla sem vonda kallinn eða góða kallinn. Þótt Washington sé eiturlyfjabarón er hann ekki málaður sem ótíndur glæpamaður af leikstjóranum. Myndin er heldur ekki að reyna að troða einhverjum gildum upp á áhorfandann, heldur, eins og ég sagði í byrjun, einfaldlega að segja virkilega góða sögu. Og það er allt sem þarf.

Fracture (2007)

Fracture er bandarískt réttardrama sem skartar Anthony Hopkins og Ryan Gosling í aðalhlutverkum. Plottið er á þann veg að herra Hopkins drepur konuna sína fyrir að halda framhjá sér og leikur á lögregluna og réttarhöldin í þeim tilgangi að vera sýknaður. Gosling vill hins vegar ekki láta hann komast upp með það og beitir öllum tiltækum ráðum til að sakfella Hopkins.

Fyrri hluti myndarinnar lofaði hörkuræmu. Allur frágangur á myndinni, útlit, umhverfi, klippingar og myndataka er mjög kalt og töff og karakterarnir virðast vera nokkuð skemmtilegir þegar myndin er að hefjast. Þegar myndin er um það bil hálfnuð veldur hún hins vegar miklum vonbrigðum. Á bakvið öll jakkafötin, villurnar og sportbílana er meingallað handrit, ofureinfaldaði karakterar og virkilega asnaleg framvinda.

Ég hef aldrei séð svona blekkjandi mynd áður. Yfirleitt veit maður nokkurn vegin hvort mynd sé góð eða léleg á fyrstu 10-15 mínútunum, en í þetta skiptið tók það yfir 45 mínútur. Það var leiðinlegt að sjá svona vel útlítandi mynd fara í vaskinn, en svo fór sem fór. Myndin féll í sömu gryfju og flestar aðrar miðlungsmyndir með budget. Hún lítur vel út en tekst ekki að fela það hversu mikið drasl hún er í raun.

Saturday, December 1, 2007

Haustönnin gerð upp

Þetta er búið að vera frábært, með betri fögum sem ég hef farið í. Sérstaklega hafði ég gaman að verklega þættinum og ég hlakka til að gera stuttmynd eftir áramót ásamt aukaverkefni.

Áfanginn hefur valdið því að ég hef séð mun fjölbreyttari myndir heldur en ég hefði þorað að gera á eigin vegum. Allar RIFF myndirnar, La régle du jeu, Some like it hot, Det sjunde inseglet, The General, 8½, American Movie, auk Veðramóta og Astrópíu. Uppúr finnst mér standa RIFF og íslensku myndirnar.

RIFF finnst mér standa uppúr vegna stemningarinnar sem myndaðist í kringum hátíðina. Þá náði áhuginn hjá mér vissu hámarki og nördið fékk smá útrás í að stúdera dagskránna og pæla í myndunum. RIFF færslurnar eru líklega þær sem ég lagði mesta vinnu í á blogginu mínu, einfaldlega vegna mikillar rannsóknarvinnu sem lá að baki.

Íslensku myndirnar tvær, Veðramót og Astrópía, stóðu líka uppúr vegna allra umræðanna í kringum þær. Áfanginn var nýbyrjaður og var á allra vörum í mínum vinahópi. Myndirnar voru mikið skeggræddar og það var gaman að vera á heimavelli þegar myndirnar bárust í tal annars staðar, t.d. hjá fjölskyldunni og öðrum vinum. Íslenskar myndir eru stór hluti af menningunni okkar og það er gríðarlega sterkur kostur að hafa séð þær. Ég sakna þess mest að hafa ekki séð Foreldra á haustönninni. Börn og Foreldrar eru þær íslensku myndir sem mér finnst ég verða að sjá fljótlega, sérstaklega eftir sigur Foreldra á Eddunni.

Varðandi vikulegu sýningurnar á erlendu myndunum, þá var skemmtanagildið og stemningin þar í kring nokkuð minni. Ég met þann hluta áfangans þó einnig, einfaldlega vegna þess að þetta eru myndir sem er gaman að hafa séð, þótt það sé kannski ekki mjög skemmtilegt á meðan áhorfinu stendur. Sem dæmi nefni ég Nosferatu. Þessi mynd er söguleg, og þótt leiðinlegt hafi verið að horfa á hana hef ég oft lent í að spjalla um hana eftir áhorfið. Herranótt er til dæmis að setja upp sýningu í vor sem byggir á Nosferatu.

Ég held að það sé engin tilviljun að kvikmyndafræðin hitti í mark á svona mörgum sviðum. Kvikmyndir eru neflilega ótrúlega sterkt menningarform og tengjast mörgu. Að vera vel að sér á þessu sviði er gagnlegt og skemmtilegt í fjölmörgum aðstæðum.

Ég hef ekki enn náð að horfa á síðustu skyldumyndina, þá japönsku. Planið er að skella inn færslu um hana, þrítugustu færslunni, beint eftir prófin.

Annars þakka ég fyrir mig á haustönn!

Tuesday, November 27, 2007

Two Weeks Notice (2002)

Sumar myndir eru svo dæmigerðar að það hefði nákvæmlega engu breytt ef þær hefðu ekki verið framleiddar. Two Weeks Notice er ein af þeim myndum. Sandra Bullock leikur stjarnfræðilega klára stelpu sem er fullkomlega góðhjörtuð og á móti stórfyrirtækjum og Hugh Grant leikur ótrúlega ríkan mann sem er ótrúlega sjálfsupptekinn. Þessir ýktu og einföldu karakterar þynna myndina út eins og ítalska pizzu allt frá fyrstu mínútu.

Plottið í sögunni er að Hugh Grant vantar gáfaðan kvenkyns lögfræðing með eins dags fyrirvara og hann ræður Söndru Bullock þar sem hann hittir hana við að mótmæla niðurrifi á félagsmiðstöð sem hún er að berjast fyrir en hann ætlar að rífa. Hin góðhjartaða Bullock bjargar félagsmiðstöðinni sinni gegn því að fara að vinna hjá Grant. Smám saman fær hún þó nóg af egói herra Grant og ákveður að hætta og þá byrjar dramað fyrir alvöru. Hugh Grant leyfir henni ekki að hætta. Bambambambam… spennandi?

Nei, þessi mynd er ekki spennandi. En hún er ágætlega fyndin og það er skemmtilegur andi í henni. Það skemmtilegasta í myndinni fannst mér vera þegar Bullock er að reyna að hætta og Grant prófar nýjan kven-lögfræðing sem fer að reyna við hann. Skyndilega verður Bullock öfundsjúk og upphefst mjög hjákátleg samkeppni á milli hennar og nýja ritarans, sem endar með slagsmálum.

Myndin á sína spretti í gríninu, en hún verður heldur klisjukennd í dramanu og rómantíkinni. Í heildina ágæt mynd, ef verið er að leita að dæmigerðri rómantískri gamanmynd.

Monday, November 26, 2007

The Making of Die Hard 4.0

Ég rakst á Making Of Die Hard 4.0 í dag. Þessi heimildarmynd sýndi mér nýjar víddir í Die Hard 4 sem ég tók engan vegin eftir þegar ég sá myndina á hvíta tjaldinu. Að sjá making of myndina gerir því Die Hard 4 miklu betri í minningunni heldur en þegar ég upplifði hana fyrst.

Fyrir það fyrsta má náttúrulega nefna allar hasarsenurnar. Atriðið þar sem McLane keyrir lögreglubílnum upp í þyrluna er til dæmis tekið í alvöru. Lögreglubíl var skotið áfram með reipi og nítróglyseríni eftir rampi upp í þyrlu sem hékk í krana og allt var látið springa við áreksturinn. Í senunni með orrustuflugvélini var síðan smíðaður og sprengdur hluti úr hraðbraut og skotin af þotunni eru tekin sér og síðan sett inn í rammann.

Prinsippið með öllu þessu veseni er að tölvuteikna sem minnst. Þótt tölvugrafík fari hratt fram er enn í dag alltaf töluvert raunverulegra að skjóta hlutina fyrir alvöru. Leikstjórinn grípur því einungis til tölvugrafíkur ef annað er algerlega ómögulegt.

Eftir að sjá þessa heimildarmynd langar mig til að sjá Die Hard 4 aftur. Það væri gaman að veita öllum smáatriðunum athygli, því þau eru öll úthugsuð.

Sunday, November 25, 2007

American Movie (1999)

Þetta er heimildarmynd frá árinu 1999 eftir Chris Smith. Hún fjallar um kvikmynda(r)- gerðarmanninn Mark Borchardt sem vinnur í þrjú ár að því að klára hryllings-stuttmyndina “Covan.” Þetta ævintýri Marks er í raun birtingarmynd bandaríska draumsins margumtalaða á mann sem hefur áhuga á kvikmyndagerð.

Þessi heimildarmynd var mjög vel gerð. Mér leið næstum eins og fólkið vissi ekki af myndavélinni, og þegar það tjáði sig við heimildarmyndargerðarmanninn var það mjög opið og kom sér beint að efninu. Klippingin var einnig mjög skemmtileg og hún gerir þessa mynd að mörgu leyti eins fyndna og hún er. Án húmors væri þess mynd allt of þung til að vera skemmtileg. Áfengið, dópið og ástandið á fjölskyldunni er of slæmt til að hægt sé að sýna það og kalla útkomuna afþreyingu.

Mark virkar á einhvern hátt svo ótrúlega vonlaus í þessari viðleitni sinni. En það fyndna er að hann er ekki alger vitleysingur – klippurnar sem eru sýndar úr Covan líta bara ágætlega út og hafa sína ljósu punkta.

Eins og margar heimildarmyndir er American Movie samt hæg á köflum og verður langdregin í endann, sem ætti að vera alger óþarfi. Svo er spurningin hvort það sé siðferðislega rétt að í rauninni gera grín að fólkinu og misförum þess til þess eins að gera heimildarmynd skemmtilegri...

Saturday, November 24, 2007

8 ½ (1963)

Ótrúlegt. Eftir að hafa séð The General fer ég fram í kvikmyndasögunni um 44 ár og hvað gerist? Kvikmyndalistinni virðist hafa farið aftur!

Ég velti því fyrir mér hvort það sé ekki frekar munurinn á amerískum og evrópskum myndum sem ég sé að lenda í, frekar en tímamismunurinn. Svo ég minnist ekki á muninn á leikstjórunum. Á meðan Buster Keaton er grínisti er Fellini listrænn geðsjúklingur og lætur það skína í gegn í myndunum sínum.

Gallinn við 8 ½ er það þetta telst varla sem kvikmynd. Senurnar meika ekkert sens og tengjast á mjög einkennilegan hátt. Þessari mynd tekst eitt betur en allt annað – að pirra áhorfandann. Að því er virðist í miðri senu þegar maður er rétt farinn að venjast sögunni er maður rifinn burt og í glænýja lítið eða ekkert tengda senu með allt öðrum pælingum.

Gamlar og klassískar kvikmyndir finnst mér alltaf sleppa fyrir horn ef þær hafa góðan söguþráð sem þær fylgja sæmilega vel. The General er gott dæmi um þetta – þrátt fyrir að vera mjög löng heldur hún dampi vegna þess að allir geta fylgt sögunni. Fellini er hins vegar út um allt og það líkar greinilega mörgum – að minnsta kosti við upphafninguna sem þessi mynd fær um allt. Ég virðist einfaldlega vera á annarri bylgjulengd í þetta skiptið.

Friday, November 23, 2007

The General (1927)

Ég tók mig loksins til í gærkvöldi og kíkti á The General eftir Buster Keaton. Dálítið seint fyrir skyldumynd, en betra er seint en aldrei. Ég ætla mér líka að sjá American Movie og átta og hálfan á næstu dögum.

Ég verð að segja að The General kom mér skemmtilega á óvart. Mín reynsla úr kvikmyndafræðinni er að myndir sem nálgast áttræðisaldurinn séu undantekningalítið skelfilegar. Nýjasta sönnunin á þessu hjá mér var Nosferatu, sem er þó “einungis” 78 ára. Ég hafði svo lítið gaman af þeirri mynd að mér kæmi ekki einu sinni til hugar að blogga um hana.

En aftur að myndinni. The General er nafnið á lest sem maður að nafni Johnny Gray (sem Buster Keaton leikur) sér um. Þegar borgarastríðið hefst í Bandaríkjunum er Hershöfðingjanum rænt af óvinunum, en í farþegavögnunum er ástin í lífi Johnny’s - Annabelle Lee. Johnny hefur því eltingaleik til að ná Hershöfðingjanum og unnustunni aftur.

Það sem kom mér á óvart við þessa mynd er hversu mikill meistari grínsins Buster Keaton er. Hann lætur ómerkilegustu hluti vera skemmtilega og hélt þannig athygli minni (nokkurn vegin) út myndina, þrátt fyrir að löng sé. Að sjálfsögðu hefði verið hægt að þétta grínið eitthvað – myndin gerir mjög mikið upp úr því að vera aðgengileg og auðskilin og það er stundum gert á kostnað hraðari klippinga – eitthvað sem maður sér ekki lengur í dag. Ofan á þetta er svo vel passað upp á að hver einasti áhorfandi fylgi sögunni að senurnar, sérstaklega í lestinni, endurtaka sig of mikið. Þar vantar líka meira grín – myndin virðist skipta dálítið úr því að reyna að vera grínmynd og í að reyna að vera spennumynd, þegar það hefði dugað henni mjög vel að halda sig við grínið.

En á heildina skemmti ég mér vel yfir þessari mynd og það kom mér á óvart að sjá svona gamla ræmu sem endist þetta vel.

Thursday, November 22, 2007

Closer (2004)

Þetta er nýleg mynd sem ég sá í fyrradag. Hún kom út árið 2005 á Íslandi en ég hef ekki heyrt af þessari mynd fyrr en ég sá hana úti á vídjóleigu. Myndin skartar mjög “hipp” leikurum, þeim Natalie Portman, Jude Law, Juliu Roberts og Clive Owen. Leikstjóri myndarinnar heitir Mike Nichols. Myndin fjallar í sem stystu máli um ástar-ferhyrning þessara fjögurra persóna og þær tilfinningar og drama sem skapast í kringum það.

Það fyrsta sem kemur upp í hugann við þessa mynd er hversu óvenjuleg hún var. Ég hef ekki séð mynd svipaða þessari áður. Það eitt og sér finnst mér vera kostur. Það sem var óvenjulegt við myndina er framvindan, aðalpersónurnar fjórar, umfjöllunarefnið og stíllinn. Framvinda myndarinnar er óvenjuleg á þann hátt að fyrst eru nokkrar senur sýndar á ákveðnum tímapunkti og síðan er skyndilega spólað allt að ár fram í tímann, þar sem nokkrar senur í viðbót eiga sér stað, og svo framvegis. Þessi stíll hafði kosti og galla, en var fyrst og fremst ferskur.

Sögusviðið var einnig sterkur kostur við myndina. Myndin gerist í Lundúnum, aðallega í kokteilboðum, á götum úti, í fínni íbúð og í miðstéttaríbúð. Umhverfið í London er mjög flott og smellur mjög vel saman við stemninguna í myndinni og litatónana sem notaðir eru.

En að sögunni sjálfri. Persónurnar í myndinni höfðu allar mjög sterk persónueinkenni sem lituðu þau út myndina. Í samskiptum þeirra kynnist áhorfandinn persónunum betur og betur. Atburðarrásin þróast áfram og er sífellt að breytast, en undir lokin er eins og allar persónurnar séu komnar í blindgötu. Endirinn var því endasleppur, hann virtist að mörgu leyti stafa af því að karakterarnir voru fullnýttir og ekki var hægt að kreista meira út úr þeim.

Strax eftir áhorfið kunni ég ekki vel við þessa mynd. Hins vegar, eftir að hafa horft á Cruel Intentions nokkrum dögum síðar, áttaði ég mig á því hversu miklu dýpri Closer er miðað við fjölmargar aðrar myndir. Ég hef hugleitt persónurnar í Closer af og til eftir að ég sá myndina, og þannig eiga myndir að vera. Þær eiga að skilja eitthvað eftir.

Cruel Intentions (1999)

Mig rámar í þessa mynd frá því að ég var sirka tólf ára. Þá sá ég hluta af þessari mynd og fannst hún ótrúlega töff. Þessi minning fékk mig til að horfa á hana alla núna um síðustu helgi og ljóst er að þessi mynd stenst ekki tímans tönn. Þótt leikararnir standi sig vel eru karakterarnir svo ofureinfaldaðir og ýktir að sagan er aldrei trúverðug. Loks eru atburðir myndarinnar svo yfir-dramatíseraðir að það er kjánalegt. Þessi mynd er fyrst og fremst dramamynd fyrir unglinga og hún ræður ekki við eldri áhorfendur en það.

Það er áhugavert hversu mikið af unglingamyndum af svipaðri gerð hafa sprottið upp á eftir Cruel Intentions. Myndir sem snúast um bandarískt High School líf, orðspor og tilhugalíf einhverra vinahópa o.s.fr. Cruel Intentions er mjög mikil frumgerð fyrir svona myndir. Hún inniheldur að sjálfsögðu einn homma, einn jock, einn töffara, eina góða gellu, eina vonda gellu og eitt nörd. Myndin snýst síðan um samspil milli allra þessara staðalímynda High School samfélagsins og gerir það ágætlega. Markhópurinn virðist einfaldlega vera yngri en 19 ára.

Det sjunde inseglet (1957)

Síðasta mánudagsbíó skartaði myndinni Sjöunda innsiglið eftir Ingmar Bergman. Skemmst er frá því að segja að þessi mynd er virkilega skemmtileg. Hún er draugaleg, spennandi, áhugaverð en fyrst og fremst mjög fyndin. Karakterarnir eru skemmtilegir og plott myndarinnar, að aðalpersónan tefli við dauðann um líf sitt, er ótrúlega töff. Eins og þeir sem myndina sáu á mánudaginn snýst hún um líf fólks á ótilteknum tíma á miðöldum þegar svarti dauði herjar yfir Evrópu. Hræðsla, ofstækistrú, ofbeldi og hatur eru allsráðandi og dauðinn herjar á annan hvern mann.

Myndatakan í þessari mynd er einstök – Sjöunda innsiglið inniheldur ein flottustu skot sem ég hef séð. Svarthvítt, hár kontrast og hvíthærður riddari – þetta þrennt er gullin þrenna til að búa til flott myndefni. Landslagið er notað vel og Bergmann lagði augljóslega mjög mikið upp úr því að gera myndina sem drungalegasta. Nætursenurnar þar sem tunglskinið lýsir allt upp gefa mjög sterka tilfinningu, þrátt fyrir að vera bjartar.

Loks var músíkin í myndinni skemmtileg. Mig rámar enn í sum stefin í myndinni – þau voru eftirminnileg og hentuðu stemningunni rétt.

Í raun má segja að hafi smollið saman hjá Ingmar Bergmann í þessari ræmu. Það er ekki vafi á því að ég muni reyna að komast yfir fleiri myndir frá honum á næstu misserum.

Wednesday, November 14, 2007

The Last King of Scotland (2007)

Þessa mynd sá ég í annað sinn í fyrradag. Myndin er drama-/spennumynd og byggir lauslega á sögunni af valdatíma einræðisherrans Idi Amin í Úganda. Nýútskrifaður skoskur læknir, Nikulás, fær tilvistarkreppu og ákveður að fara hvert annað á hnöttinn sem er. Úganda verður fyrir valinu og ævintýrin í kjölfarið eru ótrúleg.

Ég vissi ekkert um Idi Amin fyrir myndina, en eftir að hafa séð hana finnst mér það hafa breyst mikið. Karakter Amins, sem leikinn er af Forest Whitaker, er gæddur gríðarlegum persónutöfrum og sýnir á sér nýjar hliðar út alla myndina. Leikur Whitakers í þessari mynd er með þeim betri sem ég hef séð í kvikmynd – svo áhrifamikill var hann. Það kom því ekki á óvart að Whitaker hafi landað Óskarnum, BAFTA og Golden Globe fyrir besta leik í aðalhlutverki fyrir myndina.

En það sem gerir þessa mynd svo góða er ekki bara leikurinn og karakterarnir, heldur sagan sjálf. Sagan er mjög sannfærandi og innlifunin er fullkomin. Ég upplifði mig í sporum skoska læknisins, og góðar myndir snúast alltaf um að áhorfandinn finni sjálfan sig í myndinni og upplifi hana því á sterkan hátt.

Mér fannst gaman að horfa á myndina aftur, núna á dvd, samanborið við að hafa farið á hana í bíó í fyrsta sinn. Myndin var miklu áhrifaríkari og einfaldlega betri á hvíta tjaldinu heldur en á sjónvarpsskjánum, en ég hef aldrei fundið þennan mun mjög skýrt áður. Þessi reynsla kveikti hjá mér löngun til að fara í bíó aftur sem fyrst. Popp, kók og risastórt tjald – það kemur einfaldlega ekkert í staðinn fyrir það.

Some Like It Hot (1959)

Some Like It Hot er langfrægasta mynd leikstjórans Billy Wilder. Myndin skartar meðal annarra þeim Jack Lemmon og Marilyn Monroe. Myndin er grínmynd og góð sem slík. Myndin fjallar í stuttu máli um tvo tónlstarmenn og félaga sem, vegna ytri aðstæðna, þurfa að dulbúa sig sem konur og túra með kvennahljómsveit. Ofan á þetta bætist síðan tvennt: Annar mannanna (Jack Lemmon) verður ástfanginn af einni hljómsveitarstúlkunni (Marilyn Monroe) og hinn lendir í því að annar maður verður ástfanginn af “henni.”

Það er óhætt að segja að Billy Wilder viti hvað hann syngur þegar kemur að kvikmyndagerð. Framvindan, klippingar, tökustíll og heildarmynd sögunnar kemur allt vel út og húmorinn er alltaf í lagi. Myndin var enda tilnefnd til Óskarsverðlauna þetta ár fyrir leikstjórn, handrit, aðalkarlleikara (Lemmon) og listræna stjórnun. Auk þess fékk myndin óskarsverðlaun fyrir búninga. Einnig vann myndin Golden globe verðlaun sem besta grínmyndin það sama ár.

Ástæðan fyrir því að hún hefur ekki verið tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta mynd hlýtur að vera vegna þess að hún er grínmynd. Í seinni tíð hefur lofi verið ausið yfir hana. Hjá American Film Institue var myndin nýlega til dæmis valin besta grínmynd allra tíma, og í 14. sæti sem besta kvikmynd allra tíma. Persónulega fannst mér hún ekki ná þeim hæðum – en í þetta sinn skil ég fullkomlega dýrkunina á myndinni. Some Like it Hot er mynd sem á þessa athygli skilið.

Thursday, November 8, 2007

Elizabeth: The Golden Age (2007)

Á þriðjudagskvöld fór ég í Háskólabíó á myndina Elizabeth. Eins og nafnið bendir til fjallar myndin um Elísabetu Englandsdrottningu og er hún leikin af Cate Blanchet Leikstjóri myndarinnar er Shekhar Kapur.

Það besta við myndina var klárlega sögusviðið. Sögulegar myndir eða períódu-myndir búa yfir því leynivopni að geta sýnt áhorfendum heim sem þeir hafa ekki séð áður. Búningarnir í þessari mynd, propsið og umhverfið var stórglæsilegt og þetta er einna best útlítandi mynd sem ég hef séð lengi. Það eitt og sér tryggði að myndin myndi ekki valda vonbrigðum.

Elizabeth bar hins vegar fleiri einkenni Hollywood-myndar heldur en flott útlit, og það var í raun gallinn við hana. Myndin einblínir allt of mikið á sálarkreppu og sjálfsvorkunn drottningarinnar, sem er sÍfellt döpur yfir eigin ástarlífi, sem er ekki upp á marga fiska. Þetta sjónarhorn, sem á að sýna drottninguna frá persónulegu ljósi, veikir hana mjög sem leiðtoga í myndinni. Hún er alltaf hrædd, döpur og úr jafnvægi. Í stað þess að einbeita sér að því að stjórna ríkinu virðist hún einungis stunda skemmtana- og hirðlífið. Í myndinni er því Elísabet sýnd sem veikgeðja sjálfsupptekin kona sem sinnir þegnum sínum lítið sem ekkert. Þessi mynd af drottningunni er auðvitað kolröng, og ég efast um að handritshöfundurinn hafi ætlað sér að sýna drottninguna á þennan hátt.

Á sama tíma er “vondi kallinn”, Hinrik fyrsti Spánarkonungur, að höggva niður heilu skóganna og byggir upp risastóran flota til að leggja England undir sig. Með öðrum orðum beinir hann öllum sínum kröftum að Spáni á meðan Elísabet beinir allri sinni athygli að sér sjálfri. Aftasti hluti myndarinnar, þar sem stríðið við Spánverja fer fram, virkaði því afar einkennilega á mig. Elísabet, tilfinningahrúgan, er skyndilega komin í herbúning og heldur þrusuræðu yfir enska hernum. Sú sena, eins flott og hún er, er í algeru ósamræmi við þá mynd sem áhorfendur höfðu séð fram að stríðinu, og virkaði klisjukennd og ósannfærandi. Stríðinu lýkur á þann hátt að Englendingar kveikja í sex skipum og sigla þeim inn í spænska flotann, sem brennur allur. Þetta var því sannur Hollywood endir, allt springur í loft upp og engra spurninga er spurt.

Þessi ofur-ofur-einföldun á sögunni fór í taugarnar á mér. Endirinn virkaði illa á mig of virkaði ósanngjarn. Englendingum tekst að sigra öflugasta flota heims á einu Hollywood-eldskipa-trikki og sá leiðtogi sem stóð sig best, Spánarkonungur, tapaði þrátt fyrir alla erfiðisvinnuna – bara vegna þess að hann átti að vera vondi gæinn. Á sama tíma sigrar Elísabet þótt hún hafi ekkert gert til að verðskulda sigurinn.

Fyrst verið er að dæla svona miklum peningum í að kvikmynda sögu Elísabetar Englandsdrottningar hefði mátt gera það á mun raunverulegri hátt. Mannkynssagan er nógu áhugaverð út af fyrir sig. Það þarf ekki að ofureinfalda hana til að gera hana áhugaverða. Að því sögðu var myndin samt sem áður sannkölluð himnasending samanborið við La règle du jeu.

Monday, November 5, 2007

La règle du jeu (1939)

Þessi mynd var sýnd í kvik- mynda- fræði eftir skóla á mánudegi fyrir viku. Þetta er frönsk mynd í leikstjórn Jean Renoir og markaði hún einn af hápunktum rómantísku raunsæisstefnunnar í Frakklandi á fjórða áratug síðustu aldar.

Ég hef ekki mjög sterkar skoðanir á þessari mynd - sá í rauninni ekkert áhugavert eða eftirtektarvert við hana. Rómantíska raunsæisstefnan í Frakklandi virkar á mig sem afar óáhugaverð stefna í dag samanborið við þróunina í kvikmyndagerð frá þeim tíma.

Ég skil að mörgu leyti þá pælingu að við þurfum að sjá myndir frá fjölbreyttum og mörgum tímabilum, en er ekki hægt að hafa myndir sem eru skemmtilegri, til að halda áhuganum á faginu í hámarki? 8½ fékk dræm viðbrögð, og þessi mynd var á engan hátt skemmtileg heldur.

Leikurinn og leikstjórnin var ýkt, óraunveruleg og ekki fyndin – leikararnir léku eins og í leikriti en ekki eins og í kvikmynd og útkoman var einhæfur og einfaldur farsi sem skildi ekkert eftir sig.

Ég hlakka til að komast í nútímalegri kvikmyndir eftir jól, þar sem kvikmyndalistin er komin svo miklu miklu lengra í dag miðað við þá tíma sem við erum að skoða þessa dagana.

Tuesday, October 23, 2007

Notorious (1946)

Þessa kvikmynd sáum við í kvikmyndafræði í síðustu viku. Myndinni er leikstýrt af Alfred Hitchcock og leika Ingrid Bergman og Cary Grant aðalhlutverkin, Aliciu og Devlin.

Þegar ég sá þessa mynd áttaði ég mig betur á þróuninni í kvikmyndagerð frá þessum tíma og fram að okkar dögum. Að öllu jöfnu veita kvikmyndir frá tíma Notorious minni innlifun heldur en kvikmyndir í dag. Kvikmyndatakan var stöðugri, atburðarrás einfaldari og hægari og kvikmyndalistin líkti í raun meira eftir veruleikanum. En hver vill það? Er ekki einmitt það besta við kvikmyndir hversu hraða, síbreytilega og lifandi atburðarrás þær geta sagt?

Annað dæmi er leikurinn. Mér finnst kvikmyndaleik hafa farið fram í gegnum árin. Í Notorious finnst mér ég sjá að leikararnir séu að leika, á meðan myndir eins og t.d. Requiem for a Dream og The Matrix láta mann gleyma öllu öðru. Þegar horft er á gamlar myndir finnst mér hugurinn reika mun meira í annað, t.d. pælingar varðandi kvikmyndatöku, leik o.fl. – með öðrum orðum er minna í gangi á kvikmyndatjaldinu. Ég vil fara í bíó og gleyma staði og stund – einfaldlega sökkva mér í söguna algerlega og ekki pæla í því hvort ákveðinn leikari sé að leika vel eða ekki.

Notorious er samt augljóslega klassamynd, sérstaklega miðað við sinn tíma. Flestir leikararnir leika einstaklega vel, og þá Claude Rains, sem leikur Alexander Sebastian. Hins vegar eru persónurnar ofureinfaldar og allt að því barnalegar í samskiptum sínum. Sem dæmi má nefna að ofuraugljóst er hverjir eru vondir og hverjir eru góðir og samskiptaleysið milli Aliciu og Devlin, hvernig stoltið þeirra skemmir fyrir sambandinu, er óraunverulega mikið. Þau tala í rauninni aldrei saman um hvað þeim finnst í alvörunni heldur leika leiki allan tímann. Þetta dró úr samsvörun minni með persónunum og þar af leiðandi úr skemmtanagildi myndarinnar.

Niðurstaðan er að ég kann enn betur að meta góðar nýjar bíómyndir eftir að hafa upplifað Notorious nostalgíuna. Klipping, kvikmyndataka, kvikmyndaleikur og handritaskrif, í raun flestar hliðar kvikmyndagerðar, hafa þróast mjög mikið frá því að Notorious var á toppinum.

Notorious slökkti því í nostalgíunni hjá mér.

Tuesday, October 16, 2007

My Kid Could Paint That (2007)

Seinni myndin sem ég fór á á RIFF er einnig heimildarmynd. Ég skellti mér á þessa með Marinó Páli Valdimarssyni og höfðum við gaman að henni. Mér finnst leiðinlegt að hafa ekki komist á fleiri myndir á þessari hátíð, sérstaklega þar sem ég borgaði fyrir hálft klippikort og borgaði því í raun 1125 fyrir hvora bíómynd sem ég sá. Það verður að teljast afar hátt bíóverð!

My Kid Could Paint That fjallar um stelpu sem heitir Marla, fjölskyldu hennar og vini. Marla er stelpa sem byrjar þriggja ára að mála abstrakt-málverk og verkin hennar ná fljótt mjög miklum vinsældum og seljast fyrir háar upphæðir. Listasérfræðingar lofsyngja málverk litlu stelpunnar og fjölskyldan er búin að selja málverkin hennar fyrir yfir 300.000 dali þegar 60 minutes fjalla um stelpuna. Þar er pabbi hennar ásakaður um að hafa málað verkin fyrir stelpuna og dökk mynd dregin upp af þessu ævintýri. Þetta reynir mjög mikið á fjölskylduna og mamman dauðsér eftir að hafa selt málverk stelpunnar í upphafi. Nú kemur í ljós að ástæðan fyrir því að heimildarmyndargerðarmanninum er leyft að vera með þeim svona lengi er tilraun foreldranna til að sýna að Marla hafi málað allt sjálf. Niðurstaðan í lok myndar er samt í raun óvissa og sjálfur trúi ég því að pabbinn hafi átt stóran þátt í mörgum verkanna.

Heimildarmyndir eru svo ótrúlega ólíkar kvikmyndum og stuttmyndum að því leyti að þær eru teknar upp í raunveruleikanum og reyna að segja sögu á skýran hátt. Allar pælingar um sviðsetningu og þess háttar eru því mun grynnri og meira hugsað um að klippa saman á sem áhugaverðastan hátt hundruði klukkustunda af upptökuefni. My Kid Could Paint That tekst það vel – sagan er áhugaverð og tekur sífellt nýjar beygjur, en er ekki sögð flatt út. Gallinn við hana er helst að viðmælendurnir eru ekki allir mjög áhugaverðir, til dæmis er mikið talað við vinkonu fjölskyldunarinnar sem virkaði eins sem móðursjúk húsmóðir frekar en áhugaverður álitsgjafi.

Líkt og Helvetica, hin heimildarmyndin sem ég sá, sýndi My Kid Could Paint That mér nýjan heim að mörgu leyti – heim nútímalistar og abstraktlistar. Hvað kallar maður list sem þriggja ára stelpa getur málað á heimsmælikvarða? Er það list? Aftur á móti eru mörg málverkanna hennar (eða pabba hennar) ótrúlega falleg, þótt það eina sem máli virðist skipta er hver hafi málað verkið, ekki hvernig það líti út.

Þetta var seinni RIFF færslan mín, ég var einnig að lengja þá fyrri til að ná 300 orða markinu. Von er á pistli um Notorious innan skamms.

Thursday, October 4, 2007

Zodiac (2007)

Ég sá þessa mynd með pabba mínum í fyrradag. Hún var nokkuð óvenjuleg að ýmsu leyti. Við fylgjumst með morðum fjöldamorðingjans Zodiac í bland við rannsókn lögreglunnar á málinu. Lögreglan gefst loks upp á rannsókninni en skopteiknari á dagblaði sem hefur mikinn áhuga á málinu heldur áfram rannsókninni í mörg ár.

Myndin er byggð á sannsögulegum atburðum og gefur það henni mun meira spennandi blæ. Í “making of” hluta disksins sé maður hversu nákvæmur David Fincher, leikstjórinn, er í að líkja eftir atburðunum eins og þeir gerðust í raun. Sem dæmi má nefna senu við stöðuvatn þar sem Zodiac drepur ungt par. Leikstjórinn fær lögregluna til að finna rétta staðinn nákvæmlega og lætur flytja tré á staðinn með þyrlu til að skóglendið sé nákvæmlega eins.

Tökurnar tóku yfir 100 daga og hefur þessi nákvæmni leikstjórans líklega kostað bæði mikla peninga og tekið tíma. Ég velti því fyrir mér til hvers þessi smámunasemi sé – hvort hún sé þess virði. Í ofannefndri senu velti ég til dæmis ekkert fyrir mér staðsetningu trjánna og ég ímynda mér að litlu hefði breytt ef leikstjórinn hefði sleppt því að færa þau til með þyrlu.

Annars var myndin skemmtilega uppbyggð. Það voru engar fléttur í henni, sagan var rakin í beinni tímaröð allan tímann og náði yfir mörg ár. Fyrir tveggja og hálfs tíma mynd verður svoleiðis uppbygging reyndar örlítið langdregin, en góður leikur og flott umhverfi kom í veg fyrir að manni leiddist. Zodiac var því ágætis mynd og metnaðarfull.

Monday, October 1, 2007

Helvetica *uppfært*

Fyrsta Riff-myndin sem ég fer á. Ég skellti mér á myndina með Ingólfi Halldórssyni síðastliðinn laugardag. Myndin er heimildarmynd um leturgerðina Helvetica sem er orðin sú útbreiddasta í heimi og fagnar fimmtíu ára afmæli í ár.

Það sem ég kunni mest að meta við þessa mynd er hversu áhugaverðir viðmælendurnir í henni eru. Myndin samanstendur einungis af viðtölum við fólk sem tengist leturgerðinni á einn eða annan hátt og því veltur myndin fyrst og fremst á viðmælendunum. Þar fylgir hver meistarinn á fætur öðrum, allir með áhugaverðar pælingar, flottar myndlíkingar og sérstakan og skemmtilegan húmor.

Myndin sýndi mér inn í heim sem ég hafði ekki séð næstum því svona vel áður – heim hönnuða í Evrópu og Bandaríkjunum. Það er ótrúlegt hversu sterkar skoðanir er hægt að hafa á einni leturgerð. Í upphafi heimildarmyndarinnar kunni ég mjög vel að meta leturgerðina, um miðja mynd þoldi ég hana ekki en undir lokin var ég farinn að fyrirgefa henni aftur. Þetta var einnig svona í myndinni – sumir hönnuðirnir fyrirlíta Helvetica á meðan aðrir lofsyngja hana.

Heimildarmyndin fer einnig rækilega í sögu leturgerðarinnar; hvernig og hvar hún varð til, hver/hverjir hönnuðu hana og hver prinsippin að baki henni eru. Þessi rannsóknarvinna leiðir höfund myndarinnar um alla Evrópu og til Bandaríkjanna og gefur þessi alþjóðabragur myndinni áhugaverðan og faglegan blæ.

Áhugavert við þessa mynd er að höfundur heimildarmyndarinnar talar aldrei í allri myndinni og lætur viðmælendurna einungis sjá um að byggja myndina upp. Sú aðferð er örlítið þurr - oft væri maður til í að heyra örlítið í "sögumanni" til að leiða myndina áfram. En þessi stíll er einnig ferskur að mörgu leyti - myndin snýst einungis um viðfangsefnið og sá sem gerir hana er ekki að því fyrir sjálfan sig.

Fyrsta ferðin á RIFF var því skemmtileg. Næst stefni ég á að fara á My Kid Could Paint That klukkan 20 og XXY klukkan 22 á fimmtudaginn.

Das Leben der Anderen

Þessa mynd sá ég hjá Jóni Gunnari í síðustu viku, en Jón Gunnar hafði leigt hana með Stefáni Jökli vini okkar í kjölfar miilla meðmæla sem myndin fékk. Eins og alþjóð veit þá lofsöng Árni Þór þessa mynd á kvikmyndagerðarblogginu sínu um daginn og auk þess sagði pabbi Stefáns Jökuls þetta bestu mynd sem hann hafði séð um ævina. Það var því með mjög háar væntingar sem við settumst niður með Trópí og Dórítós og ýttum á Play.

Myndinni tókst furðu vel að standa undir væntingunum miðað við hversu gríðarlega háar þær voru. Leikurinn var góður, Austur-Þýskt umhverfið mjög flott og áhugavert og sagan sterk og góð. Eitt það sterkasta í myndinni finnst mér vera persónusköpunin. Sem dæmi sest HGW yfirmaður og njósnari hjá Stasi, við verkamannaborð í mötuneyti Stasi, en ekki við yfirmannaborðið, og segir “sósíalisminn verður að byrja einhvers staðar.” Þetta var mjög sterkt tákn um lífssýn mannsins og þegar á myndina leið sér maður hvernig þessi trú brestur.

Það sem pirraði mig við þessa mynd var soundtrackið – ég hefði viljað meiri tónlist – og myndatakan. Á köflum fannst mér klippingar of hægar og myndavélin of stöðug. En auðvitað eru þetta alger smáatriði. Málið er bara að það skemmir ótrúlega mikið fyrir myndum að fara á þær og búast við einhverju trylltu. Ég velti því fyrir mér hvernig hægt væri að losna við þennan leiðindafaktor þegar að kvikmyndum kemur – hvort hægt sé að “núllstilla” sig áður en horft er á mynd, þannig að allar myndir séu metnar á sambærilegan hátt, en ekki eftir skapsveiflum eða væntingum.

Thursday, September 27, 2007

RIFF – tíu áhugaverðar myndir (seinni hluti)

Þetta er seinni hlutinn af listanum yfir þær myndir sem mig langar mest að sjá á RIFF í ár. Fyrri hlutann má sjá hér að neðan og inniheldur hann flokkana “Heimildarmyndir”, “Mannréttindi: Írak”, “Ísland í brennidepli” og “Miðnæturmyndir”.

Heimildamyndir
My kid could paint that / Krakkinn minn gæti málað þetta
Bandaríkin (2007)

Þessi hljómar mjög hress, hún fjallar um fjögurra ára stelpu sem varð heimsfrægur málari og seldi málverk á yfir 300.000 dollara! Stelpunni var líkt við Picasso og 60 minutes fjölluðu um málið. Þetta er mjög áhugavert efni, veltir upp spurningum um hvað sé list í raun og veru og hvað sé alvöru málverk og hvað sé einfaldlega rusl.


Mannréttindi: Írak
Iraq in fragments / Írak í brotum
Bandaríkin, Írak (2007)

Mig langar að sjá þessa mynd af því að hún er tekin upp í Írak og fjallar um þrjár ólíkar hliðar á Íraksstríðinu. Auk þess var hún tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta heimildarmynd ársins 2007, þannig að það hlýtur eitthvað að vera varið í hana.


Ísland í brennidepli
Sigur Rós – Heima
Ísland (2007)

Þessi mynd á varla heima hérna, mig langar ekkert sérstaklega að sjá hana, en Árna Þór Árnason langar svo gríðarlega að sjá hana að hann er búinn að smita örlítið frá sér. Ef ég sé hana þá ætla ég að fara á hana á opnunarsýningunni, það er örugglega stemning að fara á opnunarmyndina.


Miðnæturmyndir
Black Sheep / Svartir sauðir
Nýja-Sjáland (2006)

Hryllingsmynd um erfðabreytt sauðfé á Nýja-Sjálandi og tæknibrellumennirnir unnu við Lord of the Rings. Hljómar eins og góð blanda.


Miðnæturmyndir
Trippið / The Tripper
Bandaríkin (2006)

David Arquette leikstýrir þessari mynd, en mér hefur alltaf fundist hann skemmtilegur. Auk þess að vera hryllingsmynd gerir hún mikið grín að sjálfri sér, sem hljómar frumlega og vantar oft í bíómyndir. Auk þessa á myndin að vera rammpólitísk. Mér finnst mjög spennandi að sjá hvernig Arquette fer að því að sameina hryllingsmynd og pólitíska ádeilumynd.


Það tók mig næstum klukkustund að skoða dagskránna og myndirnar sem eru í boði, en alls eru 80 myndir á RIFF í ár. Það er mjög erfitt að ákveða hvaða myndir eru þess virði að fara á út frá dagskránni einni saman. Feedback á listann og uppástungur um myndir sem ættu einnig að vera á listanum væri því vel þegið!

RIFF – tíu áhugaverðar myndir (fyrri hluti)

Eftir að hafa rennt í gegnum dagskrá kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík skrifaði ég niður þær myndir sem mig langar mest að sjá á hátíðinni. Ég fjárfesti í passa á móti Marinó Páli Valdimarssyni og er markmiðið að sjá að minnsta kosti þrjár myndir á hátðinni. Þessi listi byggist næstum bara á bæklingnum og þar af leiðandi textanum um myndirnar í honum, en minna á reynslu af leikstjórunum eða einhverju þess háttar, því hún er einfaldlega ekki til staðar.


Vitranir
Klopka / Gildran
Serbía, Þýskaland, Ungverjaland (2007)


Serbnesk hjón komast að því að sonur þeirra er með banvænan hjartasjúkdóm og þarf að fara til Berlínar í 26.000 evra skurðaðgerð. Þau eiga að sjálfsögðu ekki þann pening en þurfa að eignast hann á skömmum tíma. Þessi söguþráður finnst mér vera mjög áhugaverður.


Vitranir
Bangbang wo aishen / Hjálpaðu mér Eros
Taívan (2007)

Lost in Translation er með betri myndum sem ég hef séð. Þessi mynd virðist slá á svipaða strengi að einhverju leyti. Einmana maður sem tapaði öllu á verðbréfamarkaðnum dettur í þunglyndi og kynnist síðan stúlku sem selur hnetur fyrir utan húsið hans. Saga um “firringu neyslumenningarinnar”, eins og bæklingurinn orðar það, hljómar mjög líkt umfjöllunarefninu í Lost in Translation.


Fyrir opnu hafi
4 luni, 3 saptamani si 2 zile / 4 mánuðir, 3 vikur og 2 dagar
Rúmenía (2007)

Mér finnst umfjöllunarefnið ekkert rosalega spennandi (ólögleg fóstureyðing í Austur-Evrópu), en þetta er lokamynd hátíðarinnar, fékk gullpálmann í Cannes og margir mæla með henni.


Fyrir opnu hafi
Ledsaget udgang / Tímabundið frelsi
Danmörk (2007)


Dönsk mynd, sem lofar oft góðu, sem fjallar um atvinnukrimma og fangavörðin hans sem fara í brúðkaup sem krimminn fær tímabundið leyfi til að fara í. Þegar nær er komið kemur í ljós að persónurnar eru mun flóknari en virtist í fyrstu.


Heimildamyndir
Helvetica
Bandaríkin (2007)


Heimildarmynd um mjög óvenjulegt umfjöllunarefni, leturgerðina Helvetica! Samkvæmt dagskránni sló myndin í gegn og hefur verið á stanslausum sýningum á kvikmyndahátíðum og er full af viðtölum við hönnuði og listamenn um hvernig leturgerðin hefur orðið sú vinsælasta í heimi og er orðin 50 ára í ár.

---

Þetta var fyrri hlutinn. Hann inniheldur þær myndir sem mig langar að sjá í flokkunum “Vitranir” og “Fyrir opnu hafi”. Seinni hlutinn kemur innan skamms.

Monday, September 17, 2007

Mobile (2007)

Mobile er glæný þrískipt saga sem sýnd var á bresku ITV sjónvarpsstöðinni fyrr á árinu. Hver þáttur er klukkustund að lengd og segja þeir sömu sögu út frá sjónarhorni mismunandi persóna.

Fyrsti þátturinn fjallar um mann sem fær hausverki af símnotkun sem kemur í ljós að stafa af heilaæxli. Hann kennir farsímum um og á sama tíma fara farsímamöstur að eyðileggjast og fólk sem talar í farsíma á götum úti er skotið úr launsátri. Grunurinn beinist fljótt að manninum…

Annar þátturinn fjallar um hermann sem er í Írak þegar hann fær þær fréttir að konan hans og barn séu dáin eftir umferðaslys. Maður sem var að tala í farsíma keyrði á þau á gangbraut og stakk af í kjölfarið. Hermaðurinn er kallaður heim og er algerlega rótlaus þar sem stríðið hafði hug hans allan fram að áfallinu. Hann leiðist síðan út á vafasamar brautir í leit að morðingjanum.

Þriðji þátturinn fjallar um manninn sem keyrði yfir konuna og barnið. Þessi þriðja og síðasta saga samtvinnar allar þrjár sögurnar á snilldarlegan hátt og hef ég sjaldan séð eins vel skrifað handrit.

Eftir að hafa horft á þessa þætti hef ég mikinn áhuga á að sjá meira af bresku sjónvarpsefni, sérstaklega ef viðmiðið í handritaskrifum er svona hátt. Eftir þessa þrjá þætti stendur eftir áhrifamikil, margþætt og flókin saga þar sem enginn er málaður “slæmur” eða “góður”. Persóna sem er “vond” í fyrsta þætti er skyndilega “góð” í þeim næsta, og áhorfandinn þarf í rauninni sjálfur að taka afstöðu um hvað sé rétt og hvað sé rangt. Þetta er kærkomið mótvægi við bróðurpartinn af bandarísku efni, þar sem heimurinn er ofureinfaldaður og allir eru í vonda liðinu eða góða liðinu.

Myndatakan og útlitið á þáttunum er annað sem mér fannst áhugavert. Þættirnir eru teknir upp stafrænt og nýta þáttagerðarmenn sér möguleika þeirrar tækni vel með því að nota nútímalega og töff litasamsetningu. Tónlistin hentar líka þáttunum vel; hún er notuð sparlega og byggir þar af leiðandi upp mikla spennu þegar hún er notuð.

Endilega kíkið á þessa þætti, þetta “þrisvar sinnum ein klukkustund” form er mjög skemmtilegt mótvægi við hefðbundna sjónvarpsþætti og bíómyndir. Mobile nýtir sér þetta afbragðsvel.

The Thing (1982)

Síðastliðið laugardagskvöld sá ég myndina The Thing heima hjá Jóni Gunnari Jónssyni, stórvini mínum og bróður Halldórs Hauks Jónssonar.

Hjá Jóni Gunnari voru nokkrir aðrir meistarar úr kvikmyndagerðinni, þeir Ingólfur Halldórsson, Árni Þór Árnason og Marinó Páll Valdimarsson. Áhugavert verður að fylgjast með bloggsíðum þeirra á næstu dögum og bera þeirra upplifun af þessari mynd saman við mína.

The Thing gerist á Suðurskautinu í einangraðri bandarískri rannsóknarstöð. Rannsóknarmennirnir grafa geimveru í dvala upp úr ísnum og hún veldur usla (blóðsúthellingum) í rannsóknarstöðinni með tilheyrandi spennu.

Þessi mynd var skemmtileg og augljóslega mjög mikið lagt í hana. Tæknibrellurnar voru einstaklega góðar miðað við að hafa komið út árið 1982 og myndin hefur líklega kostað skildinginn á sínum tíma. Ég hélt alltaf að The Empire Strikes Back, sem kom út á svipuðum tíma, hefði verið langt á undan sínum samtíma í tæknibrellum en þessi mynd kemst nokkuð nálægt henni á því sviði.

Annað sem ég kunni að meta við þessa mynd er hversu miklir töffarar allar persónurnar voru. Engar konur eru í myndinni og rannsóknarmennirnir voru alltaf svalir, jafnvel þótt þeir vissu að dauðinn væri óumflýjanlegur. Það var eitthvað töff við þennan kulda í persónunum, sem samblandað ískuldanum og einangruninni á Suðurskautinu gefur myndinni áhrifaríkan blæ.

Maður tekur eftir því að myndin sé komin til ára sinna, en það þarf ekki endilega að vera galli. Tónlistin er allt öðruvísi en tíðkast í dag og söguþráðurinn og uppbyggingin í myndinni eru einföld en myndir hafa oft samtvinnaðri atburðarás nú á dögum.

Mesti munurinn liggur þó í kvikmyndatökunni. Þessi mynd er að mörgu leyti sambærileg við Sphere, sem ég skrifaði um hér að neðan, og gaman er að bera saman kvikmyndatökuna. Í The Thing er mikið um “pan”-skot, stöðug skot og víð skot – á meðan Sphere er mikið með hreyfð skot og hraðar klippingar til að byggja upp spennu. Afleiðingin verður sú að spennan er minni en hún hefði getað verið, að minnsta kosti miðað við óhuggulegt útlit geimveranna.

Eftir stendur að þessi mynd er töff, hún hefur góðan nostalgíu-fýling og er virkilega vel gerð. Ég mæli með henni.

Allur snjórinn í The Thing lét mig vilja sjá Fargo aftur. Ég verð að gera það sem fyrst...

Friday, September 14, 2007

Óslípaður demantur

Ég, Marinó, Emil og Svavar gerðum stuttmynd í fyrradag. Hér fylgja hugleiðingar um gerð myndarinnar.

Fyrst ber að nefna að hópurinn á undan okkur sýndi okkur þá svívirðilegu vanvirðingu að afhenda okkur myndavélina með báðum batteríum galtómum. Þetta olli því að á tímabili neyddumst við til að skjóta með myndavélina í sambandi. Okkur tókst þó að vinna okkur framhjá þessum erfiðleikum þannig að þeir ættu ekki að bitna á gæðum stuttmyndarinnar.

Upplegg myndarinnar var hasarmyndar-trailer. Hugsunin á bakvið það var að stuttmyndir af þessari gerð eru oft leiðinlegar ef mikið er um samtöl og rólegar senur. Hasarmyndar-trailer gefur einnig mikið freslu til að prófa mjög marga mismunandi hluti: Ýmsar gerðir sjónarhorna, úti- og innisenur, hægar og hraðar klippingar, þröng og víð skot o.fl.

Hugmyndir að mörgum skotum og stílbrigðum fengum við úr öðrum kvikmyndum og hasarmyndatrailerum. Sem dæmi um myndir sem veittu myndinni innblástur eru Snatch, Bourne Ultimatum og Requiem for a Dream.

Stuttmyndin bar vinnuheitið “óslípaður demantur” og er um 5 mínútur að lengd. Okkur reiknast til að hver mínúta í myndinni hafi tekið um 1,5 klst af vinnu. Þetta opnaði augu okkar fyrir því hversu gríðarlegan tíma kvikmyndagerð tekur.

Astrópía var tekin upp á 30 dögum, sem þýðir að miðað við 90 mínútna mynd og 12 klst tökudag eru um 4klst af tökum á bakvið hverja mínútu í myndinni. Það verða að teljast afar snögg vinnubrögð. Áhugavert væri að vita hversu margar klst af tökum eru á bakvið hverja mínútu í stórum mainstream kvikmyndum. Veit það einhver?

Topp tíu

Þá er topp tíu listinn tilbúinn. Myndir sem komu til greina en enduðu ekki á listanum:

Heat
Mystic River
Full Metal Jacket
Se7en
American Beauty
Goodfellas
The Shawshank Redemption
The Godfather: Part II
Abre los ojos
The Truman Show
Donnie Darko

Hér eiga að vera mun fleiri myndir og mun ég fjölga þeim í vetur.

Sphere (1998)


Síðastliðna helgi skelltum við okkur nokkrir á Laugarásvídeó og leigðum Sphere. Þetta er vísindaskáldsaga sem fjallar um hóp sem sendur er ofan í Atlantshafið til að rannsaka risastórt geimskip, en vísbendingar eru um að líf sé í geimskipinu.

Þrátt fyrir að Sphere sé augljóslega ekki háklassamynd – t.d. er atburðarásin ótrúverðug og karakterarnir klisjukenndir – þá kunni ég vel að meta hana. Framandi tækni og pælingar um hvernig heimurinn er í framtíðinni er eitthvað sem hefur alltaf heillað mig mjög mikið.

Samuel L. Jackson er eftirminnilegastur af leikurunum. Þótt trúverðugleika karaktersins hans sé fórnað oftar en einu sinni til að gera myndina spennandi þá stendur maðurinn alltaf fyrir sínu. Ein versta mynd sem sést hefur lengi í bíó, Snakes on a Plane, varð til dæmis ótrúlega skemmtileg bara út af honum. Samuel L Jackson er ótrúlegur leikari - hann getur haldið uppi heilu myndunum.

Eitt sem var í góðu lagi í myndinni var spennan. Hópurinn er einangraður á botni Atlantshafsins bróðurpart myndarinnar og þegar fólk fer að deyja og ekkert er hægt að fara finnur maður virkilega vel fyrir óttanum og spennunni.

Eftir myndina er þó margt óútskýrt og handritshöfundurinn gerir ekki einu sinni tilraun til að útskýra aðalatriðin. Fyrst að handritið getur ekki svarað spurningunum sem vakna verður því að segja að þetta er ekki mjög vönduð vísindaskáldsaga. Það var í raun það sem ég var ósáttastur við - undir lok myndarinnar er í rauninni augljóst að þetta sé allt bull. Það er alveg öfugt við The Matrix t.d., þar sem söguþráðurinn er svo góður að maður veltir því næstum fyrir s1ér hvort hann geti verið sannur.

Sphere er fín spennumynd yfir poppi og rauðum kristal plús, en ekki mikið meira en það.

Saturday, September 8, 2007

Veðramót

Í gær fór ég á frumsýningu Veðramóta með foreldrum mínum. Það var margt virkilega áhugavert við þessa mynd. Þar sem ég er nýbúinn að sjá Astrópíu ætla ég að bera þessar tvær myndir dálítið saman.

Veðramót fjallar um Breiðuvík, vistheimili fyrir unglinga þar sem Lalli Johns var meðal annars vistaður á sínum tíma. Myndin á sér hins vegar stað á hippatímabilinu á Íslandi, eftir "Breiðavíkurhneykslið" margfræga. Sagan fjallar um fólk sem kemur eftir það mál og ætlar að rífa staðinn upp og koma honum í gagnið á nýjum forsendum - með jákvæðu og uppbyggjandi andrúmslofti og með því að vera vinir krakkanna.

Eftir að hafa frétt að Astópía væri tekin upp digital tók ég strax eftir því að Veðramót var tekin upp á filmu (35mm) og er munurinn töluverður. Fyrir mitt leyti finnst mér mun meiri bíófílingur að horfa á myndir teknar á filmu. Digital upptökur hafa á einhvern hátt ódýrari brag yfir sér, þótt tæknin sé í raun í yfirburðastöðu. Ég velti fyrir mér hvort ekki sé einfaldlega hægt að eftirvinna digital myndir til að gefa þeim sama útlit og filmumyndir hafa?

En að myndinni sjálfri, þá kom mér á óvart hversu heilsteypta og góða sögu hún sagði. Ólíkt Astrópíu var hún algerlega laus við klisjur og staðalímyndir og mikill tími fór í persónusköpun. Þegar persónurnar lentu í hremmingum var því niðurstaðan að maður fann virkilega til með þeim.

Hluti af því gæti reyndar skrifast á betri leik. Astrópía innihélt nær enga reynda leikara á meðan stærsta hlutverkið í Veðramótum er leikið af Hilmi Snæ. Munurinn þar á er mjög mikill. Að sjá þessar tvær myndir með skömmu millibili sýnir svart á hvítu hversu mikilvægur góður leikur er fyrir kvikmyndir. Í Veðramótum finnur maður aldrei fyrir stífum samtölum eða lélegum leik, en það truflaði mig mjög mikið í Astrópíu.

Loks vil ég minnast á tónlistina í Veðramótum, en hún er með því betra sem ég hef heyrt í íslenskri bíómynd. Ragga Gísla sér um tónlistina og er stórum hluta myndarinnar bókstaflega haldið uppi af tónlistinni. Góð tónlist í kvikmynd skiptir ótrúlega miklu máli og í þessu tilfelli hefði það ekki getað farið betur.

Eins og heyra má var ég mjög ánægður með myndina. Sagan var mjög áhugaverð, myndin var vel leikin, tónlistin var afbragðsgóð og handritið vel skrifað. Það var virkilega gaman að fara í bíó og sjá góða íslenska bíómynd.

Friday, September 7, 2007

Topp tíu listinn minn, part 2


Hérna held ég áfram að reyna að koma skipulagi á topp tíu listann minn:

Full Metal Jacket (1987)


Þetta er mynd sem hafði mikil áhrif á mig þegar ég sá hana. Líkt og með Heat er langt síðan ég sá hana, en fyrri hluti myndarinnar þar sem fjallað er um þjálfun hermanna fyrir Víetnam-stríðið var mjög áhrifamikil. Þar er fjallað um mann sem höndlar ekki ómannúðlega og niðurbrjótandi þjálfun bandaríska hersins og skýtur sig þegar þjálfuninni lýkur. Mér fannst seinni hluti myndarinnar hins vegar mun síðri, minnir meira að segja að ég hafi ekki nennt að klára myndina. En fyrri hlutinn er nóg til að myndin komi til greina á topp tíu listann.

Það væri gaman að sjá þessa mynd aftur þar sem ég er nýbúinn að sjá Apocalypse Now í fyrsta skiptið. Sú mynd fannst mér ekki hafa elst nógu vel – þrátt fyrir að vera augljóslega meistaraverk á sínum tíma, sbr. senurnar þar sem “The End” Með Doors er spilað og Valkyrjueiðurinn eftir Wagner. Myndin hefur hins vegar gríðarlega hæga og ómarkvissa framvindu og undir lokin er hún orðin svo “psychedelic” að ekkert virðist meika sens lengur. Endirinn var líka mjög svo snubbóttur og ég var ósáttur með að hafa í raun beðið í tvo og hálfan tíma eftir svo litlu. Nokkuð nýlega kom út lengri útgáfa af myndinni sem heitir Apocalypse Now: Redux. Þar sem styttri útgáfan var allt of löng ætla ég aldrei að sjá þá mynd.

Topp tíu listinn minn


Eins og sjá má hérna hægra megin er topp tíu listinn minn ennþá í vinnslu. Ég á mjög erfitt með að raða myndunum í röð og fækka þeim niður í tíu. Þessvegna ætla ég að skrifa stuttlega um nokkrar af þessum myndum á næstu dögum til að reyna að fá betri mynd af því hvaða mynd á heima í hvaða sæti.

Heat (1995)

Ef eitt orð þyrfti að lýsa þessari mynd þá er það “töff”. Útlit myndarinnar, kvikmyndatakan, leikararnir, sögupersónurnar og sögusviðið – töff er orðið sem lýsir þessu öllu best. Leikstjóri myndarinnar er Michael Mann, en það besta við hana er leikaravalið. Tvö stærstu hlutverkin í myndinni eru leikin af Al Pacino og Robert De Niro – mönnum sem eru á hátindinum á þessum tíma. Sagan gerist í Los Angeles og er annar maðurinn lögga og hinn glæpamaður.

Ég man ekki nógu vel eftir myndinni eins og er, enda langt síðan ég sá hana, en ég man eftir rosalegri senu sem er skotbardagi á götum Los Angeles. Ég þarf að drífa mig að sjá myndina sem allra fyrst og rifja hana betur upp. Þá skrifa ég almennilega um hana og kemst að því hvort hún á heima á topp tíu listanum.

Astrópía


Síðastliðinn laugardag fór ég á Astrópíu. Myndin var áhugaverð að mörgu leyti og ætla ég að fara í gegnum það sem mér fannst markverðast.

Í fyrsta lagi tók ég strax eftir því að nær engir lærðir leikarar leika hlutverk í myndinni. Lágt budget hefur eflaust ráðið einhverju um það, en myndin mátti einungis kosta um 100 milljónir á meðan t.d. Mýrin kostaði um 160 milljónir. Þetta leikaraval kemur ekki að sök þegar t.d. Sveppi og Pétur eiga í hlut, enda hafa þeir löngu sannað sig sem gamanleikarar og stóðu þeir fyrir sínu í myndinni. Ragnhildur Steinunn stóð sig aftur á móti ekki nógu vel á köflum. Ástarsagan milli hennar og Playmolas var til dæmis afar ósannfærandi. Senurnar milli þeirra tveggja stífar og skringilegar og meintur neisti á milli þeirra var víðsfjarri.

Annar staður þar sem lágt budget fór í taugarnar á mér voru Role-playing senurnar. Til dæmis er stór bardagi milli aðalpersónanna og skrímsla ekki sýndur, heldur er tjaldið svart á meðan á honum stendur. Sú skringilega ákvörðun að láta lokasenuna fara fram í sýndarheiminum hefur eflaust einnig verið tekin með hliðsjón af budgeti myndarinnar, enda hefði verið miklu flottara og áhrifaríkara ef aðalpersónurnar hefðu leikið hetjur, líkt og þau voru búin að æfa sig í, gegn raunverulegri ógn. Það hefði verið raunverulegur sigur nördanna.

Loks hefði ég viljað að myndin, sem er markaðssett sem gamanmynd, væri fyndnari. Fyndnustu persónur myndarinnar, starfsmenn Astrópíu, fá of lítið af bröndurum til að vinna með og eru til dæmis nær aldrei með í hlutverkaleiknum, þrátt fyrir að vera langfyndnastir.

Ég fýla samt mjög mikið að fara á íslenskar myndir, þær vekja mann svo mikið til umhugsunar um kvikmyndagerð og stöðuna á íslandi, auk þess sem standardinn á íslenskum kvikmyndum virðist fara hækkandi – þolinmæðin fyrir lélegum myndum er orðin minni.